10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3806 í B-deild Alþingistíðinda. (2962)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þeim aths. sem hér hafa komið fram.

Í sambandi við stórtjón, ef þau verða á meðan Viðlagasjóður er ekki orðin sterkari stofnun en hann verður á fyrstu árum, þá auðvitað verður að grípa til svipaðra ráða og gert var við stórtjónin bæði í Vestmannaeyjum og Neskaupstað. Fyrst um sinn verðum við að reikna með því að hann taki ekki stærri hluta en þetta, en fjáröflun til Viðlagasjóðsins hefjist sem allra fyrst.

Í sambandi við aths. hv. 4. þm. Vestf., þá kannaði nefndin sérstaklega sambandið á milli Bjargráðasjóðs og væntanlegrar Viðlagatryggingar, og hún komst að þeirri niðurstöðu að þetta ættu að vera tvær aðskildar stofnanir með öllu. Viðlagatryggingin er hreint tryggingafélag með tryggingaiðgjöld og engin framlög úr ríkissjóði nema til komi stórtjón, eins og hv. 3. þm. Sunnl. benti réttilega á áðan. En það breytir ekki gangi þessa máls að endurskoðun laga um Bjargráðasjóð þarf að fara fram, og ég hygg að ég megi segja að sá ráðh., sem Bjargráðasjóður heyrir undir, eða það rn. hefur í hyggju að endurskoða þau lög. Bætur eru ekki beint brunabætur. Það eru bætur af völdum þeirra náttúruhamfara sem frv. gerir ráð fyrir. Undirbúningur þessa máls og stofnun slíks félags þarf að hafa langan aðdraganda. Iðgjöld af brunatryggingu eru einn sinni á ári. Þess vegna er það sem bæði þeir menn, sem sömdu þetta frv., og ég sem ráðh. leggjum áherslu á að það fái greiðan gang ef hv. þd. fellst á það. Hitt tek ég alveg undir og skal ekki standa á mér að endurskoðuð verði þau lög ef til kemur að þar sé um einhverja agnúa að ræða því að alltaf er sjálfsagt að bæta úr því sem kemur fram við framkvæmd málsins.