10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3834 í B-deild Alþingistíðinda. (2995)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir vék að er hér um ákaflega mikið stórmál að ræða, mikið réttindamál fyrir íslenskar konur. Við verðum því miður að viðurkenna þá staðreynd að þrátt fyrir öll lagaákvæði um jafnrétti kynjanna á Íslandi er það ekki þannig í verki að um jafnrétti kynjanna sé að ræða og allra síst á vinnumarkaðinum. Konum er hópað í láglaunastörf, og þær eru svo til eini vinnukrafturinn sem er á vissum slíkum vinnustöðum þar sem lágt kaup er greitt. Þess vegna skiptir ákaflega miklu máli að reynt sé að rétta hlut kvenna á sem allra flestum sviðum, og hefur lengi verið brennandi nauðsyn að allar konur nytu sömu réttinda að því er varðar fæðingarorlof. Konur sem eru í opinberri þjónustu, hafa þennan rétt, verkakonur hafa hann í ákaflega takmörkuðum mæli. Þarna verður að koma á jöfnuði.

Þetta hefur oft verið rætt hér á Alþ. og fluttar um það till. áður, en það er ekki fyrr en nú í vetur sem kemst dálítið kapp í að fylgja þessu máli eftir. Þetta kapp hefur að vísu stundum tekið á sig svolítið annarlegar myndir. Sá þm., sem vakti máls á þessu á þessu þingi var hv. þm. Bjarnfríður Leósdóttir, sem flutti till. þar sem skorað var á hæstv. ríkisstj. að ganga frá frv. um þetta mál og leggja það fyrir næsta reglulegt þing. Þessi till. Bjarnfríðar Leósdóttur var send heilbr.- og trn. sem ræddi hana nokkrum sinnum. Síðan gerðust þau tíðindi að fram kemur hér í þinginu frv. til l. um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar (fæðingarorlof), og þrír fyrstu flm., hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, Jón Skaftason og Guðmundur H. Garðarsson, eiga öll sæti í heilbr.- og trn. Þau hafa ekki minnst á það einu orði í n. að þau vildu hafa þann hátt á því að framkvæma till. Bjarnfríðar Leósdóttur. Þau höfðu ekki orðað það í n. að breyta þessari áskoðun hennar á ríkisstj. í beina lagasetningu, og væru það þó þau vinnubrögð sem eðlilegust eru hér á þingi og eru yfirleitt notuð, að ef þm. flytur mál þá getur þn. breytt því eftir því sem henni sýnist og flutt till. í breyttri mynd. En þetta var ekki orðað við okkur í n., heldur geysast ýmsir fjölmiðlar af stað og við fáum að sjá elskulegan svipinn á hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur bæði í blöðum og í sjónvarpi dag eftir dag sem ötulli baráttukonu fyrir þessu stórmerka máli. Ég vil síst af öllu hafa nokkurn heiður af hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur í þessu sambandi, en engu að síður eru þetta dálítið einkennileg vinnubrögð, það er ómögulegt að neita því. (Gripið fram í.) Að vinna ekki að þessu máli á þinglegan hátt, eins og gert er þegar einhver maður hefur frumkvæði að flytja mál hér í þingi og það er sent til n. Þá er unnið að þessu innan n. og n. sendir svo frá sér sínar hugmyndir um hvernig að málinu eigi að standa. Það er sá venjulegi háttur sem við höfum hér í þingi, þannig að þetta eru ákaflega óvenjuleg vinnubrögð.

Það er um það ágreiningur, eins og menn vita, hvernig á að standa að framkvæmd þessa máls, þó að um það séu engar deilur að þetta mál verði að ná fram að ganga.

Síðan gerist það að í sambandi við bjargráðin alkunnu, — ég kann nú ekki langa nafnið sem á þeim var, — flutti ég brtt. um að fæðingarorlof yrði tekið upp sem hluti af almannatryggingum, gekk frá till. í einstökum atriðum hvernig að því yrði staðið og enn fremur um fjármögnun í þessu sambandi, þ. e. a. s. að atvinnurekendur greiddu þennan kostnað. Það gerist við atkvgr. um þetta mál að það er fellt að viðhöfðu nafnakalli, þ. á m. af öllum þeim sem standa að þessu frv. sem við erum nú að ræða. Þessir hv. þm. létu sig hafa það að fella það að þetta mál væri leyst í þágu allra íslenskra kvenna á þann eina hátt sem skynsamlegur er. Því verður maður að sjálfsögðu að taka. Þetta er afstaða stjórnarliðsins. Það má ekki leysa þetta mál á þennan hátt.

