26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

305. mál, endurskoðun stjórnarskrárinnar

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans. Það kom mér raunar ekki á óvart að ýmis ljón séu á veginum þegar kemur að því fyrir stjórnarskrárnefndina að fjalla um þau mál sem mestu máli skipta í sambandi við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Atriði eins og það, hversu ítarleg mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar eru, og ýmislegt annað, sem þar er nú til athugunar, skiptir að sjálfsögðu ekki neinu máli fyrir okkur íslendinga. Það, sem mestu máli skiptir nú að mínu viti um endurskoðun stjórnarskrárinnar, er að kjördæmaskipaninni í landinu verði breytt til sem mests jafnaðar annars vegar og hins vegar að Alþ. sjálft hafi frumkvæði í því að beita sér fyrir aðgerðum og ákvæðum sem verði til þess að treysta þingræðið í landinu. Það er enginn vafi á því að okkar stjórnarfar byggir á þingræðinu, við íslendingar erum þingræðisþjóð, við höfum langa hefð í því efni og í því þjóðfélagi sem við búum í nú, eins og margir vindar blása að því núna, þá er ekki vafi á því að það skiptir miklu máli að við sláum skjaldborg um þingræðið. Þess vegna tel ég að það verði að taka þau mál upp sérstaklega, þessi tvö mál í tengslum hvort við annað og auka þannig veg og virðingu þeirrar háu stofnunar sem við erum nú stödd í.

Ég vil svo að síðustu ítreka þakkir mínar til hæstv. forsrh. Eins og ég sagði kemur mér ekki á óvart, þótt stjórnarskrárnefndin sé óvirk í þeim málum sem raunverulega skipta máli. Það hefur komið fyrir áður á Íslandi og þess var raunar aldrei að vænta að n. af þessu tagi gæti ráðist á þau vandamál sem raunverulega var við að etja í þessu sambandi.