10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3798 í B-deild Alþingistíðinda. (2936)

100. mál, sérkennslumál

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins lýsa stuðningi mínum við þessa þáltill. Sérkennsla er að sjálfsögðu mjög mikilvægt mál og mikið vandamál hjá okkur.

Þegar grunnskólalögin voru í undirbúningi fór Öryrkjabandalag Íslands fram á það að sérstakur námsstjóri sérkennslu yrði skipaður. Þess var ekki talin þörf. En hins vegar er sérkennsla mjög mikilvægt atriði og skapar fjölbreytileg vandamál. Það, sem mest hefur háð okkur og ekki síst úti á landsbyggðinni, er einmitt skortur á þessu sérmenntaða fólki til að stunda þessa kennslu. Kennaraháskóli Íslands og Kennaraskólinn áður hafa reynt að bæta lítils háttar úr þessu með námskeiðum, en það hefur þó ekki komið að nægilegu haldi og því fagna ég því að hér er komin fram till. sem ýtir undir við þessa hjálparkennslu. Þeirri uppástungu sem þar er gerð að þetta geti, þar sem fámennt er, verið forkennsla, er ég fylgjandi.

Það verður örugglega alllangt þangað til við getum komið sérkennslumálum í gott lag hjá okkur. En ég held að það kunni að lagast með byggingu sérkennslumiðstöðvar sem hér er í undirbúningi og reyndar er byrjað á nána og mun vafalaust taka að sér verklega kennslu í þessum efnum. En ef allt fer eins og horfir þá er sýnilegt að mörg ár líða þar til við getum verið orðið sæmilega settir í þessum efnum.