10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3812 í B-deild Alþingistíðinda. (2983)

209. mál, félagsráðgjöf

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að lögákveða starfsheiti og rétt félagsráðgjafa. Frv., skýrir sig sjálft. Ed. gerði nokkrar breytingar á 1. gr. frv. á þann veg að rétt til að kalla sig félagsráðgjafa hefur sá einn sem til þess hefur leyfi heilbrrh. Sömuleiðis gerði Ed. þá breytingu á 3. gr. frv., að hún orðist þannig:

„Takmörkuð og/eða tímabundin réttindi má einnig veita þeim sem eru í starfi, þegar lög þessi öðlast gildi, en uppfylla ekki skilyrði 2. gr. Slíku leyfi fylgir ekki réttur til að kallast félagsráðgjafi.“

Heilbr.- og trn. Ed. varð sammála um að gera þessa breyt. á frv. og Ed. samþykkti hana shlj. Það er trygging fyrir það fólk, sem hefur unnið að þessum störfum án þess að hafa þá menntun sem um er að ræða, að það njóti þessara réttinda ef þetta frv. verður að lögum.

Virðulegi forseti, Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til að frv. verði vísað til heilbr.- og trn.