09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3744 í B-deild Alþingistíðinda. (2875)

211. mál, hefting landbrots

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Hæstv. forseti. Það er sama að segja um þetta frv. og frv. það, sem ég talaði fyrir hér áðan, að hér er um að ræða frv. sem er samið af landgræðslu-og landnýtingarnefnd og er í sambandi við þá landgræðsluáætlun sem samþ. var á s. l. sumri. Það hafa ekki verið til lög um varnir gegn landbroti af völdum vatna að öðru leyti en því sem hefur verið í vatnalögunum. Hins vegar hefur þetta mál verið afgr. með fjárlagaafgreiðslu hverju sinni, og hefur þá verið ákveðin fjárveiting til fyrirhleðslna, og svo hafa einnig verið til einstaka vatnsföll sem hafa verið aðsópsmikil í landbroti, eins og Markarfljót og Þverá og Héraðsvötn, sem hafa verið sett sérstök lög um. Hér er hins vegar gert ráð fyrir heildarlögum um þessar landvarnir og er það í samræmi við það sem ég áður sagði um landvarnir og landnýtingu.

Sú breyting var gerð í hv. Ed. á þessu frv. að í staðinn fyrir að héraðsráðunautur ynni að því með Vegagerð ríkisins að gera áætlanir um þetta og meta skemmdirnar, þá er nú gert ráð fyrir að Vegagerð ríkisins og Búnaðarfélag Íslands skipi þessa menn sem annast matsgerðina.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv. Það fékk góðan byr í hv. Ed., og ég vona að það verði einnig hér svo að það geti orðið að lögum á þessu þingi. Ég leyfi mér svo, hæstv. forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.