10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3822 í B-deild Alþingistíðinda. (2988)

11. mál, launajöfnunarbætur

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég á sæti í þeirri þingnefnd, sem fær væntanlega þetta mál til meðferðar, svo að ég skal ekki ræða það í einstökum atriðum við 1. umr. málsins. Þó get ég ekki látið hjá líða að vekja athygli á því að öll meðferð þessa máls er glöggt dæmi um það stjórnleysi sem ríkir á störfum Alþ. og í raun og veru það stjórnleysi sem um er að ræða af hálfu ríkisstj. á stjórnmálum og efnahagsmálum í landinu. Auðvitað hefði fyrir 1öngu átt að vera búið að afgreiða þetta frv. sem er flutt til staðfestingar á brbl., fyrir löngu hefði það átt að vera afgreitt. Í stað þess er það látið liggja í nefnd mánuðum saman og síðan er frv. gjörbreytt og tekin inn í það atriði sem í raun og veru ern alveg óskyld upphaflega efni frv. Þetta eru fáránleg vinnubrögð og í hæsta máta ámælisverð.

Málið hefur verið rætt í tvö skipti á sameiginlegum fundum fjh.- og viðskn. beggja d. Þar hef ég látið þessi sjónarmið koma fram. Ég lét þess getið þar að auðvitað hefðu þau ákvæði þessa frv., sem ætlað er að vera staðfesting Alþ., á yfirlýsingu hæstv. forsrh. frá 26. mars s. l. — þeirri yfirlýsingu sem hann gaf samninganefnd verkalýðsfélaganna, — auðvitað hefðu þau ákvæði átt að vera í efnahagsmálafrv. sem Alþ. afgreiddi um daginn því að þau eru í raun og veru alveg óskyld upphaflegu efni þessa frv. En góð ráð um þetta efni vildu fulltrúar stjórnarflokkanna í fjh.- og viðskn, ekki taka og því er nú komið sem komið er að þetta mál allt fær hina furðulegustu meðferð og ankannalega afgreiðslu.

Að sjálfsögðu mun nefndin taka þau ákvæði, sem lúta að högum gamla fólksins, til athugunar og ræði ég þau ekki í einstökum atriðum. Ég er sammála þeim sjónarmiðum sem um þetta efni komu fram í ræðum þeirra hv. þm. Magnúsar Kjartansson og Karvels Pálmasonar og munum við ræða nánar um tillögugerð um þetta efni í nefndinni.

Varðandi þau ákvæði þessa frv., sem eru nýmæli, að greiða skuli bændum láglaunabætur, þá er sjálfsagt að bændur með lág laun fái launabætur með sama hætti og launþegar hafa nú samið um fyrir sig. Það er sjálfsagt. En ákvæði þessa frv. eru með þeim hætti að ég held að enginn botni í raun og veru í því hvernig þau muni verða í framkvæmd, auk þess sem þau bjóða upp á svo mikla skriffinnsku að það hlýtur að vera feikilega kostnaðarsamt að framkvæma þetta og þá af sérstakri n. sem á að annast framkvæmd á mjög flóknum lagaákvæðum sem auk þess eru þannig að þau hvorki tryggja að þeir, sem eiga rétt á bótum raunverulega, fái þær né heldur koma í veg fyrir að þeir fái bætur sem engan rétt eiga á því. Hér er í raun og veru um að ræða hliðstæðan galla og komið hefur í ljós við framkvæmd láglaunabótanna sem ákveðnar voru á s. l. ári. Þess eru mörg dæmi að menn, sem vitað er að eru stóreignamenn og hafa háar tekjur, hafa fengið láglaunabætur. Einn fulltrúi Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. þingsins sagði að hann hefði verið um það spurður í sínu kjördæmi hvort tiltekinn stórbóndi — einn þeirra sem mest legði inn í eitt stærsta mjólkurbú landsins, ræki mjög vélvæddan búskap og hefði fjölda fólks í sinni vinnu, hvort hann mundi eiga rétt á láglaunabótum ef skattframtal hans fyrir s. l. ár sýndi að hann hefði engan afgang haft, hann hefði raunverulega engin laun haft sjálfur út úr búrekstrinum. Það kom svolítið á þá sem þurftu að svara, en þeir svöruðu því að athuguðu máli játandi. Hann fær láglaunabætur ef skattframtalið sýnir að hann hafi engar raunverulegar tekjur.

Þegar þetta var rætt nánar duttu mér í hug ummæli sem einn af atkvæðamestu þm. Sjálfstfl. lét falla á nefndarfundi í fjh.- og viðskn. þegar efnahagsfrv. var til umræðu. Hann sagði — og tók það fram á eftir að hann leyfði mér að hafa þetta eftir sér við það tækifæri sem ég kynni að kjósa — hann sagði um tiltekin ákvæði þess frv. að þau væru svo vitlaus að líklega yrði þau samþykkt. Og þegar ég minnti á þetta, sagði annar fulltrúi Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. um þetta frv. — og hann leyfði mér líka að hafa það eftir sér, annars mundi ég auðvitað ekki gera það — að hann mundi skrifa undir nál, um þetta með lokuð augu. Hann vildi m. ö. o. ekki sjá hvað hann væri að skrifa undir. Það get ég mjög vel skilið því að frv., sérstaklega ákvæðin um láglaunabæturnar til bænda, þótt tilgangurinn sé góður og þótt markmiðið sé réttmætt, þau ákvæði eru með þeim hætti að þingið ætti ekki að samþykkja þau.

Ég vildi aðeins að þessi atriði, fyrst og fremst varðandi málsmeðferðina, kæmu fram þegar við 1. umr. málsins. Um einstök atriði þess mun verða fjallað í nefnd og þar mun ég beita mér fyrir eða styðja sömu sjónarmið og fram komu í ræðum þeirra hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar og Karvels Pálmasonar.