09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3749 í B-deild Alþingistíðinda. (2881)

272. mál, íslensk stafsetning

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er eins og fram kom hjá hv. 9. þm. Reykv., að þetta mál var allmjög rætt á síðasta Alþ., og ég fagna vissulega þessu framkomna frv. enda þótt ég sé því ekki að öllu leyti samþykkur. Ég hafði verið með í undirbúningi að flytja till. til þál. um löggjöf um ritreglur, og munaði minnstu að hún hefði verið lögð fram á hinu háa Alþ., og standa að þeirri till. nú þegar þeir 3 hv. þm. sem vorn meðflm. mínir að tillögugerðinni í fyrra um z í ritmáli.

Innihald þeirrar þáltill., sem við hugðumst flytja núna og munum gera nú eftir helgina, er svohljóðandi:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um íslenskar ritreglur. Þar til lagasetningu er lokið, skal fylgja þeirri stafsetningu sem tók gildi 26. febr. 1929.“

Og grg. — ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hana, hún er stutt, en hún á beinlínis erindi þegar þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., á þskj. 562, er tekið fyrir. Hún er svo hljóðandi:

„Íslenskt mál, talað og ritað, er undirstaða íslenskrar menningar. Því ber að vanda alla meðferð þess sem kostur er. Engar breytingar má á því gera án ítarlegrar umræðu og rannsókna hinna hæfustu manna. Lokaákvörðun um breytingar á að vera í höndum Alþ. Á hinn bóginn er enginn lagabókstafur um íslenskar ritreglur. Fyrir því þykir flm. þessarar ályktunartill. bera brýna nauðsyn til að sett verði löggjöf um íslenskar ritreglur.

Eftir aldagamlar uppstyttulitlar þrætur um stafsetningu sömdu íslendingar frið árið 1929 og undu við hann í hart nær hálfa öld. Sá friður var rofinn s. l. ár með auglýsingu frá menntmrn. um brottrekstur z úr rituðu máli. Alþ. ályktaði vorið 1974 að þeirri árás skyldi hrundið. Sú viljayfirlýsing hefur enn að engu verið höfð. Þvert á móti færðu nýjabrumsmenn sig upp á skaftið og auglýstu nýjar og furðulegar reglur um stóran og lítinn staf. Þar til Alþ. hefur náð vopnum sínum með setningu laga um ritreglur er skylt að fylgja stafsetningu frá 1929 í samræmi við fyrrgreinda viljayfirlýsingu Alþ.“

Ég vil fyrst víkja að því sem segir í grg. með frv. sem hér liggur fyrir til umræðu. Ég held að hv. flm. fari þar mjög villur vegar ef ég skil grg. rétt. Hann segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. hefur fjallað um málið á grundvelli þáltill., þar sem skorað var á menntmrh. að falla frá ákvörðun sinni um afnám z úr ritmáli. Meiri hl. alþm. reyndist styðja þá áskorun. En samkvæmt þeim reglum, sem taldar hafa verið gilda, hefur ráðh. vald til þess að ráða stafsetningunni og tók hann því ekki tillit til þessarar áskorunar. Ýmsir, sem greiddu atkvæði gegn þessari till., gerðu það vegna þess að þeir töldu afskipti Alþ. af máli sem þessu ættu ekki að vera í formi áskorunar á ráðh. sem vitað væri að hann teldi sér ekki skylt að hlíta, en ekki vegna hins, að þeir væru fylgjandi hinum nýju stafsetningarreglum, og átti það t. d. við um flm. þessa frv.“

Ég vek sérstaka athygli á því að þál. frá því í fyrra var ekki um áskorun á ráðh., það var ekki í henni skorað á ráðh. að breyta þessu á nýjan leik. Þvert á móti ályktaði Alþ. að hrundið skyldi þeirri ákvörðun að fella z niður í íslensku ritmáli. Tillgr. öll var einvörðungu þessi:

Alþ. ályktar, að hrundið skuli þeirri ákvörðun að fella z niður í íslensku ritmáli.“

Og þetta var samþ. á Alþ. 29. apríl 1974. Það var sem sagt ekki um neina áskorun á hæstv. þáv. menntmrh. að tefla. Þess vegna er það sem ég hef lagt drög að því að fá um það úrskurð lögfróðra manna hvort þessi samþykkt Alþ. mundi ekki vera skoðuð sem lagagildi, þar sem fyrir liggur að engin lög eru til um ritreglur. Ég bíð þessa úrskurðar og þess vegna hafði ég m. a. dregið um hríð að leggja þá þáltill. fram sem ég áðan las upp. Það er þetta sem ég vil leggja áherslu á: Þál. var ekki nein áskorun á hæstv. ráðh., Alþ. ályktaði beinlínis að hrinda þessari ákvörðun. Og ég vænti þess fastlega að það verði niðurstaða lögfróðra manna að þetta verði talið geta haft lagagildi vegna þess að fyrrv. hæstv. menntmrh., Magnús T. Ólafsson, virti þessa ályktun Alþ. að vettugi og núv. hæstv. menntmrh. hefur ekki séð ástæðu til þess að fara að þessari viljayfirlýsingu Alþ., og verður það ekki kallað annað en óvirðing sem Alþ. er sýnd með slíkri framkomu,

Ég get ekki alveg metið til fulls það frv. til l. sem hér liggur fyrir frá hv. 9. þm. Reykv. Ég vil þó taka fram varðandi 2. gr., þar sem segir að þess skuli ekki krafist í barnaskólum að kennt sé að nota z, að ég er henni andstæður. Ég hygg að það hafi verið 1934 sem þáv. menntmrh. — eða kennslumálarh. sem ég hef trú á að hann hafi heitið þá, — Haraldur Guðmundsson, tók ákvörðun um að leyfa að z yrði ekki kennsluskyld í barnaskólum og ég held að það hafi verið misráðið.

