10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3811 í B-deild Alþingistíðinda. (2981)

265. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan fylgir þetta mál hinu málinu, því að hér er lagt til að b-liður 2. gr. l. um breyt. á l. nr. 78 1974, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu, falli niður, en þessi b-liður 2. gr. l. er um 400 millj. kr. ráðstöfun gengishagnaðar til Verðjöfnunarsjóðsins. Strax eftir gengisbreytinguna kom fram mjög öflug andstaða bæði meðal alþm. og forustumanna í sjávarútvegi gegn því að gengishagnaðurinn yrði skertur á þennan hátt, enda tók ríkisstj. ákvörðun um það að þessum 400 millj. yrði ráðstafað með gengishagnaðinum samkv. gengisbreytingunni í ágústlok sem Alþ. staðfesti skömmu fyrir jól. Þetta er því í raun og veru staðfesting á fyrri ákvörðun Alþ. í þessum efnum sem ég hygg að engin andstaða sé við.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að þessu frv. verði vísað til sjútvn.