10.05.1975
Sameinað þing: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3757 í B-deild Alþingistíðinda. (2890)

215. mál, hafnaáætlun 1975-1978

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 408 er till. til þál. um hafnaáætlun fyrir árin 1975–1978. Ég mun nú gera grein fyrir þessari þáltill. og gera till. um meðferð hennar á þessu þingi.

Í des. s. l. var lögð fyrir Alþ. fjögurra ára áætlun fyrir árin 1975–1978 um hafnargerðir. Till. sú, sem hér liggur fyrir, til þál. um hafnaáætlun fyrir umrædd ár er í samræmi við fyrri áætlun að öðru leyti en því að örfáar breytingar voru gerðar í sambandi við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1976 og eru þær raktar frekar í aths. við þáltill. Síðan hefur sú eina breyting verið gerð að framlag til bryggju í Selárdal hefur verið felld niður, en í staðinn tekið jafnhátt framlag til hafnargerðar í Súðavik.

Í grg. með hafnaáætluninni, sem lögð var fram í des., var m. a. rætt um tilgang með henni, undirbúningsvinnu að áætluninni, rekstur og afkomu hafna, framkvæmd áætlunarinnar o. fl. Ekki er ástæða til að rekja grg. sérstaklega hér, en þó verður komið inn á einstök atriði í henni í því, sem hér fer á eftir.

Þessi hafnaáætlun er samin og lögð fyrir Alþ. í samræmi við hafnalög, nr. 46/1973, sem tóku gildi 1. jan. 1974. Í III. kafla l. segir svo í 10. gr. er fjallar um framkvæmdaáætlanir:

„Hafnamálastjóri gerir í samráði við hafnarstjórnir till. að áætlun um hafnargerðir til fjögurra ára í senn.

Um gerð hafna og staðarval skal jafnan leita álits samtaka skipstjórnarmanna í byggðarlaginu, ef til eru, ella hjá landssamtökum þeirra.

Áður en gengið er endanlega frá áætluninni skal hafnamálastjóri senda stjórn hverrar hafnar till. sínar um framkvæmdir á áætlunartímabilinu við þá höfn og gefa hafnarstjórninni nánar tiltekinn frest til að koma með aths. og brtt.

Hafnamálastjóri skal á sama hátt senda áætlunina í heild stjórn Hafnasambands sveitarfélaga til umsagnar.

Hafnargerðaáætlunin skal miðuð við það fjármagn sem ætlað er til hafnargerða í almennri framkvæmdaáætlun ríkisins ef slík áætlun er gerð, en að öðrum kosti skal miðað við það heildarfjármagn sem líklegt er talið að til ráðstöfunar verði til hafnarframkvæmda.

Hafnargerðaáætlunin skal gerð á tveggja ára fresti og lögð fyrir Sþ. sem þáltill.

Áætlunin öðlast gildi þegar Alþ, hefur samþykkt hana. Hafnamálastjóri skal vinna að framkvæmd áætlunarinnar í samráði við viðkomandi hafnarstjórnir eftir því sem fjármagn er fyrir hendi.

Ráðh. skal leggja árlega fyrir Alþ. skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar áður en fjárveitingar eru ákveðnar.“

Í hafnal. frá 1967 voru einnig ákvæði um gerð fjögurra ára áætlunar um hafnargerðir, en ákvæðin voru miklu lausari í reipum en nú og m. a. ekki gert ráð fyrir að áætlunin væri samþ. sem þál. Ein áætlun var lögð fram samkv. l. frá 1967, það var fjögurra ára áætlun fyrir árin 1969–1972. Enginn vafi er á að með því að Alþ. afgreiði áætlunina sem þál. hlýtur áætlunin þinglegri meðferð en ella og þar af leiðandi fastara form og aukið gildi.

