10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3773 í B-deild Alþingistíðinda. (2903)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Þetta frv. felur það í sér að lagt skuli 0,1% iðnaðarmálagjald á allan iðnrekstur í landinu og að óheimilt skuli að leggja gjaldið við útsöluverð á vörum eða þjónustu fyrirtækja. Lögfesting þessa gjalds mundi því ekki hafa hækkun vöru eða þjónustu í för með sér. Tekjum af þessu gjaldi er ætlað að verja til eflingar iðnaðar og iðnþróunar í landinu og er frv. flutt skv. eindregnum tilmælum Félags ísl. iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna og Sambands ísl. samvinnufélaga. Standa allir þessir þrír aðilar einhuga að frv. Tilgangurinn er sá, að þessi samtök fái nokkurt fjármagn til þess að vinna að aukinni framleiðni í iðnaði og á þann veg að auka iðnþróun í landinu. Er gert ráð fyrir því að á s. l. ári hefði þetta gjald numið röskum 18 millj. kr. ef slík lög hefðu þá verið í gildi. Hliðstæð lög gilda um aðrar atvinnugreinar sumar, eins og lög um Búnaðarmálasjóð þar sem er ákveðið að greitt skuli gjald af söluvörum landbúnaðarins, en tekjurnar skiptast að jöfnu milli Stéttarsambands bænda annars vegar og búnaðarsambanda hins vegar. Sama gildir einnig um hluta af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum skv. l. frá 1966.

Að öðru leyti er mál þetta skýrt í ítarlegri grg. frv., og legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.