10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3780 í B-deild Alþingistíðinda. (2907)

276. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Raunverulega var það aths. hæstv. iðnrh. varðandi heitið á fossi þessum sem fékk mig til þess öðru fremur að kveðja mér hér hljóðs. Ég sá fyrir skemmstu einmitt þá mynd heitisins sem hæstv. ráðh. notaði, Kljáfoss. Ég sá fossinn nefndan svo í samþykkt sem Búnaðarfélag hvítsíðinga gerði um þetta mál þar sem lagst var eindregið gegn því að virkjað yrði við Kljáfoss, m. a. á þeim forsendum að svo mikið gott, Gróið land mundi fara undir vatn við þessa virkjun, að óréttlætanlegt væri að fórna því fyrir jafnlítið rafmagn og þarna fengist.

Að gefnu þessu tilefni, þar eð ég hygg að það sé alveg ugglaust að þeir hvítársíðingar fari rétt með heiti fossins, m. a. vegna þess hversu mikil samskipti þeir hafa haft við hann og mikil not af landinu sem fara mundi undir vatn ef þarna yrði virkjað, þá tel ég ákaflega æskilegt að þegar á umræðustigi yrðu könnuð atriði eins og þessi sem varða það gróna land, sem þarna yrði fórnað, og það yrði rætt til hlítar við heimamenn, við þá sem hagsmuna eiga að gæta í hinu næsta nágrenni, hvað eina sem að þessu máli lýtur, til þess að hjá yrði smeygt að við fengjum enn eitt deilumál eftir að þetta væri komið allt saman á afgreiðslustig. Við höfum af slíku ákaflega slæma reynslu. Og einnig er, eins og gefur að skilja, nauðsynlegt að fyrir liggi óyggjandi upplýsingar um nytsemi virkjunarinnar Alþ. samþ. í vetur heimild til virkjunar á fallvatni á Austurlandi, Bessastaðaárvirkjun, þrátt fyrir það að í ljós kæmu við umr. upplýsingar um að þarna skorti oftast nær vatn í Bessastaðaá, og nú skilst mér að komið hafi í ljós að hallinn á ánni sé a. m. k. á vissum árstímum öfugur og erfitt um vatnsmiðlun á þessum slóðum. Ég hygg að við gerðum rétt í því að fresta samþykkt og endanlegum umr. um virkjun við Kljáfoss þar til hvort tveggja liggur fyrir: raunveruleg afstaða heimamanna, þeirra sem þarna eiga hagsmuna að gæta í landi að lokinni kynningarstarfsemi, og eins öruggar upplýsingar um nytsemi virkjunarinnar.