10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3831 í B-deild Alþingistíðinda. (2994)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. meiri hl. (Ragnhildur Helgadóttir) :

Herra forseti. Heilbr.- og trn. þessarar d. hefur rætt þetta mál og skilar tveimur nál. Ekki svo að skilja að ekki séu allir nm. sammála um nauðsyn þess að koma þessu máli fram, heldur hefur minni hl. n. nokkrar ábendingar að gera sem hann gerir grein fyrir í sérstöku nál. Við í meiri hl. n. mælum hins vegar með því að frv. þetta verði samþ. óbreytt.

Eins og fram kom í dag var óskað umsagnar ýmissa aðila sem síðan sendu umsagnir sínar, að vísu örfáum dögum eftir að sá frestur var liðinn sem við höfðum tilskilið en engu að síður liggja nú flestar þær umsagnir fyrir. Frá hinum stóru heildarsamtökum ýmissa kvenfélaga í landinu, Kvenfélagasambandi Íslands og Kvenréttindafélagi Íslands, liggja fyrir jákvæðar umsagnir þar sem sérstök áhersla er lögð á að ekkert megi verða til þess að tefja það að farið verði að greiða fæðingarorlof til allra launaðra kvenna í landinu.

Mér er það ljóst að þótt fæðingarorlof verði eftir samþykkt þessa frv. greitt öllum launuðum konum í landinn, þá er eftir stór hópur kvenna sem ekki nýtur sams konar réttinda. Það er mál sem þarf að leysa í öðru sambandi og hlýtur að koma að einhvern tíma síðar. Menn benda á það að bændakonur þyrftu að eiga einhvern svipaðan rétt, og eru vissulega mikil sannindi í því fólgin. Þær vinna að mikilvægum framleiðslustörfum.

Fjöldi kvenna, sem börn fæða, vinnur ekkert utan sinna heimila, en hefur ærinn starfa fyrir því og sinnir vissulega mjög erfiðum og umfangsmiklum störfum. Víða í öðrum löndum er vandi þessara kvenna leystur með frjálsum tryggingum þannig að unnt er að kaupa sér rétt til fæðingarorlofs sem síðan er svo greiddur út úr almannasjóðum í gegnum almannatryggingakerfi þeirra landa. Þar sem fæðingarorlof er greitt í gegnum almannatryggingakerfi er þess að gæta, að almannatryggingakerfi þeirra landa er fjármagnað með allt öðrum hætti en gert er hér á landi. Þar greiða atvinnurekendur stærri hlut til þeirra sjóða sem um er að ræða heldur en hér er gert. Það hygg ég að sé meginorsök þess að ekki hefur fengist framgengt að fá leiðréttingu á þessu máli sem hér er um að ræða.

Þessa réttar hafa nú notið í 21 ár konur sem vinna hjá hinu opinbera, þ. e. a. s. réttar til launa í þrjá mánuði samtals á því tímabili sem þær fæða barn, — það er um að ræða þrjá mánuði samtals, eftir atvikum fyrir og eftir fæðingu.

Þetta held ég að hér um bil allir landsmenn hljóti að vera sammála um að sé mikið heilsuverndaratriði fyrir konuna, sé mikið réttindaatriði og heilsuverndaratriði fyrir barnið og sjálfsagt kjaramál fyrir þá sem þess njóta.

En það er svo að það hefur þótt allan þennan tíma eðlilegt að þetta mál vegna annarra kvenna á vinnumarkaðinum sé leyst með kjarasamningum. Allur þessi tími, 21 ár og meira til, hefur hins vegar liðið án þess að það tækist, og þess vegna hlýtur niðurstaðan að verða sú, að það verði að hlaupa undir bagga með þessum konum með löggjöf.