Brýn verkefni blasa nú hvarvetna við í hafnargerðum, Helstu ástæður eru breyttir útgerðarhættir vegna hins nýja togaraflota, auknar kröfur sem gerðar verða um löndun, meðferð og hreinlæti við fiskvinnslustöðvar, nánari tengsl milli fiskvinnslustöðva og löndunarkants, svo að komist verði hjá notkun flutningabíla, og kröfur fiskiðnaðarins um jafnari öflun hráefnis yfir allt árið svo að hafnir þurfa að veita öruggt skjól á öllum árstímum. Hins vegar hefur ekki verið unnt að sinna nærri öllum óskum í þessari fjögurra ára áætlun. Er talið að óskir hafi borist um framkvæmdir hjá hafnarstjórnum, sem hefðu nægt til 8 ára í stað fjögurra, miðað við þann framkvæmdahraða og það fjármagn sem talið er líklegt að hægt yrði að verja til hafnarframkvæmda. Varð þannig að fresta mörgum framkvæmdum, sem eiga fullan rétt á sér, til næsta áætlunartímabils.

Rétt er að benda á að samkv. áætluninni er um verulega aukningu í hafnarframkvæmdum að ræða miðað við fyrri ár, sbr. línurit á bls. 13 í áætluninni sem lögð var fram í des. Heildarkostnaður framkvæmda þessi 4 ár, 1974–1978, er samkv. fyrirliggjandi þáltill. um 3450 millj. kr. og er þá miðað við verðlag á s. l. hausti. Nær áætlunin alls yfir framkvæmdir í 61 höfn, en utan hennar eru landshafnirnar þrjár, ferjuhafnir svo og Reykjavíkurhöfn.

Rétt er að taka fram að Hafnamálastofnunin reyndi að byggja áætlunina á óskum einstakra hafnarstjórna að svo miklu leyti sem það var talið réttlætanlegt miðað við þarfir, fjárhag og tæknilegar aðstæður, þótt dæmi kunni að finnast um að svo hafi ekki verið í öllum tilvikum. Ekki verður fram hjá því gengið að áætlanir eins og þessar hljóta að taka einhverjum breytingum á áætlunartímabilinu. Kemur þar m. a. til greina að vegna mannfæðar hjá Hafnamálastofnuninni hefur ekki verið unnt að kanna nægjanlega á öllum áætlunarhöfnunum tæknilegan grundvöll þeirra framkvæmda sem till. eru gerðar um. Er nauðsynlegt að skapa Hafnamálastofnuninni betri aðstöðu á þessu sviði, þannig að áður en hafnarframkvæmdir hefjast liggi fyrir fullkomnar undirbúningsrannsóknir, svo sem öldumælingar og botnrannsóknir, þar sem það á við. Með aukinni reynslu starfsmanna stofnunarinnar í áætlunargerð fram í tímann hlýtur öryggi áætlunarinnar einnig að aukast. Hins vegar fer ekki á milli mála að áætlunin hefur sem heildarplagg bætt úr brýnni þörf fyrir upplýsingar um hafnir landsins og verður ómissandi upplýsingarit öllum þeim sem um hafnamál vilja fjalla, svo sem alþm. og hafnarstjórnum.

Ef litið er á einstaka staði í fyrirliggjandi áætlun þar sem hafnaraðstaða er sérstaklega slæm og mikilla átaka þörf á næstu árum má nefna, eftirtalda staði: Á Vesturlandi Akranes, Ólafsvík, Grundarfjörð, á Vestfjörðum Flateyri. Á Vestfjörðum hefur mikið átak verið gert í hafnamálum á undanförnum árum. A Norðurl. v. má nefna Skagaströnd. Á Norðurl. e. Dalvík, Akureyri og Húsavík. Að undanförnu hefur þó verið unnið þar mikið. Á Austfjörðum eru aðalframkvæmdir áætlaðar á Vopnafirði, Borgarfirði eystra og Breiðdalsvík. Fyrirsjáanlegar eru einnig verulegar framkvæmdir á Neskaupstað, en vegna snjóflóðanna, sem urðu á s. l. vetri, hafa ástæður breyst þar og nú er verið að vinna að hönnun nýrrar hafnar í botni fjarðarins. Liggja ekki fyrir tölur um kostnað við þá hafnargerð enn sem komið er. Á Suðurlandi hefur verið miðað við að gera stórt átak í hafnargerð í Vestmannaeyjum, en það verður ekki fyrr en seinni hluta áætlunartímabilsins þegar talið er að mesta spennan verði farin úr atvinnuástandinu í Vestmannaeyjum vegna framkvæmda í sambandi við gosið.