Núv. hv. þm. Magnús T. Ólafsson segir að með þessari auglýsingu, sem menntmrn. sendi frá sér, hafi í raun og veru verið að festa í sessi reglurnar frá 1929 og hindra þá ringulreið sem í þessum málum hafi ríkt. Ég verð að lýsa undrun minni á þessum málflutningi. Og málflutning sinn byggir hann á því að vegna þess að það var ekki kennsluskylda um ritun z í barnaskólum, þá hafi ríkt í þessu mikil ringulreið. Það er að vísu rétt að hér fyrr á árum var það mjög svo algengt að fólk sæti ekki lengi í skólum og sumir ekki nema í barnaskólum. Nú er sú tíð löngu liðin þannig að mjög skammt var til þess að allir íslendingar að heita má mundu hafa notið kennslu um ritun z og þar af leiðandi skapast sú festa í ritun þessa stafs sem hv. þm. saknaði svo mjög og vildi kippa í liðinn með auglýsingu sinni. Það er enginn vafi á því að þær auglýsingar, sem hafa birst frá menntmrn. í þessu, þótt gerðar hafi verið í samráði við ýmsa þá sem sérfróðir menn mega teljast, hafa orsakað hina mestu ringulreið og hafa enda þessar ákvarðanir skipt þjóðinni í tvo hópa. Og það er alveg víst að ef ekki verður tekið til hendi í þessum efnum, þá mun sú deila enn eiga eftir að harðna.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er nauðsynlegt að setja löggjöf um ritreglur, og það er nánast furðulegt að svo skuli ekki hafa verið gert. Skýring á því er einföld nú hina síðustu hálfa öld hvers vegna til þess hefur ekki verið gripið. Vegna þess að menn náðu sáttum með ákvörðuninni sem tekin var árið 1929. Allt fram til þess að hv. þm. Magnús T. Ólafsson tók til sinna bragða um að auglýsa breytingu á þeim reglum, sem áður höfðu gilt, ríkti um þetta mál friðar og menn fundu enga köllun hjá sér til þess að hefjast handa um lagasetningu né heldur annað sem að þessu laut. Gat varla heitið að það hefði heyrst um það hjá einum einasta manni, að nokkra nauðsyn bæri til að gera á þessu hina minnstu breytingu. Það er að vísu svo um greinamerkjasetningu og setningaskipun og setningafræðina yfirleitt að vel mætti taka það til sérstakrar athugunar, og ekki ætla ég að halda því fram að ekki hafi mátt og ekki þurfi að hafa vakandi auga með íslenskum ritreglum. En segjum svo að til þess séu kallaðir hinir hæfustu menn að rannsaka hvort breytinga sé þörf og komist þeir að þeirri niðurstöðu að svo sé, þá er alveg nauðsynlegt að Alþ. hafi síðasta orðið í því efni. Og ég vænti þess að þorri hv. alþm. hafi sannfærst um nauðsyn þessa eftir þá málsmeðferð sem þessi mál hafa hlotið nú hin síðustu tvö árin.

Það kann vel að vera að meginhluti þess, sem að þarf að keppa, mundi nást fram með samþykkt þessa frv. á þskj. 562, ég skal ekki um það dæma. Og það kann vel að vera að hv. flm. hafi vandað nægjanlega vel til samningar þess, — þó, eins og ég segi, ekki að mínu skapi, þar sem segir í 2. gr., að þess verði ekki krafist í barnaskólum að kennt sé að nota z. Ég held að það sé fullkomin ástæða til þess þegar frá upphafi að kenna ritun þessa sjálfsagða stafs í stafrófi okkar. Þess vegna og úr því líka að mjög er áliðið þings og mjög vafasamt að framlagt frv., sem til umræðu er, nái fram að ganga, þá hefði ég getað fellt mig við það, úr því sem komið er, ef möguleiki væri á því að ná samkomulagi um ályktunartill. frá hinu háa Alþ., þar sem skorað er á eða ríkisstj. falið að undirbúa löggjöf um íslenskar ritreglur. Ég hygg, þótt ég hafi ekki haft tök á að rannsaka það neitt nánar, eins og ég hefði kosið, að það séu fleiri atriði sem fram þyrftu að koma í sambandi við þá lagasetningu heldur en getur í þessu frv. sem hér er borið fram, Þó er það að sínu leyti mjög virðingarvert að það hefur verið flutt, því að það sýnir að æ fleiri snúast til þess vegar að hér þurfi vissulega að setja undir þann leka að menn geti gengið þann veg um undirstöðugrundvöll okkar menningar eins og dæmin sanna nú hin síðustu árin.

Ég verð að segja það, að það hefur undrað mig að núv. hæstv. menntmrh. skuli ekki hafa tekið til sinna ráða í þessum efnum. Ég hef rætt þetta óformlega við hann. Ég hefði viljað sýna þolinmæði og gefa honum ráðrúm til þess að ná áttum í málinu. En úr því sem það virtist engan árangur ætla að bera, þá hófst ég handa um samningu þeirrar þáltill. sem ég hér lýsti og mun leggja fram. En það má alveg ljóst vera og það ætti enginn að skoða sem persónulega árás á verk sín, svo sem hv. þm. Magnús T. Ólafsson, þó að menn muni nú mjög taka til höndum við það að fá samþykkt hér á Alþ. lög, sem kveða á um íslenskar ritreglur. Á því er brýn nauðsyn. Um það hafa atburðir síðustu ára fært okkur heim sanninn.