10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3785 í B-deild Alþingistíðinda. (2917)

140. mál, gatnagerðargjöld

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. 12. þm. Reykv. að ég tel óeðlilegt að gatnagerðargjöld séu innheimt aftur í tímann. Hins vegar má fallast á það sem hv. 10. landsk. sagði að hér er um heimild að ræða. Þar segir: Gjald má innheimta af fasteignum við þær götur, sem bundið slitlag hefur verið sett á“ — þannig að það er þá í sjálfsvald sett hverri sveitarstjórn að nota þessa heimild eða ekki.

Ég lít svo til að þessi heimild snerti ekki okkur reykvíkinga þar sem þegar hefur verið í gildi innheimta gatnagerðargjalda í langan tíma, lengur en 5 ár, þannig að það snertir ekki reykvíkinga. Og ég lít svo til að aths. hv. 12. þm. Reykv. hafi ekki verið sett fram vegna þess, heldur einungis í almennum tilgangi, að það sé óeðlilegt að gjöld séu innheimt aftur í tímann. Ég tek alveg undir það. Hina vegar má segja með 10. landsk. þm. að sveitarstjórnirnar eigi um það við sjálfar sig, hvort þær noti þessa heimild og þær hlíta þá dómi kjósenda ef þær hafa farið rangt að. En ég er fremur mótfallinn þessari 4. gr., að hún verði orðuð eins og hér um ræðir, og mun óska eftir því að hún verði borin upp til atkv. sérstaklega.