10.05.1975
Sameinað þing: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3771 í B-deild Alþingistíðinda. (2900)

236. mál, heimildir Færeyinga til fiskveiða við Ísland

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu samþykkja þá till. um staðfestingu á samningi við færeyinga sem hér liggur fyrir. Ég vil til viðbótar að gefnu tilefni láta í ljós ánægju með þann áhuga sem hv. síðasti ræðumaður hefur bæði nú og ávallt áður sýnt á bættri sambúð okkar við færeyinga. Við höfum að vísu haldið uppi flugi þangað og sýnt áhuga á þeim á ýmsan hátt, en ég er honum sammála um að það stendur frekar upp á okkur en þá í þeim efnum.

Færeyingar hafa ávallt verið þeir fyrstu sem við höfum veitt undanþágur til veiða í landhelginni eftir að við höfum fært út, og mun vera almennur vilji þjóðarinnar að í samningum við þá sé farið eins vinsamlega og við framast getum. En um landhelgismálin og fiskveiðiréttindi er það að segja að þau eru stór í sniðum og eru nú á viðkvæmasta stigi sem þau hafa verið svo að við skulum fara mjög gætilega þótt sjálfsagt sé að skoða allar hugmyndir. Ég sé ýmsa annmarka á því að það verði formlega hægt að hafa sameiginlega fiskveiði- eða efnahagslögsögu Íslands og nokkurs annars lands og er ýmislegt sem veldur því. Það er t. d. allt útlit á að það verði að taka ákvörðun um hvað talinn er hámarksafli sem veiða má án þess að hætta fiskstofnum í fiskveiðilögsögu hvers ríkis. Það hefur verið baráttumál sendinefndar okkar á fundunum í Genf að fá inn í texta og væntanlega samninga að strandríkið sjálft ákveði þetta.

Þetta eitt gerir erfitt að hafa sameiginlega formlega fiskveiðilögsögu. Við ættum þá að fara að taka slíka ákvörðun fyrir Færeyjar og Grænland, og þeir ættu að koma og taka þátt í því með okkur að ákveða hvað við teljum að megi taka mikinn fisk úr sjó við Ísland. Þetta er feiknalega mikilsvert atriði og snertir auðvitað varðveislu fiskstofnanna.

Annað atriði sem er mjög viðkvæmt í þessum efnum, er hver eigi að ákveða hvað viðkomandi þjóð getur veitt mikið sjálf. Menn eru komnir inn á þá línu, eins og hv. síðasti ræðumaður lét í ljós, að það eigi að fullnýta alla fiskstofna og ef strandríki geti það ekki eitt, þá eigi strandríkið að leyfa einhverjum öðrum að gera það. Við höfum barist fyrir því á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að strandríkið sjálft eigi að meta hve mikið það getur veitt af þeim afla sem það sjálft hefur ákveðið að megi taka. Það tókst að fá þetta hvort tveggja inn í það uppkast sem var lagt fram í gærmorgun í Genf, sem betur fer. En við skulum samt ekki ganga frá því sem vísu að þetta verði svo, a. m. k. vandræðalaust, vegna þess að þetta er aðeins uppkast formanns einnar nefndar í Genf, Sá formaður er frá E1 Salvador og hugsar mjög líkt og við þannig að sjónarmið þeirra, sem eru andstæðir okkur í þessum efnum, eiga eftir að koma fram og þeir eiga eftir að heyja sína orrustu til þess að reyna að hnekkja þessu. Ég vil líka benda á það að takist að fá þetta hvort tveggja fram, þá þurfum við að ákveða hvað við viljum láta veiða mikið innan 200 mílna í kringum Ísland og í öðru lagi hvað við sjálfir treystum okkur til að veiða mikið. Þetta er erfitt ákvörðunarefni, og ég geri ráð fyrir því að það verði mjög vandlega skoðað hér hvort við með þeim mikla flota, sem við höfum nú eignast, förum ekki ærið langt í að geta veitt það aflamagn sem við teljum rétt og öruggt að taka.

Ég bendi aðeins á þetta, en vil á engan hátt draga úr því að menn íhugi sjónarmið hv. síðasta ræðumanns og alveg sérstaklega þann grunntón í ræðu hans að við höfum sérstaklega náið og vinsamlegt samband við færeyinga. Og ég vil að lokum segja það, að ég er sammála því að ég ann færeyingum jafnvel frekar en vinum okkar og frændum, írum, þess að fá yfirráð yfir Rockall, en þetta eyjamál er viðkvæmt og virðast vera fram undan miklar deilur um það. Það var lítið rætt nú á ráðstefnunni, en þó mun textinn sem fram var lagður, vera á þá lund að óbyggilegir klettar eins og Rockall fái ekki fiskveiðilögsögu, og er það í sjálfu sér hagstætt fyrir okkur, því að það getur vel verið að við viljum einhvern tíma seinna sækja á kolmunnamiðin fyrir vestan Rockall.