10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3801 í B-deild Alþingistíðinda. (2957)

Umræður utan dagskrár

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár í tilefni af vinnubrögðum hér á hinu háa Alþ. Það er sitthvað sem hægt er að gera aths. við, eins og stundum vill verða undir þinglok, en það eru tvö mál sem ég vil vekja alveg sérstaka athygli á. Útbýtt var hér í d. 28. febr. s. l. fsp. frá mér til hæstv. iðnrh. þar sem óskað var eftir, að hann gæfi skýrslu hér í d. um áætlanir hæstv. ríkisstj. um nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu. Fsp. var í tveimur þáttum, annar að því er varðar hitaveitur og hinn að því er varðar raforkuframkvæmdir. Þetta var 28. febr. Nú er liðinn 21/2 mánuður síðan og hefur ekkert svar borist við þessari fsp.

5. mars s. l. bar ég fram afar einfalda fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um það hvað liði áætlunargerð þeirri sem kveðið er á um í nýju lögunum um heilbrigðisþjónustu. Eins og menn vita á að gera 10 ára áætlun um skipulagningu þeirrar þjónustu og endurskoða hana á tveggja ára fresti og þm. eiga síðan að hafa þessa áætlun til hliðsjónar í sambandi við gerð fjárl. Það var fyrst 5. mars sem fsp. var borinn fram. Síðan eru liðnir meira en tveir mánuðir og ekkert svar hefur borist frá þessum hæstv. ráðh.

Nú má vel vera að þessir tveir hæstv. ráðh. hafi einhverja ánægju af því að virða mig ekki svars, en þessi fsp. var borin fram í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og var leitað samþykkis Nd. til þess að þessar fsp. væru bornar fram og það samþykki var gefið af d. Ég vil beina því til hæstv. forseta að bann tryggi það að hæstv. ráðh. gegni skyldustörfum sínum við okkur alþm. eins og við eigum rétt á.