10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3843 í B-deild Alþingistíðinda. (2999)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það hefur komið fram á Alþ., í vetur að verulegur áhugi er meðal þm. um að koma á fæðingarorlofi kvenna í landinn. Hafa verið flutt, eins og komið hefur fram hér í umr., tvö mál í þessu skyni og í þessum tilgangi: annars vegar það mál, sem hér liggur fyrir um að greiða konum atvinnuleysisbætur í 90 daga vegna barnsburðar, og áður í vetur þáltill. um að leysa þetta mál í gegnum Tryggingastofnun ríkisins eða almannatryggingalöggjöfina.

Ég vil strax taka fram að ég er fylgjandi því að komið verði á fæðingarorlofi kvenna. En ég vil vekja athygli á því að það sem er sameiginlegt báðum þeim málum, bæði þáltill. og þessu frv. sem hér liggur fyrir, er að það er aðeins átt við hluta kvenna í landinu. Það er aðeins átt við þær konur í landinu sem vinna utan heimilis. Ég hygg, að ég hafi tekið rétt eftir því að það hafi komið fram í framsöguræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, frsm. meiri hl., að það væru um 48% kvenna sem mundu vera utan þessa frv., ef svo mætti að orði komast. (RH: Það eru miklu fleiri, miklu meira en 48%, líka allar, sem vinna hjá ríkinu.) Já, ég tek þær með þeim sem vinna úti, því að þeirra réttur er þegar tryggður í lögum. En það, sem ég vildi vekja sérstaka athygli á, er að konur, sem vinna á heimilum og geta ekki af ýmsum ástæðum unnið utan heimila, fá samkv. þessu frv. ekkert fæðingarorlof. Og þá vaknar spurningin: Er þetta réttlátt? Er réttlátt að ganga þannig frá þessu máli að þær liggi þarna óbættar og þeirra hlutur? Nú er það ljóst að hér er um að ræða yfirleitt allar sveitakonur í landinu sem ekki hafa aðstöðu til þess að vinna úti. Þær hafa enga aðstöðu til þess að sækja vinnustað frá sínu heimili. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að konur geta það ekki. Það eru kannske tvær ástæður sem eru veigamestar. Annars vegar eru þær konur sem hafa stór heimili, eiga mörg börn eða hafa stór heimili sem þær þurfa að stjórna og vinna á, og svo í öðru lagi konur sem af heilsufarsástæðum geta ekki komið því við að vinna utan heimilis. Og þá vaknar þessi spurning: Hvers vegna eru þessar konur ekki teknar með þegar um er að ræða að lögfesta fæðingarorlof? Hvers vegna? Ég held að í mörgum tilfellum hátti svo til að einmitt þær konur, sem ekki geta komið því við að vinna úti, eru miklu verr settar en margar konur, sem vinna útí, þótt mér sé það vel ljóst að ýmsar konur, sem vinna utan heimilis, leggja á sig geysilega mikið erfiði. En þá vaknar spurningin: Hvernig stendur á því, hefur það verið skýrt út, hvernig stendur á því að þetta frv. er ekki látið taka til allra kvenna? Hvernig stendur á því? Er það réttlátt? Er það alveg fullkomlega frambærilegt? Ég dreg það mjög í efa að svo sé. Ég álít, að það þyrfti að koma til almenn löggjöf um fæðingarorlof allra kvenna í landinu, og vil leggja áherslu á það að þannig hefði mér fundist að málið hefði átt að leggjast fyrir.

Þá kemur að því hvernig eðlilegt sé að standa að þessu máli, t. d. hvort eðlilegt sé að heimfæra þetta mál undir Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég er þeirrar skoðunar að svona mál eigi heima í almannatryggingakerfinu. Atvinnuleysistryggingasjóður var stofnaður í alveg ákveðnum tilgangi á sínum tíma eins og hér hefur verið marglýst. Hann var stofnaður til þess að greiða atvinnuleysistryggingabætur þeirra sem verða atvinnulausir. Svo er einnig þess að gæta að hér er um verulegt fjárhagsmál að ræða og þess vegna kannske vanreifun á málinu að það liggur ekki fyrir hvað þessi fjárhagsvandi er stór, hvað þetta kostar. Það liggur ekki fyrir. Það hafa verið nefndar ýmsar upphæðir. Það hafa verið nefndar 100 millj. og það hafa verið nefndar 200 millj., en það liggur ekki fyrir úttekt á því hvað þetta kostar. (RH: Maður veit þetta með nógu miklum fyrirvara.) Er frambærilegt á Alþ. að afgreiða allstórt fjárhagsmál án þess að það liggi fyrir, hvað það kostar? (Gripið fram í: Hver getur sagt um hve margar fæðingarnar verða?) Nei, en það er hægt að kanna málið þannig að það liggi fyrir rökstutt álit um það hvers er að vænta í þessum efnum. Ég hef hlustað á umr. og heyrði að frsm. málsins ræddi um að það hefði verið mikil gróska í þessum efnum á vinstristjórnarárunum. Hvort það hafi stafað af lausung eða öðru, það er annað mál sem er erfitt að sannreyna til fulls, en eigi að síður er a. m. k. hægt að athuga, hvernig þessu hefur verið háttað á undanförnum árum, og líta á skýrslur um barnsfæðingar og gera grein fyrir því hér á Alþ. hvaða líkur eru nú á að þetta muni kosta nokkurn veginn. En það hefur sennilega ekki unnist tími til þess að vinna úr gögnum og leggja fyrir sæmilega rökstutt álit um hvað þetta muni um það bil kosta. Og ég álít að könnun á þessu atriði þyrfti að liggja fyrir áður en svona mál er afgreitt.

