09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3741 í B-deild Alþingistíðinda. (2870)

285. mál, lán fyrir Flugleiðir hf.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri þn., fjh.- og viðskn., sem ég geri ráð fyrir að fái þetta mál til meðferðar. Hún mun að sjálfsögðu fjalla um það þar. En þar sem nokkrar almennar umr. eru hafnar um málið vildi ég segja örfá orð.

Þingflokkur Alþfl. fékk þetta frv. sent í handriti fyrir um það bil viku og hefur síðan getað kynnt sér þau atriði sem fram koma í grg. Nauðsynlegar viðbótarupplýsingar geri ég ráð fyrir og tel raunar sjálfsagt að fáist við meðferð málsins í hv. fjh.- og viðskn.

Í þeim ríkisstj., sem ég átti sæti í á sínum tíma, kom það fyrir nokkrum sinnum að flugfélögin leituðu eftir ríkisábyrgð með hliðstæðum hætti og hér er um að ræða þótt að vísu hafi aldrei verið um jafnstórar fjárhæðir að ræða og hér er fjallað um. Ég er því nokkuð kunnugur þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð hafa verið varðandi slík mál, og geri ráð fyrir að hæstv. núv. ríkisstj. hafi haft með höndum hliðstæð vinnubrögð.

Meginatriði málsins er að sjálfsögðu að ríkið taki ekki sér á herðar óeðlilega áhættu í þessu sambandi. Það reyndist aldrei vera um að ræða í þau skipti þar sem ég þekkti málavexti náið, og ég treysti því að það komi fram í þeirri n. sem um málið fjallar að það eigi sér ekki heldur stað í þessu tilfelli.

Almennt vildi ég um málið segja, að starfsemi Flugleiða er svo mikilvæg íslenskum þjóðarbúskap og svo mikilvæg fyrir samgöngur Íslands við önnur lönd og fyrir samgöngur innanlands að Flugleiðir eiga allan góðan og eðlilegan stuðning skilið. Slíkum stórrekstri sem hér er um að ræða er varla hægt að halda uppi nema öðru hvoru þurfi að koma til aðstoðar af hálfu ríkisins í sambandi við fjármál eða lánsfjáröflun fyrirtækjanna. Ef ekki er um að ræða neina óeðlilega áhættu í því sambandi, þá tel ég rétt að slík ábyrgðaraðstoð sé veitt.