till., sem við erum hér að ræða, felur í sér miklu takmarkaðri lausn, lausn sem nær til hluta af konum og lausn sem ekki tryggir fullt fæðingarorlof, heldur aðeins 70–80% af því. En vissulega er þetta áfangi. Þetta er mikilvægar áfangi og ég er síst af öllu að gera lítið úr honum. En vegna þess að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir vék að því áðan mjög lauslegum orðum að heildarsamtök kvenna hefðu lýst alveg sérstökum stuðningi við þá tilhögun sem hún og fleiri þm. hafa hér lagt til, þá vil ég lesa þessar umsagnir. (RH: Ég tók fram að Rauðsokkahreyfingin gæti hugsað sér aðra tilhögun á greiðslum.) Já, einmitt, og ég held að það sé rétt að ég lesi þessar umsagnir svo að þær séu til í skjölum í umræðuparti þings, með leyfi hæstv. forseta:

Kvenfélagasamband Íslands segir svo: „Heilbr.- og trn. Nd. Alþ. hefur sent Kvenfélagasambandi Íslands til umsagnar frv. til l. um breyt. á l. nr. 57 27. apríl 1973, um atvinnuleysistryggingar (fæðingarorlof), 220. mál.

Stjórn Kvenfélagasambands Íslands telur það mikið nauðsynjamál, að lögfest verði hið fyrsta þriggja mánaða fæðingarorlof til handa öllum konum til að tryggja velferð barna og mæðra, og telur æskilegast, að þær greiðslur verði felldar inn í kerfi almannatrygginga. Sé þess ekki kostur, en hins vegar þyki fært að ná þeim áfanga sem frv. gerir ráð fyrir, með greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði, þá mælir stjórn Kvenfélagasambands Íslands með því að frv. þetta verði samþ.

Kvenfélagasamband Íslands hefur þannig sömu skoðanir og ég flutti till. um fyrr á þessu þingi, en hv. flm. þessa frv. greiddu atkv. á móti. Kvenréttindafélag Íslands segir:

„Sem svar við bréfi dags. 29. apríl þ. á., lýsir stjórn Kvenréttindafélags Íslands stuðningi við frv. til l. um breyt. á l. nr. 57 27. apríl 1975, um atvinnuleysistryggingar (fæðingarorlof), sem bráðabirgðalausn á aðkallandi vandamáli. Stjórn Kvenréttindafélags Íslands lýsir ánægju sinni yfir því að umr. skuli að nýju hafnar á Alþ. um að löghinda fæðingarorlof fyrir allar konur sem taka laun fyrir vinnu sína. Kvenréttindafélagið hefur ætíð litið svo á að allar konur í launaðri vinnu ættu jafnan rétt til þess að halda launum sínum óskertum í a. m. k. þriggja mánaða fjarveru vegna barnsburðar, en slíkt ætti ekki að vera háð getu einstakra atvinnurekenda. Kvenréttindafélag Íslands telur eðlilegt að fjármögnun til þess að standa straum af þeim kostnaði, sem af þessu leiðir, komi að einhverju leyti frá atvinnurekendum sjálfum í formi fastra framlaga og að nokkru frá ríkinu sem um leið tryggi þeim konum, sem rétt eiga til þessara launa, öruggar greiðslur.“

Rauðsokkahreyfingin segir í sínu svari:

„Í bréfi, dags. 29. apríl s. l., er leitað álits Rauðsokkahreyfingarinnar á frv. til l. um breyt. á l. nr. 67 27. apríl 1973, um atvinnuleysistryggingar (fæðingarorlof), 220. mál.

Rauðsokkahreyfingin fagnar þeim áhuga á þessu réttindamáli sem fram kemur í frv. svo og í þáltill. Bjarnfríðar Leósdóttur um fæðingarorlof og fæðingarstyrk. Því miður hefur aðeins takmarkaður hópur kvenna náð þessum sjálfsögðu réttindum enn sem komið er. Í umræddu frv. gera flm. ráð fyrir að þriggja mánaða fæðingarorlof verði fjármagnað með atvinnuleysisbótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Skv. 1. um atvinnuleysistryggingar yrðu greiðslur úr sjóðnum 70–85% af 2. taxta Dagsbrúnar, og gera flm. ráð fyrir að það, sem á vanti á full laun, komi úr sjóðum launþegasamtakanna. Flm. gera á engan hátt grein fyrir hvernig fjár verði aflað í Atvinnuleysistryggingasjóð til að standa straum af þessum auknu greiðslum.

