10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3839 í B-deild Alþingistíðinda. (2997)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Hæstv. forseti. Ég er einn af flm. þessa frv., en það er búið að gera glögga og ítarlega grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem liggja að baki svo að ég mun ekki þurfa að hafa langt mál hér um.

Hv. 3. þm. Reykv. furðaði sig á því og hneykslaðist nokkuð að þm., þ. á m. flm. þessa frv., hefðu fellt till. í þá átt að þetta fæðingarorlof næði til allra íslenskra kvenna. Sama álit hefur komið frá fleiri ræðumönnum hér, að æskilegra hefði verið að svo hefði getað orðið. Ég hygg að við séum öll sammála um að það hefði verið gott og ágætt að við hefðum getað tekið skrefið það langt.

Það hefur sérstaklega verið minnst á bændakonur í þessu sambandi, og síst vil ég gera lítið úr því að þær væru vel að slíku fæðingarorlofi komnar. Ég vil þó benda á það, sem raunar hefur komið fram, að hér er ekki einungis um fjárhagsatriði að ræða, heldur ekki síður uppeldislegt atriði og mannréttindalegs eðlis. Og það er staðreynd að konur til sveita, sem við bústörf fást, eru öðruvísi settar en konur sem vinna að framleiðslustörfum fjarri heimili sinu og eiga þess engan kost meðan þær eru við vinnu, að skipta sér á milli heimilis og vinnu sinnar. Þetta er atriði sem mér finnst að þurfi að taka tillit til.

Ég vil viðurkenna það að ég var nokkuð hikandi fyrst í stað um að styðja þetta frv. Ég vissi mætavel að Atvinnuleysistryggingasjóður, enda þótt það tilheyri ekki upphaflegu verkefni hans, hefur stutt með mjög mikilsverðum hætti atvinnulíf í landinu. Hann hefur veitt lán út á ýmiss konar nauðsynjaframkvæmdir sem í raun og veru lögin um atvinnuleysistryggingar upphaflega gerðu alls ekki ráð fyrir. Þar með er augljóst, að með þessari viðbót við hlutverk sjóðsins hlýtur að sama skapi að skerðast geta hans til þess að sinna þessum verkefnum áfram. Ég lagði þetta einfaldlega niður fyrir mér, og mér fannst allt réttlæti mæla með því að það væru frekar konur sem fæða börn og um leið verða óbeint fyrir atvinnumissi, sem fengju að njóta góðs af greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði heldur en önnur verkefni, þótt þörf væru, sem eðli málsins tilheyra frekar öðrum sjóðum, ýmsum fjárfestingarsjóðum sem styðja undir atvinnulegar framkvæmdir í landinu. Það var á þessari forsendu að mér fannst þetta það aðkallandi réttlætismál til handa þessum vinnandi konum, sem margar hverjar inna af hendi mjög mikilvægt og þjóðnýtt starf í framleiðslulífi landsmanna, að ég ákvað að taka afstöðu og fylgja frv. í trausti þess að bæta Atvinnuleysistryggingasjóði upp það sem til þessa verkefnis fer.

Nú kom það fram við 1. umr. um þetta mál að Atvinnuleysistryggingasjóður er allsterkur sjóður. Höfuðstóll hans var talinn upp á 3 milljarða. Og við þá umr. var ætlað að þetta nýja hlutverk sjóðsins, fæðingarorlofið, mundi kosta hugsanlega um 200 millj. kr. E. t. v. er það ofmetið, eftir því sem mér heyrist koma fram í ræðu hv. 1. flm. frv. Brtt. hafa komið fram við þetta sem ganga í þá átt að framlag atvinnurekenda hækki nokkuð, úr 1% í 1.9%. Mér finnst eðlilegt að þessi leið sem aðrar verði athuguð, hvort hún geti skoðast algerlega réttmæt. Þetta er samningsatriði og ég treysti á góðan vilja atvinnurekenda og annarra sem þetta mál snertir að þeir veiti þessu máli lið.

Ég vil vona að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi, þannig að það geti strax komið til framkvæmda.

Í sambandi við aðfinnslur hv. 3. þm. Reykv. í sambandi við þáltill. sem kom hér fram fyrr í vetur, þá liggur í augum uppi að frv. til 1., sem samþ. yrði, flýtir fyrir framgangi málsins miklu frekar en hin leiðin, að þáltill. kvæði á um athugun málsins í n. Ég vil því vona að réttlætiskennd hv. þm. verði til þess að þeir skoði málið þeim augum að það fái framgang á þessu þingi.