09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3738 í B-deild Alþingistíðinda. (2868)

285. mál, lán fyrir Flugleiðir hf.

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Frv. það, sem hér kemur fyrir samdægurs og því er útbýtt í þingsölum, fjallar um lántöku á ábyrgð íslenska ríkisins fyrir mjög stórum upphæðum í þágu Flugleiða. Það hefur lengi verið á almannavitorði að beiðni um slíka ábyrgð hafi verið borin fram. Hér segir í upphafi grg. að beiðni forráðamanna Flugleiða hafi komið fram við ríkisstj. í lok okt. 1974, og ég hygg að ekki hafi liðið langur tími frá því þangað til ráðamenn Flugleiða gerðu fréttamönnum og þar með alþjóð grein fyrir þessu erindi sínu. Nú er það ekki neitt nýmæli að flugfélag, sem stundar millilandaflug, æski ríkisábyrgðar fyrir flugvélakaupum. Það hefur oft borið við áður, að vísu hvergi nærri í eins ríkum mæli og hér er gert né fyrir jafnstórum upphæðum. En hér er meira á ferðinni. Gert er einnig ráð fyrir að veitt sé heimild fyrir ríkisábyrgð á 5 millj. dollara rekstrarfjáraukningu hjá Flugleiðum og það er annað mál og allóskylt í sjálfu sér því hvort ábyrgð er veitt fyrir lántöku til flugvélakaupanna sjálfra.

Eins og hv. síðasti ræðumaður benti á hefur ríkisstj. haft þetta mál lengi til meðferðar, og ég býst við að sú meðferð og þær athuganir sem þar hafa átt sér stað hafi sérlega komið til vegna þess hvernig þessi beiðni er vaxin. Þar er gert ráð fyrir að meira en 1/4 ábyrgðarupphæðarinnar sé veittur vegna rekstrarláns.

Þessi athugun og þær ákvarðanir, sem liggja að baki þess að málið er flutt hér á Alþ. hljóta að mínum dómi að felast í frvgr. þar sem segir: „Ríkisstj. er heimilt, gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar, og með þeim skilyrðum, sem hún ákveður, þ. á m. um hlutafjáraukninga og eftirlit með fjárhagslegum ákvörðunum félagsins, að veita Flugleiðum hf. sjálfskuldarábyrgð á lánum er nemi allt að 18.5 millj. bandaríkjadala.“

Ég tel að það felist í þessum orðum að ríkisstj. hafi þegar að lokinni þeirri 1öngu athugun, sem átt hefur sér stað, tekið ákvarðanir um hvaða trygginga hún ætlar að krefjast, hvaða skilyrði hún ætlar að setja, sér í lagi um hlutafjáraukningu og eftirlit með fjárhagslegum ákvörðunum Flugleiða. En ég tel það óhafandi að Alþ. sé ekki skýrt frá því hver efnisatriði liggja að baki þessu máli. Að hverju er miðað? Hvað á að setja að skilyrðum fyrir veitingu þeirrar ábyrgðar sem um er rætt? Ég tel að alþm. eigi heimtingu á því að fá þessar upplýsingar, alveg sér í lagi vegna þess að hér er að stórum hluta um að ræða ríkisábyrgð til að bæta rekstrarfjárstöðu Flugleiða.

Í grg. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Það var meginniðurstaða trúnaðarmanna ríkisstj. að fyrirgreiðsla ríkisins við útvegun rekstrarfjármagns yrði ekki skilin frá fyrirsjáanlegum og nauðsynlegum flugvélakaupum félagsins á þessu ári.“

Hér virðist vera um höfuðatriði að ræða í niðurstöðum þeirra athugana sem fram hafa farið á málinu á vegum ríkisstj., en um það kemur ekkert fram, hvorki í grg. með frv. né í málflutningi hæstv. fjmrh., hvað liggur að baki þessari meginniðurstöðu, á hvaða rökum hún er reist. Ég tel nauðsynlegt að Alþ. fái upplýsingar um þetta efni ekki síður en hitt, sem ég áður nefndi, hvaða skilyrðum ríkisstj. telur að ábyrgðin verði að vera háð.

Enn fremur segir í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Þrátt fyrir endurskoðun rekstraráforma ársins 1975 til lækkunar útgjalda var það mat forráðamanna Flugleiða hf. seinni hluta árs 1974 að til þess að tryggja rekstur fyrirtækisins yfir vetrarmánuðina og út árið 1975 þyrfti félagið auk árstíðabundinna lána, lán til 5 ára að upphæð 5 millj. bandaríkjadala.“

Hvað liggur að baki þessu? Er hér um það að ræða að verið sé að breyta lausaskuldum, sem þegar eru fyrir hendi, í lán til lengri tíma? Það væri mjög æskilegt að fá einnig þetta atriði upplýst.

Ég ber þessar fsp. m. a. fram af því, auk þess sem mér finnst þær sjálfsagðar eðlis málsins vegna, að SF eiga enga fulltrúa í þeim þn. sem líklegt er að fái þetta mál til meðferðar.

Flugleiðir hf. eru stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Flugsamgöngur eru íslendingum afar mikils virði og það er fylgst af áhuga og mjög náið af stórum hluta þjóðarinnar með því hvernig rekstri þessa stóra fyrirtækis er hagað og hverja þjónustu það veitir. Það er eitt af meginforsendum þess frv., sem hér liggur fyrir, að rekstrarfjárstaða Flugleiða sé svo bágborin að nauðsyn beri til að veitt sé ríkisábyrgð á rekstrarláni til fyrirtækisins sem nemur 3/4 úr milljarði kr., en samtímis gerist það, einmitt nú í upphafi ferðamannavertíðar, að ferðaskrifstofa, sem þetta fyrirtæki rekur, auglýsir stórlækkuð gjöld af skemmtiferðum út í 1önd, og það liggur í þeim upplýsingum, sem fram hafa komið, að ferðaskrifstofan geti veitt þessa lækkun og styrkt þannig samkeppnisaðstöðu sína vegna þess að Flugleiðir hafi lækkað fargjöld sín á þessum skemmtiferðaleiðum. Það er ekkert leyndarmál að ein af þeim ráðstöfunum flugfélaganna, sem orkað hafa tvímælis að margra dómi, er þegar þau fóru út á það svið að stofna ferðaskrifstofu og hefja fyrir eigin reikning samkeppni við ferðaskrifstofur sem fyrir voru. Það fer heldur ekki milli mála að þær lækkanir flugfargjalda á fjölsóttustu skemmtiferðaleiðum, er kunngerðar hafa verið, eru ráðstöfun af hálfu Flugleiða og ferðaskrifstofu þess fyrirtækis til að bæta samkeppnisaðstöðu sína á innlendum ferðamannamarkaði. En það er sannarlega ástæða til að athuga hvað að baki býr þegar samtímis er borin fram hér á Alþ. till. um ríkisábyrgð á 750 millj. kr. láni í þágu fyrirtækisins sem greinilega er, með áðurgreinda staðreynd í huga, m. a. tekið til þess að bæta aðstöðu þess til samkeppni á innlendum ferðamannamarkaði. En slíkt þarf ekki í sjálfu sér að vera í beinu sambandi við rekstur áætlunarflugsins sem þarna skiptir höfuðmáli.