10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3795 í B-deild Alþingistíðinda. (2931)

260. mál, uppsögn fastráðins starfsfólks

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki tala langt mál um þessa þáltill. Ég hefði ekki kvatt mér hér hljóðs ef hv. þm. Ólafur Ólafsson hefði ekki vikið sérstaklega að öðrum og aðalflm. þessarar þáltill. sem er hér nú ekki stödd, frú Soffíu Guðmundsdóttur, sem sat hér í hálfan mánuð í fjarveru minni og flutti þá þessa þáltill. um uppsögn fastráðins starfsfólks. Það er ætlan mín að gott samvinnufólk í Norðurl. e. og þ. á m. ekki ófáir samflokksmenn hv. þm. muni þakka frú Soffíu Guðmundsdóttir flutning þessarar þáltill. og alls ekki taka undir það að hér sé um að ræða árás kommúnista á samvinnuhreyfinguna í landinu.

Ég ætla ekki hér í stuttu máli að rekja þá þróun samvinnuhreyfingarinnar, þá vegferð, sem hefur af skiljanlegum ástæðum e. t. v. leitt hana alllangt frá uppruna sínum, því að „sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir“. Ég get tekið undir þan orð ræðumanns að kaupfélögin séu máttarstoðir byggðarlaga úti um land. Vissulega eru þau það. Slíkt vil ég ekki draga í efa. Þau eru það í mörgu tilliti. En sú játning gefur kaupfélagsstjórunum engan rétt til þess að yfirganga umboð sitt í framkomu gagnvart starfsfólki. Geðþótti forstjóra samvinnufélaganna, ég vil ekki fara neinum hnjóðsyrðum um þann geðþótta, — en geðþótti forstjóra samvinnufélaganna á nú þrátt fyrir allt að vera búinn til úr vilja nokkuð margra samvinnumanna á hverjum stað, og það vil ég fullyrða og hef nú fyrir mér í því orð einstakra samvinnufélaga úr starfsumdæmi Kaupfélags Árnesinga að betur hefði verið öðruvísi staðið að deilumálinu á Selfossi, að betur hefði kaupfélagsstjóri ekki sagt upp þessum starfsmanni með þeim hætti sem hann gerði því að þá hefði Kaupfélag Árnesinga komist í senn hjá tapi og leiðindaþvargi og varanlegri hneisu.

Við höfum vissulega ástæðu til þess að binda verulega miklar vonir við störf samvinnuhreyfingarinnar í framtíðinni, kaupfélaganna. En það fullyrði ég að orðið sé meira en tímabært að huga nokkuð að tengslum forustumanna samvinnuhreyfingarinnar við það fólk í landinu sem þessari hreyfingu er ætlað að þjóna. Með þessu sveigi ég alls ekki að fornkunningja mínum Ólafi Ólafssyni, síður en svo. Ég býst meira að segja við því að hann muni fást til þess að viðurkenna að ekki mundi skaða að huga að þessari hlið málsins.

Ég minnist þess á sínum tíma að ég varð ekki var við beinlínis hrifningu meðal samvinnumanna, kunningja minna, þegar þeir voru t. d. að skoða póstkortin sem prentuð höfðu verið til dreifingar út um víða veröld með teikningu af ættartré eins helsta forustumanns samvinnuhreyfingarinnar þar sem ætt hans var rekin beina leið til goðanna með töluvert eindreginni kröfu um ríkiserfðir í Stóra-Bretlandi. Það má náttúrlega segja sem svo, að fyrst hinum stóru helst uppi að rekja þannig ætt sína til sjálfra goðanna, þá sé kannske ekki einstökum kaupfélagsstjórum láandi þó að þeir í ferli sínu og framferði gagnvart undirmönnum sínum allt að því reki ætt sína til Bakkabræðra, en til fremdar fyrir samvinnuhugsjónina er það ekki. Til annarra starfa voru þeir ráðnir. Og ef þeir halda í raun og veru að með þessu framferði stuðli þeir að fremd samvinnuhreyfingarinnar, þá ætla ég að þeir megi lesa ýmislegt upp á nýtt.