Við teljum sjálfsagt að atvinnureksturinn standi undir þessum greiðslum, en ekki Atvinnuleysistryggingasjóður eða aðrir sjóðir launþega. Við viljum benda á samþykkt sem Rauðsokkahreyfingin gerði að Skógum í júní s. l. og á ráðstefnu um kjör láglaunakvenna í jan. s. l. sem hún hélt ásamt ASB, félagi afgreiðslustúlkna í brauð- og mjólkurbúðum, Iðju, félagi verksmiðjufólks, Starfsstúlknafélaginu Sókn og Starfsmannafélagi ríkisstofnana, en þar var þess krafist, að konur njóti fæðingarorlofs í a. m. k. þrjá mánuði og falli þær greiðslur undir tryggingakerfi ríkisins.“

Það er þannig alveg ljóst af þessum ályktunum frá samtökum kvenna að þær eru á því að það séu almannatryggingarnar sem taki að sér þetta verkefni og að það verði fjármagnað með greiðslum frá atvinnurekendum.

Fjórða umsögnin, sem barst og ég tel rétt að lesa einnig, er frá Tryggingastofnun ríkisins, þ. e. a. s. það er umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs um þetta frv. Umsögnin er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Með frv. þessu er lagt til að konur þær, sem forfallast frá vinnu vegna barnsburðar, njóti atvinnuleysisbóta í 90 daga samtals. Áætlun um útgjöld slíks fæðingarorlofs fylgir ekki frv. og liggur ekki fyrir. Ef miðað er við konu með tvö börn nema atvinnuleysisbætur nú frá 1. mars s. l. 1856 kr. á dag. Fæðingarorlof í samtals 90 daga, eins og kveðið er á um í frv., næmi þá 1856 kr. sinnum 90, þ. e. a. s. 167 040 kr. Þar eð ekki er vitað hve margar fæðingar mundu falla undir frv. þetta af þeim 4–5 þús. fæðingum sem til falla á ári hverju er ekki unnt að áætla kostnað Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna greiddra fæðingarorlofa ef frv. þetta verður að lögum. Það er hins vegar ljóst að hér er um gífurlega háar fjárhæðir að ræða. Ef breyt. verður á þeim taxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, sem bætur eru miðaðar við, breytist hið fyrirhugaða fæðingarorlof í réttu hlutfalli við það.

Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar er að greiða því fólki bætur sem verður atvinnulaust. Í því skyni var Atvinnuleysistryggingasjóður myndaður. Ýmsar kvaðir hafa verið lagðar á sjóðinn með lögum, svo sem greiðsla á eftirlaunum aldraðra, sem áætluð eru á þessu ári 113 millj. kr., og skylda til kaupa á verðbréfum veðdeildar Landsbanka Íslands vegna íbúðarlána. Frá upphafi til 31. des. 1974 nema slík bréfakaup 50.3% af öllum lánveitingum úr sjóðnum eða samtals 1 milljarður 457 millj. 639 þús. kr. Að svo miklu leyti sem sjóðurinn er aflögufær þegar hann hefur innt af hendi þær kvaðir, sem á hann hafa verið lagðar með högum, er eðlilegt og rökrétt að leitast sé við að ávaxta fé hans með þeim hætti að tryggja atvinnuöryggi fólksins í landinn og koma þannig í veg fyrir atvinnuleysi. Þetta er þýðingarmikið verkefni, og að þessu marki hefur stjórn sjóðsins stefnt frá upphafi.