Ég skal ekki fara út í neinar meiri háttar hugleiðingar um það af hverju þetta mál hefur ekki leystst í kjarasamningum. Það gæti verið einfaldlega vegna þess að þessi fámenni hópur, sem hér um ræðir, er þannig settur að hann má sín ákaflega lítils í stéttarfélögunum, og það er því miður svo að viss nauðsynleg réttaratriði þessa hóps hafa þokað fyrir pólitískum sjónarmiðum þeirra sem stjórna í launþegafélögunum. Hins vegar veit ég að þeir, sem stjórna í launþegafélögunum, telja það skyldu sína að berjast fyrir rétti þeirra sem í þessum félögum eru, hvort sem það eru konur eða karlar. Þess vegna vil ég treysta því að þeir styðji þetta mál, sem við erum nú hér að ræða, og leggi sitt liðsinni til þess að þetta sjálfsagða réttaratriði verði fest í 1ögum landsins.

Ég vil benda á það að við erum eina landið á Norðurlöndum og þótt víðar sé leitað sem ekki hefur fest þetta atriði í lögum. Fyrir nokkrum dögum var lagður hér fram á Alþ. félagsmálasáttmáli Evrópuráðsins. Í honum er eitt ákvæði um að í löggjöf beri að festa rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs minnst. Þetta er eitt af þeim atriðum sem Sameinuðu þjóðirnar leggja mikla áherslu á að leiðrétt sé í lögum landa sem ekki hafa þegar gert það nú á þessu ári.

Bæði ég og sjálfsagt margir aðrir þm. hafa talið að við stæðum allframarlega á sviði félagslegs öryggis og við hefðum hér um bil að öllu leyti komið á fyllstu réttarbótum fyrir kvenþjóðina í landinu til jafns við aðra hópa. Á vinnumarkaðnum hefur þetta lengi verið vandamál. Við munum sjálfsagt öl1 eftir því þegar menn ræddu fram og aftur árum saman um hvort það væri viðeigandi að lögleiða rétt karla og kvenna til sömu launa fyrir jafnverðmæta vinnu. Menn sögðu lengi vel: Þetta er atriði sem Alþ. á ekki að vera að skipta sér af. Menn eiga að semja um þetta í frjálsum samningum. Það var lengi reynt. Það tókst ekki og um þetta voru sett lög og ég býst ekki við að neinn sjái eftir því í dag að hafa staðið að þeirri lagasetningu. Sama held ég að verði uppi á teningnum að því er varðar það réttindamál sem hér er um að ræða.

Mér er alveg ljóst að þetta litla frv. leysir ekki allan vanda allra kvenna í landinu sem þyrftu á einhverri aðstoð að halda. Þessu frv. var aldrei ætlað neitt í þá átt að gleypa sólina. Þetta frv. átti einfaldlega að tryggja að þær konur, sem hafa lægstu launin og vinna erfiðustu störfin af þeim störfum, sem eru unnin utan heimila í landinu, hafi möguleika til og að því sé stutt að þær séu heima hjá nýfæddum börnum sinum, þótt ekki sé nema örfáar vikur. Og hver vika, sem móðir nýfædds barns annast barn sitt, er talin hafa mjög mikla þýðingu sem grundvöllur að lífi þess síðar. Þetta hélt ég sannast sagna að væri atriði sem ekki þyrfti sérstaklega að ræða. Og ég hef gerst svo djörf að segja það að ég gengi út frá því sem sjálfsögðum hlut að öllum þætti nauðsynlegt að þessum hópi kvenna væru veitt þessi réttindi. En ég vil þó sérstaklega vekja athygli á þessu: Þetta er mjög mikið mannréttinda-, heilsuverndar-, menningar- og uppeldisatriði, að gera mæðrum í landinu kleift og stuðla að því með lagasetningu að þær annist nýfædd börn sín sjálfar fyrstu vikurnar af ævi barnanna. Þetta frv. gerir það að mínu viti. Þetta er fjármagnað af þeim sjóði sem mér sýnist að sé eini sjóðurinn í landinu sem hefur bolmagn til þess að gera þetta, um leið og hann er þannig fjármagnaður að það er fullkomlega rökrétt að hann taki þetta verkefni að sér. Þetta tvennt þarf vitanlega að fara saman að fjármögnunin sé með þeim hætti og að sjóðurinn hafi bolmagn til að taka þetta verkefni að sér.

