10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3805 í B-deild Alþingistíðinda. (2961)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ég hygg að efnislega séu menn ekki ósammála um að slíkt frv. verði gert að lögum. Hins vegar hefði ég talið æskilegt að þetta mál hefði fengið rýmri tíma til skoðunar heldur en nú er til þingslita. Ég hefði talið nauðsynlegt að lög um Bjargráðasjóð Íslands væru vandlega skoðuð jafnhliða því sem lög yrðu sett um viðlagatryggingu. Mér finnst beint blasa við að samkv. þessu frv. hljóti að myndast ákveðin göt í bótaskyldu, annars vegar bótaskyldu samkv. þessum lögum og hins vegar bætur sem Bjargráðasjóður Íslands veitir. Eins og hæstv. ráðh. minntist á er Bjargráðasjóði Íslands skipt í tvær deildir, búnaðardeildina annars vegar og svo hina almennu tjónadeild hins vegar, en bætur þar eru yfirleitt ekki veittar öðruvísi en í lánsformi enda þótt um vaxtalaust lán sé að ræða.

Við þetta frv. eru margir kostir, m. a. þeir að þarna er gert ráð fyrir því að það verði safnað í ákveðinn sjóð — ekki svo sem er um marga aðra sjóði að þeir verði fjárfestingarsjóðir þegar fram líða stundir og fjármagn eykst — heldur að hann nái ákveðnu marki svo að hann verði fær um að standa undir áföllum hverju sinni.

En ég vil nú strax við 1. umr. vekja athygli á því að samkv. frv. sé ég ekki að mögulegt sé að bæta skaða á ýmsum eignum sem ekki eru brunatryggðar. Ég sé t. d. ekki að það sé mögulegt samkv. þessum lögum að bæta tjón sem e. t. v. yrði í höfn eins og t. d. Vestmannaeyjum eða hvar sem vera skal þar sem hraun rynni og fyllti höfnina vegna þess að slík höfn, slíkt mannvirki yrði ekki bótaskylt þar sem það eru eingöngu brunatryggðar eignir, enda tekin viðbótartrygging á brunatryggingarskyldum eignum. Og þá má nefna fleiri mannvirki eins og t. d. vatnsveitur, brýr og annað því um líkt, hvort sem þetta er í eigu sveitarfélaganna eða ríkisins.

Ég er satt að segja dálítið hissa á því að þetta frv. skuli hafa fengið svo greiðan gang í gegnum hv. Ed. án þess að þessir agnúar hafi verið ræddir eða á þá hafi verið bent svo að ég viti til.

Nú veit ég ekki hvort það tekst, ef meiningin er að gera þetta frv. að l. fyrir þinglok, að gera breytingar á frv. áður en þingi lýkur þannig að við það verði unað. En ef svo verður ekki, þá vil ég taka það skýrt fram að ég tel að þetta frv. verði þá að endurskoða strax á næsta hausti þannig að það séu samræmdar bætur sem viðlagatryggingasjóðurinn greiðir, bætur sem greiddar eru nú samkv. reglum Bjargráðasjóðs, þannig að þarna skapist ekki ákveðið ósamræmi á milli. Ég lít svo á að það þurfi meira að segja að skoða það hvort þetta gæti ekki orðið ein og sama stofnunin, enda þótt ég sjái ýmsa vankanta á því að svo geti orðið.