Hér fer á eftir tafla, sem sýnir þau verkefni sem stjórnin hefur leitast við að greiða fyrir með lánveitingum sem hún hefur talið fært að veita frá upphafi til ársloka 1974. Lán til hafnabóta 364 millj. 400 þús. eða 25.26%, til fiskiðnaðar 284 millj. 795 þús. eða 19.74%, til annars iðnaðar 220 millj. 80 þús. eða 15.25%, til atvinnuaukningar ýmislegrar 197 millj. 760 þús. kr. eða 13.71%, til vatns- og hitaveitu 246 millj. 350 þús. kr. eða 17.14%, til orlofs- og félagsheimila 128 millj. 400 þús. eða 8.9%. Samtals er þetta 1 milljarður 442 millj. 786 þús. kr.“

Síðan segir í þessari álitsgerð:

„Verði frv. að lögum eru framangreindar fyrirgreiðslur skertar stórlega ef þær falla þá ekki niður með öllu. Frv. þetta hindrar þannig eðlilega starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs ef það verður að lögum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Sjóðsstjórnin minnir enn fremur á að lög um atvinnuleysistryggingar voru í upphafi sett fyrir tilhlutan aðila vinnumarkaðarins, og telur stjórnin því varhugavert að á lögunum séu gerðar grundvallarbreytingar án samráðs við þessa aðila.“

Eins og kemur fram í þessu bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins telur hún sér ekki fært að taka á sig þetta verkefni nema annaðhvort að fá auknar tekjur eða skera niður ýmsa veigamikla þætti í starfsemi sinni.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir komst þannig að orði úr þessum ræðustóli áðan að sjóðurinn hefði varið fjármunum í ýmiss konar verkefni úti um land og skilgreindi það ekkert nánar. En hér er um það umfangsmikla starfsemi að ræða, að ég tel að þeir menn, sem ætla að bæta nýjum verkefnum á sjóðinn án þess að auka tekjur hans, verði að gera grein fyrir því hvað á þá að skera niður.

Við, sem skipum minni hl. n. erum þeirrar skoðunar að það sé ekki fært að skerða verksvið atvinnuleysistryggingasjóðs, allra síst eins og nú standa sakir. Það kann að verða svo ástatt hér í landinu þegar á næstunni að það leggist á sjóðinn miklu meiri greiðslur en verið hefur vegna atvinnuástandsins í landinu, og þá verður sjóðurinn sannarlega að geta staðið undir sínu.

En í sambandi við málið sjálft vil ég segja þetta: Ég tel ekki að við eigum að standa hér í innbyrðis þrætum eða innbyrðis metingi um það hver sé mestur áhugamaður um þetta mál og hver ekki. Þetta er mál sem allir eru sammála um, og fyrst það er stefna flm. þessa frv. og að því er virðist hæstv. ríkisstj. að fara þessa leið, að ná þarna vissum, takmörkuðum áfanga í sambandi við atvinnuleysistryggingar, þá mun ég sannarlega ekki bregða fæti fyrir bað. Hins vegar tel ég einsætt að það sé skylda okkar að tryggja Atvinnuleysistryggingasjóði tekjur til að standa undir þessum kostnaði. Þess vegna höfum við, sem skipum minni hl. n., leyft okkur að flytja brtt. á þskj. 664. Þær fjalla um iðgjöld til Atvinnuleysistryggingasjóða. Eins og nú er háttað eru iðgjöldin þannig reiknuð að 34 kemur frá atvinnurekendum, 1/4 frá sveitarfélögum og helmingur frá ríkinu. Við leggjum til í þessum till. að aukinn kostnaður vegna fæðingarorlofs komi frá atvinnurekendum, að greiðslur þeirra verði auknar um 150 millj. kr. sem er mat okkar á því hverju árlegur kostnaður af þessu gæti numið. Það er óljóst mat og það kann að þurfa að breyta þessu, en ekki ætti það að vera mjög fjarri lagi. Við leggjum sem sé til að í stað þess að atvinnurekendur greiði 1%, eins og greinir í 6. gr. laganna, þá greiði þeir 1.9%. Það er reiknað með því að þeir greiði á þessu ári til atvinnuleysistrygginga 170 millj., 150 millj. í viðbót yrðu þá 320 millj. sem þeir yrðu að greiða. Hins vegar leggjum við til að framlag sveitarfélaga og ríkis verði óbreytt. En prósentutölurnar í lögunum lækka að sjálfsögðu við það að prósentutala atvinnurekenda eykst. Með þessu móti teljum við að þessi þáttur atvinnuleysistrygginganna taki á sig að leysa þennan hluta vandans og það sé gert á raunsæjan hátt og séð fyrir nauðsynlegum tekjum þar á móti.