26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

305. mál, endurskoðun stjórnarskrárinnar

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. 1. gr. stjórnarskrárinnar er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“ Ég og ýmsir fleiri hafa túlkað þessa gr. á þá lund, að þingrofið, eins og það var framkvæmt í vor, fengi ekki staðist heldur hefði átt að miða það við kjördag eins og jafnan hafði verið gert frá stofnun lýðveldis á Íslandi. Nú skal ég ekki hefja deilur um þessi mál hér. Það, sem fyrir mér vakir og við getum vonandi sameinast um, er að við endurskoðun stjórnarskrárinnar verði tekin inn fyllri og skýrari ákvæði um þingrof og annað það sem verða má til styrktar þingræðinu í landinu. Í því sambandi minni ég m.a. á að borið hefur við, bæði í sambandi við ný ríkisútgjöld og önnur mál, að ráðh. hafa virt beinar viljayfirlýsingar Alþ. að vettugi. Er skemmst að minnast framtaks fyrrv. hæstv. menntmrh. Hann hikaði ekki við að hafa að engu fyrirmæli Alþ. um óbreyttar reglur um stafsetningu, heldur bætti gráu ofan á svart með því að auglýsa enn frekari breytingar á stafsetningunni. Það er svo mál út af fyrir sig að hið háa Alþ. skuli ekki hafa stafsetningarreglur í samræmi við ályktanir sjálfs sín.

Sumum kann að þykja þetta sérstaka mál lítilvægt. Það er þó ekki höfuðatriði, heldur hitt, hvort framkvæmdavaldinu sé skylt að framfylgja ályktunum Alþ. og hvernig með skuli farið þegar út af er brugðið.

Ég minni enn fremur á kjördæmaskipunina. Hana verður að taka til gaumgæfilegrar athugunar með það fyrir augum að meiri jafnaðar gæti en nú er. Þá vil ég enn fremur vekja athygli á því að eignarréttarhugtakið verður að taka til algerrar endurskoðunar með hliðsjón af breyttum þjóðfélagsháttum og nýjum viðhorfum.

Með tilvísun til þess, sem ég nú hef sagt, hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. forsrh.: „Hvað líður störfum stjórnarskrárnefndar?“