09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3740 í B-deild Alþingistíðinda. (2869)

285. mál, lán fyrir Flugleiðir hf.

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er varla von til þess að þm. séu reiðubúnir til þess að ræða svo stórt mál eins og þetta er, margra milljarða mál, í smáatriðum þar sem þeir eru nú rétt nýbúnir að fá þetta á sín borð.

Ég rak ekki augun í þetta fyrr en núna fyrir nokkrum mínútum, og ég undrast dálítið það offors sem sýnt er af hálfu ríkisstj. við að koma þessu máli áfram að til afbrigða þurfi að koma til þess að koma málinu fram, ekki síst með tilliti til þess að beiðni þessa flugfélags var lögð fram á s. l. hausti og eins og kemur fram í grg. er skýrsla trúnaðarmanna hins opinbera tilbúin í febr., fyrir meira en 3 mánuðum. Og ég get ekki séð hvað hefur getað dvalið framlagningu þessa frv. svo langan tíma þar sem mér sýnist á þessu að menn séu alveg ákveðnir í því að veita þessa ábyrgð. Menn, sem leggja þetta fram, hljóta að hafa gert það upp við sig hvaða skilyrði þeir ætli að setja til lánveitingarinnar og í hverju eftirlit ríkisins með fjármálum flugfélagsins á að vera fólgið.

Í grg, er sagt að þessar flugvélar séu keyptar af Seaboard World Airlines í New York, en í næstu málsgr. segir að flugvélarnar hafi Loftleiðir hf. haft á leigu skv. kaupleigusamningi, en ekki sagt af hverjum. Það væri fróðlegt að fá að vita það hjá þeim, sem leggja þetta frv. fram, hvort vélarnar hafi verið leigðar beint af Seaboard World Airlines eða hvort fyrirtækið Hekla Holding í New York hafi verið þar milliliður og þá kannske fleiri. Þetta er aðeins eitt margra þeirra atriða sem ástæða væri til þess að fá vitneskju um áður en þingheimur ætti að vera tilbúinn að afgr. svo stórkostlegar ábyrgðir frá ríkinu.

Nú eru fleiri flugfélög í landinu en þetta sem annast farþegaflug á milli landa. Fyrir ekki löngu var stofnað hér flugfélag sem heitir Air Viking og er rekið, eins og flestir vita, af Guðna í Sunnu. Eins og hv. síðasti ræðumaður fjallaði nokkuð um í sambandi við ábyrgðarbeiðni á rekstrarláni, þá getur vaknað sú spurning hvort ríkið eigi að veita stórkostlegar ábyrgðir fyrir rekstrarfé þessa fyrirtækis til þess að geta slátrað endanlega Air Viking sem þessi flugfélög hafa margsinnis og í langan tíma gert ítrekaðar tilraunir til.

Ég undrast það af hverju við hér í þessari þd. fáum ekki í hendurnar um leið og frv. er lagt fram, svo seint sem það er, skýrslu trúnaðarmanna ríkisstj., eins og hér segir, eða þess manns eða þeirra manna sem hafa kannað þessa hluti af hálfu ríkisins. Mér sýnist að það hefði ekki verið til of mikils mælst þó að við hefðum fengið þá þegar í hendurnar öll gögn varðandi málið, ekki aðeins flugreksturinn einan, heldur allt það sem þetta mál varðar. Það væri einnig fróðlegt að fá að sjá hversu mikið yfirbyggingin á þessu fyrirtæki kostar, hversu mikill hluti er af rekstrarkostnaði, miðað við það sem gerist hjá flugfélögum annars staðar í heiminum. Mig grunar að hann sé hér óhóflega mikill. Þegar eitthvað hefur á bjátað þegar farið hefur verið yfir í vetraráætlun, þá sýnist manni hvergi vera hægt að spara annars staðar en með því að fækka flugliðum og engum öðrum mannskap. Það er alltaf sami stóri hausinn á fyrirtækinu, en þetta kemur eingöngu niður á þeim. Dótturfyrirtæki Flugleiða eða Loftleiða, Hekla Holding, á annað flugfélag, International Air Bahama, sem annast flugrekstur frá Bahamaeyjum til Bandaríkjanna og víðar. Það flýgur eingöngu með erlendum starfskröftum. Það ætti að vera eitt af því, sem ríkisstj. ætti að leggja áherslu á, og eitt af þeim skilyrðum, sem hún setur fyrir þessum ábyrgðum, að íslenskir starfskraftar verði notaðir við rekstur fyrirtækisins eins og frekast er unnt. Það ætti að vera ein af lágmarkskröfunum sem gera ætti til þess að unnt væri að fallast á að veita ábyrgðina.

Ríkisábyrgð þessi er í rauninni í tvennu lagi, þ. e. a. s. annars vegar fyrir kaupverði vélanna, sem er um 13.5 millj. bandaríkjadala, 2 225 millj. kr., og hins vegar fyrir rekstrarláni sem er 5 millj. bandaríkjadala eða á núgildandi gengi 750 millj. kr. Ábyrgðin í heild er 2 775 millj. og skiptist svona. Það væri að mínum dómi út af fyrir sig vel hægt að skoða það mál hvort ekki væri unnt að veita ábyrgð fyrir vélarkaupunum, en mér sýnist varla koma til greina að veita ábyrgð fyrir svo stórkostlegu rekstrarláni.

Því er haldið hér fram — og það væri gott að fá staðfestingu á því endanlega — að hver vél af gerðinni DC-8-63 CF kosti núna 11 millj. dollara á markaði, þannig að ef félagið getur fengið þessar tvær vélar á 13.5 millj. samtals sparast þar 8.6 millj. bandaríkjadala sem er dágóð upphæð.

Nú getur manni dottið í hug í sambandi við meðferð þessarar ábyrgðarbeiðni hvort ríkisstj. væri jafnfljót að taka við sér og lána öðrum flugfélögum, t. d. Air Viking, sem annast mjög mikilvægan flugrekstur til og frá Íslandi og hefur sannarlega með sínu charter-flugi veitt þessari flugsamstæðu mikið aðhald og orðið til þess að íslendingar hafa átt í vaxandi mæli möguleika á að fljúga leiguflug og ódýrt eins og aðrar evrópubúar.

Ég mun ekki hafa þessi orð miklu fleiri, en ég legg áherslu á að þetta mál þarf að skoða vel, ósköp einfaldlega vegna þess að þarna er um mjög stórar upphæðir að ræða. Það þarf að leggja fyrir hv. þd. sem víðtækastar og jafnframt sem nákvæmastar upplýsingar um allt sem málið varðar, hvernig leigusamningi hefur verið háttað, hvernig rekstri er háttað, með hvaða aðferðum væri hægt að draga úr rekstrarkostnaði með sömu afköstum, hvort ekki væri hugsanlegt að draga úr yfirbyggingu þessa flugfélags, og margar aðrar upplýsingar þurfum við að sjálfsögðu að fá áður en við getum greitt um það atkv. hér í deildinni.