Það hefur komið fram í umr. að umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs lá ekki fyrir þegar málið var afgr. frá hv. heilbr.- og trn. Hins vegar liggur það fyrir nú, að það eru nokkur atriði sem koma fram þar sem ástæða er til að staldra við. Og það fyrsta, sem er raunverulega gagnrýnt í þessari umsögn, er þetta: það skortir áætlun um útgjöld sjóðsins, um útgjöld slíks fæðingarorlofs, og það er gagnrýnt að slík áætlun skuli ekki fylgja. Og á þessari áætlanaöld finnst mér ekkert ofvaxið að gera sæmilega áætlun í þessu efni til þess að menn geti gert sér grein fyrir því hvað þetta muni kosta. Það er ekki gert ráð fyrir því í frv. að tekna sé aflað, heldur á að leggja þetta á ákveðinn sjóð sem stofnaður er fyrir mörgum árum í alveg ákveðnum tilgangi sem er annar en sá sem þetta frv. fjallar um.

Það kemur fram í umsögn Atvinnuleysistryggingasjóðsstjórnarinnar að það hafa ýmsar kvaðir verið lagðar á sjóðinn með lögum, og það kemur fram eða skin í gegnum þetta álit nokkur kvíði um það hvort sjóðurinn geti, eins og ástatt er, staðið undir sínum skuldbindingum. Það er vert að gera að umtalsefni í nokkrum orðum þá starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs að lána til uppbyggingar í atvinnulífinu víðs vegar um landið. Ég er þeirrar skoðunar að einmitt þessi starfsemi sjóðsins sé til mjög mikillar fyrirmyndar af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi er hér um að ræða þátttöku í að byggja upp atvinnulífið í landinu sem auðvitað skýtur stoðum undir efnahagslíf þjóðarinnar og tryggir fjárhag hennar. Í öðru lagi er hér alveg sérstaklega á ferðinni viðleitni til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi, auka atvinnu og fyrirbyggja atvinnuleysi og létta þar með á sjóðnum eftir ákaflega æskilegum og heilbrigðum leiðum. Það er ástæða til að minna á það í þessu sambandi að Atvinnuleysistryggingasjóðurinn hefur í mörgum tilfellum haft mikil áhrif á atvinnumál og uppbyggingu víðs vegar um landið á undanförnum árum á ýmsum vettvangi. Og það væri skarð fyrir skildi að mínum dómi ef svo yrði kreppt að sjóðnum, að hann gæti ekki sinnt áfram þessu verkefni sínu, a. m. k. að talsverðu leyti. (Gripið fram í: Hvað um Byggðasjóð?) Það hefur verið ágætt samstarf á milli Atvinnuleysistryggingasjóðs og Byggðasjóðs, en Atvinnuleysistryggingasjóður hefur hins vegar hagað sínum lánveitingum hreinlega með tilliti til þess hvernig ástatt er í atvinnumálum á hinum ýmsu stöðum víðs vegar um landið, ekkert síður hér sunnanlands en annars staðar um landið.

Það kemur fram í umsögn Atvinnuleysistryggingasjóðs að þetta frv. mundi hindra eðlilega starfsemi sjóðsins ef það yrði að lögum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Og svo kemur að lokum fram að sjóðsstjórnin minnir á að lög um atvinnuleysistryggingar voru í upphafi sett fyrir tilhlutan aðila vinnumarkaðarins og þess vegna telur stjórnin varhugavert að á lögum þessum séu gerðar grundvallarbreytingar án samráðs við þessa aðila.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði fyrst hér áðan, að ég er fylgjandi jafnrétti kvenna að því er varðar fæðingarorlof, en álit að þetta mál þurfi meiri undirbúning og væri að mínum dómi heppilegast að vísa því til ríkisstj. til frekari undirbúnings og tillögugerðar, þ. á m. til þess að tryggja fjárhagslegan grundvöll málsins og í öðru lagi jafnrétti allra kvenna í landinu. Kvennaárið er ekki liðið þannig að jafnvel þó að þetta mál gangi ekki fram á þessu þingi, þá er enn færi á að taka það fyrir á næsta þingi, á haustþinginu, og koma því í höfn á kvennaárinu því að ég get skilið að það sé nokkurt metnaðarmál kvenna.