Í því sambandi vil ég nefna að það er mjög orðum aukið hve gífurlegar fjárhæðir gæti verið hér um að ræða. Ég vil benda á það að árið 1973 voru 52.4% giftra kvenna í landinu með einhvers konar launatekjur af vinnu utan heimilis. Ég geri ráð fyrir að menn sjái það í hendi sér að ekki eru allar þær konur á barnsfæðingaaldri. Á ári hverju eða a. m. k. nú tvö síðustu ár hafa verið mun fleiri fæðingar en árin nokkrum árum á undan. Mér er sagt af fróðustu mönnum að fæðingum hafi mjög fjölgað af einhverjum ástæðum í tíð vinstri stjórnarinnar — ef það gæti verið einhverjum, sem mál mitt heyra, til huggunar að heyra minnt á þær upplýsingar — en það mun nú vera svo að fæðingar í tíð vinstri stjórnarinnar, að ég nú ekki tali um að loknum ferli vinstri stjórnarinnar, voru mjög margar, þ. e. a. s. fæðingar í fyrra og áætlaðar í ár eru 4 400–4 500. Við getum ekki gert ráð fyrir að þótt helmingur allra giftra kvenna í landinu vinni utan heimilis, að þá sé það eins stór hluti þeirra kvenna sem eru á barnsfæðingaraldri. Þess vegna tel ég óhætt að segja að það eru töluvert færri konur, sem vinna utan heimilis, af þeim sem eru á barnsfæðingaraldri. Og við það bætist að þær konur, sem hér mundu eiga í hlut, væru aðeins þær sem væru í fastri vinnu. Fjöldinn allur af konum, sem vinna utan heimilis, vinnur aðeins hluta úr vinnudegi eða er í ýmiss konar lausavinnu, þannig að þessar staðreyndir hljóta að færa mönnum heim sanninn um það að hér er ekki um gífurlegar fjárhæðir að ræða. Af öllum fæðingum sem árlega má búast við, hlýtur að vera innan við fjórðung hjá konum í þessum samtökum.

Þetta vildi ég aðeins benda á, vegna þess að hér varð ég einu sinni vör við að það var eins og menn reiknuðu með að þessar bætur færu til allra kvenna sem fæddu börn á ári hverju. En það er mikill misskilningur.

Ég hafði skýrt frá því að þessi tvö stóru heildarsamtök kvenna, sem voru málinu hlynnt, telja að það verði að flýta afgreiðslu málsins, en benda þó á að hér sé um að ræða vissa áfangalausn í stóru og aðkallandi vandamáli. Í sama dúr má segja að sé álit frá Rauðsokkahreyfingunni, þær telja að þetta mál þurfi að leysast, þeim finnst þó vafamál að það eigi að greiða fæðingarorlofið úr þessum sjóði. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs var hins vegar heldur óhress yfir að fá þetta verkefni og ég er satt að segja ekkert undrandi á því. Hvaða sjóðsstjórn mundi ekki fremur reyna að sporna gegn því að þurfa að taka á sig nýjar byrðar heldur en ekki. Mér finnst það ofur eðlilegt. En á það er að líta að tekjur sjóðsins hafa festst í ýmsum verkefnum úti um land sem sum hver hafa því miður verið verulega hæpin. Þar hafa setið fastar tekjur sjóðsins sem betur hefðu verið komnar til þess að rétta hlut þess fólks sem í verkalýðsfélögunum er.

Ég leyfi mér að vænta þess að hv. alþm. greiði þessu frv. atkv. sitt, og ég held raunar að ég megi trúa því, því að ég hefi oft orðið vör við að alþm. eru manna gleggstir á nauðsyn á almennum réttarbótum í þjóðfélaginu. Hér eru fulltrúar allra flokka sem geta sem betur fer séð dálítið út fyrir þrengstu flokkshagsmuni þegar því er að skipta.