26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

300. mál, endurvarpsstöðvar sjónvarps á Austurlandi

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég taldi mig vera tilknúinn að taka til máls um þessa fsp. þó að ekki væri til annars en vekja athygli á því að það er ekki aðeins á Austurlandi sem móttökuskilyrði sjónvarps eru slæm og móttökuskilyrði útvarps hafa lengi verið mjög slæm. Hvað því líður, hvort engir íslendingar eigi nú fjárkröfur á Sjónvarpið vegna kostnaðar sem þeir hafi lagt út í sem einkaaðilar til þess að koma á sjónvarpssambandi í byggðarlögum sínum, hvað þá kröfu varðar veit ég það persónulega og af gamalli raun og ég veit að hæstv. menntmrh. kannast lítils háttar við það að austfirðingar og íbúar Norðausturlands, langleiðina til Akureyrar, eiga sannarlega óbættar kröfur á hendur Ríkisútvarpinu fyrir slæm hlustunarskilyrði lengi. Allar götur frá því að Ríkisútvarpið byrjaði útsendingar sínar hafa austfirðingar og íbúar Norðausturlands goldið afnotagjald af útvarpi án þess að geta raunverulega notið þeirrar dagskrár sem þeir hafa verið að borga fyrir.

Nú virðist hæstv. menntmrh. hafa fengið öllu ljósari svör, þótt æði væri þau loðin, um fyrirætlanir Ríkisútvarpsins í þessum efnum heldur en oft hafa áður fengist. Mér er það minnisstætt að fyrir 8 árum kom þm. Austf. frá útvarpsstjóra eftir að hafa innt hann frétta af fyrirhuguðum framkvæmdum til þess að bæta úr hlustunarskilyrðum á Austurlandi með þau svör að það hefði í sjálfu sér aldrei verið stefna Ríkisútvarpsins að heyrast út um hvippinn og hvappinn.

Sannleikurinn í málinu var sá að þannig var að stofnuninni búið þá, að útvarpsstjóri átti, þegar að honum var kreppt, ekki hægt um vik að gefa nokkur fyrirheit um úrbætur í þessum málum. Sannleikurinn er sá að þannig er búið að fjárhag Ríkisútvarpsins enn í dag að ljós svör verða ekki gefin um það hvenær verður bætt úr hinum og þessum tæknilegum ágöllum varðandi sendingar útvarpsins. Ef við ætlum okkur raunverulega að koma einhverju til leiðar í þá átt að bætt verði sendingarskilyrði sjónvarps og útvarps um hinar dreifðu byggðir landsins verðum við að sjá Ríkisútvarpinu fyrir fjármunum til þess.