09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3729 í B-deild Alþingistíðinda. (2861)

82. mál, orkulög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég get ekki talið mig neinn sérstakan þjóðnýtingarmann, en ég vil samt láta í ljós það viðhorf mitt til þess frv., sem hér liggur fyrir, að ég er því samþykkur og hef verið það alltaf, að jarðhiti og jarðhitasvæði ættu að vera almenningseign þegar þeim er þannig háttað að landeigendur geta ekki notfært sér þan án meiri háttar og mjög mikillar tilfæringa. Ég held að það sé heilbrigt. Ég held að það eigi sér nægileg fordæmi í íslenskri löggjöf.

Ég held að það geti ekki verið nokkur deila um það að löggjafarvaldið getur sett þær reglur um hagnýtingar- og umráðarétt jarðhitans sem það kýs. Hitt getur þá aðeins orðið deila, sem oft kemur fyrir, hvort um sé að ræða í því tilfelli almenn takmörk eignarréttar, sem ekki eru bótaskyld, eða eignarnám sem á að greiða bætur fyrir. Hvort tveggja eru eignarskerðingar. Það úir og grúir í okkar löggjöf af eignarskerðingum, en þær eignarskerðingar eru almenn takmörk á eignarrétti, eins og í byggingarlöggjöf og alls konar löggjöf, og þær eru ekki bótaskyldar. Svo er aftur á móti eignarnám, sem er sérstök tegund af eignarskerðingu, og þá á að greiða bætur vegna þess. Hvort hér sé um að ræða, ef t. d. þetta frv. yrði samþ., almenn takmörk eignarréttar eða eignarnám eiga dómstólar úrskurðarvald um, þannig að það þarf ekkert að vera að eiga það undir áliti fræðimanna eða lagadeildar hvort hér sé um að ræða almenn takmörk eignarréttar eða eignarnám. Hverjum þeim, sem ekki vill una þessari eignarskerðingu, sem um er að tefla, án þess að fá bætur fyrir, er frjálst og fullheimilt eftir íslenskum lögum að fara í mál og leita eftir úrskurði dómstóla um það. Þeir, sem hafa trú á því að hér sé um eignarnám að ræða, fara auðvitað þá leið, og það er auðvitað ágætt að fá úrskurð dómstóla um það hvort hér sé um þess háttar eignarskerðingu að tefla eða ekki, þannig að þetta geti legið ljóst fyrir.

Hins vegar er ég alveg ósammála síðasta ræðumanni um að hér sé um eignarnám að tefla. Ég held þvert á móti að hér sé um að ræða almenn skynsamleg takmörk á eignarrétti. Í því efni verður líka að hafa í huga eðli jarðvarmans, sem sé að jarðvarmi er ekki eitthvað sem liggur fyrir á einhverjum ákveðnum bletti. Þetta er sístreymandi, í mörgum tilfellum vatn eða gufa, og ef einn landeigandi tekur upp á því að bora hjá sér á sínu landi, þá getur hann náð þessum jarðvarma e. t. v. öllum upp og þar með svipt alla aðra landeigendur, þar sem hitinn rann eftir þeirra landi og streymdi eftir, möguleika til að ná honum upp — eða þá öfugt, að maðurinn gæti hugsanlega lagt í mikinn kostnað við að gera borholu á sínu landi og borað og náð upp jarðhita, en síðan tæki nágranninn upp á því að bora rétt við landamörkin og bora betur og næði öllum jarðvarmanum úr borholu þess sem áður hafði borað. Það er því þörf á reglum um þetta, einmitt vegna þess hversu þessum náttúruverðmætum er háttað. Þetta er alveg nákvæmlega sama sagan og menn ráku sig á með olíuna. Þess vegna t. d. var talið nauðsynlegt í Bandaríkjunum að setja reglur um olíuboranir, af því að þetta gat skeð, að nágranninn gæti rétt við landamörkin borað nýja holu sem tæki það vatn eða olíu sem var á næstu nágrannaeigninni og e. t. v. var búið að gera ráðstafanir til að ná upp á yfirborðið.

Þess vegna þýðir ekkert að vera of mikill kreddutrúarmaður eða bókstafstrúarmaður í þessu efni, heldur verður að laga reglurnar eftir skynsamlegum nýtingarþörfum. Og ég held að þegar menn skoða þetta mál, þá hljóti þeir að komast að þeirri niðurstöðu að það er þörf á því að setja almennar lagareglur um þetta efni. Nokkrar lagareglur um þetta efni munu reyndar þegar vera settar, ef ég man rétt, líklega í orkulögum.

Ég vildi aðeins taka þetta fram vegna tiltekinna ummæla í ræðu hv. síðasta ræðamanns, að þessi er mín afstaða og þessi var afstaða fyrrv. hæstv. ríkisstj.