10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3804 í B-deild Alþingistíðinda. (2960)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það tjón, sem þjóðin hefur orðið fyrir af náttúruhamförum á undanförnum árum, gefur tilefni til þess að flutt sé hér á Alþ. frv. eins og hér liggur fyrir. Ég tel það mjög vel farið og mun gera mitt til þess að stuðla að framgangi þess.

Eins og fram kemur í 8. gr. frv. verður hér um sjóð að ræða sem getur náð vissu hámarki eða, eins og hæstv. ráðh. sagði, allt að 1.8 milljörðum kr. Vissulega er þarna um verulegt fjármagn að ræða og mun vonandi ná yfir öll hin smærri tjón sem í framtíðinni kunna á okkur að falla. En í sambandi við þetta mál hlýtur að vakna sú spurning, hvað mundi gerast hér á landi ef um mun stærra tjón yrði að ræða en þessi sjóður kemur til með að greiða. Dettur manni þá í hug í fyrsta lagi það sem hér hefur oft verið rætt um í sambandi við orkumál, að svo illa gæti farið að jafnvel orkuver okkar uppí í hálendinu gætu orðið óvirk eða skemmst verulega, jafnvel farið forgörðum af völdum eldgoss. Sama má segja ef svo færi að um eldgos yrði að ræða hér á Reykjanesskaganum, þá gæti hluti af þéttbýlinu hér við Faxaflóa farið undir ösku eða hraun og væri um að ræða í báðum tilfellum tjón kannske upp á tugi milljarða sem af slíkum náttúruhamförum gæti hlotist.

Að gefnu þessu tilefni, þar sem ég var með þessar hugleiðingar og hafði verið með þær nokkuð lengi, átti ég viðræður við formann þeirrar nefndar sem þetta frv. samdi, en hann tjáði mér — sem mér kom heldur á óvart — að það mundi verða mjög erfitt að fá endurtryggingu fyrir slíku tjóni eins og ég hef hér verið að tala um að hugsanlega gæti dunið yfir íslensku þjóðina.

Ég tek alveg trúanlegar þær upplýsingar sem hann veitti mér í þessu sambandi, en ég vildi aðeins vekja athygli á þessu því að reynsla undanfarandi ára hefur sýnt okkur að því miður búum við við þær aðstæður að við getum kannske orðið fyrir mun meira tjóni en sá sjóður, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að stofnaður yrði, mundi geta greitt. Við skulum þó vona að allt fari betur en ég hef hér verið að tala um sem hugsanlegan möguleika, en slík tjón hefur vissulega borið á góma hér á hv. Alþ. í sambandi við orkumálin. Taldi ég því eðlilegt að á þessu yrði vakin athygli ef hæstv. ráðh. eða sú nefnd, sem hann skipaði til að undirbúa þetta mál, vildi skoða þetta mál nánar hvort þarna væri um möguleika að ræða að þjóðin gæti tryggt sig fyrir viðráðanlegt iðgjald gagnvart tjóni sem hún ætti kannske mjög erfitt með að ráða fram úr ef slíkt bæri að höndum. Á ég þar við tjón sem kannske næmi 14-20 milljörðum eða stærri upphæðum.