Hér hafa aðeins verið nefndar örfáar hafnir sérstaklega, en víðast eru mikil verkefni fram undan. Má í því sambandi nefna tilkomu hins nýja skuttogaraflota, en hafnir landsins voru engan veginn viðbúnar að taka á móti honum. Hafnir voru fyrst og fremst sniðnar fyrir bátaútgerð, og þótt strandferðaskip hafi getað notað hafnirnar ber þess að gæta að margir af hinum nýju skuttogurum rista töluvert dýpra en þau. Sums staðar, en ekki alls staðar, er hægt að dýpka hafnirnar þannig að nægjanlegt sé fyrir skuttogarana, en annars staðar, þar sem um fastari botn er að ræða, koma slíkar dýpkanir vart til greina.

Það er mikils virði að hafnargerðaáætlunin sé ekki aðeins upplýsingar um það hvað unnt sé að gera á næstu árum í hafnargerðum, heldur sé hún einnig traustlega undirbyggð tæknilega þannig að af þeim sökum þurfi sem allra minnstar breytingar að gera á henni. Áður hefur verið að því vikið að áætluninni getur verið nokkuð áfátt að þessu leyti og sé þar um að kenna því að Hafnamálastofnunin hafi ekki nægilega góða aðstöðu til tæknilegs undirbúnings, bæði sökum skorts á starfsfólki og fjármagni. Á því 11/2 ári, sem er til næstu endurskoðunar á áætluninni, mun verða stefnt að því að bæta úr þessum ágöllum. Jafnframt mun stefnt að því af þeim aðilum, sem að hafnamálum vinna af hálfu samgrn., að halda uppi sem bestu samstarfi og samvinnu við hafnarstjórnir um land allt þannig að þessir aðilar geti sameiginlega unnið að hagkvæmri lausn á hafnamálum á hverjum stað.

Til viðbótar því, sem hér hefur verið sagt, vil ég geta þess að vegna þess að þetta er fyrsta hafnaáætlunin sem lögð er fram, sem gert er ráð fyrir að verði afgreidd sem ályktun Alþingis, hef ég ákveðið að láta ekki afgreiða hana á þessu þingi, enda tel ég ekki tíma til þess og tel hana ekki heldur það vel undirbúna að ástæða sé til þess. Síðan hafnaáætlunin var samin eða sú grg., sem var lögð hér fram í des, í vetur, hafa komið fram ýmsar veilur í áætlunargerðinni sem ég tel brýna nauðsyn til að skoða betur áður en til fullnaðarafgreiðslu kemur. Það hefur einnig gerst síðan að skipuð hefur verið sérstök stjórn fyrir Hafnamálastofnunina. Ég tel því eðlilegt að undirnefnd fjvn. ásamt Hafnamálastofnuninni og stjórn Hafnamálastofnunarinnar vinni að þessu máli til undirbúnings þáltill. um hafnaáætlun næstu ára sem yrði lögð fyrir næsta Alþ. Ég tel að það skipti meira máli að reyna að vinna að því að þessi áætlunargerð verði sem traustust heldur en að hraða afgreiðslu hennar hér. T. d. veldur sú breyting, sem hefur orðið í Neskaupstað síðan upphaflega till. var gerð, því að það verður að miða þar við allt aðrar aðstæður um fjárveitingar á næsta ári en hér er gert ráð fyrir, og svo getur verið um fleiri staði þegar betur er að gáð og verkið er betur unnið en nú hefur verið gert. Enn fremur er þessi till. að hafnaáætlun miðuð við annað verðlag en mundi verða í framkvæmd nú á þessu ári, hvað þá á þeim hluta áætlunarinnar sem eftir kann að verða. Um það kunnum við ekki að segja að sinni.

Ég mun því, herra forseti, leggja til að þessari till. verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og hv. fjvn., en með þeim fyrirvara að ég óska ekki eftir afgreiðslu málsins nú, heldur að undirnefnd fjvn. vinni að málinu ásamt Hafnamálastofnuninni og stjórn hennar á milli þinga.