26.11.1974
Sameinað þing: 13. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

31. mál, sjónvarpsmál

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að endurflytja till. mína um sjónvarpsmál er ég flutti á liðnu sumarþingi, en ekki fékkst þá rædd af ástæðum sem ég leiði hjá að sinni. Till. eins og hún er flutt er efnislega sú sama, þótt orðalag sé lítið eitt breytt.

Frá því að Keflavíkursjónvarpinu var lokað fyrir íslenskum sjónvarpsnotendum hefur mér borist mikill fjöldi skeyta og bréfa. Eru skeytin milli 200 og 300. Kveðjur þessar eru frá fólki sem telur sig svipt góðri og saklausri skemmtun og oft miklum fróðleik með lokun og takmörkun á útsendingargeislum Keflavíkursjónvarpsstöðvarinnar. Truflanir líkar þeim, sem hér um ræðir, eru viðhafðar í austantjaldslöndum og vekja að sjálfsögðu gremju frjálsra manna sem telja þær vítaverðar.

Hinar fjölmörgu kveðjur, sem mér hafa borist, eiga það sameiginlegt að hvetja til þess að flytja þá till. sem ég nú geri og útbýtt hefur verið í Sþ. sem 34. máli.

Margt af því fólki, sem mér hefur sent erindi, er aldrað eða rúmliggjandi eða hvort tveggja, bæði aldrað og sjúkt. Þetta fólk telur sig hafa verið svipt mörgum ánægjustundum sem gerðu því lífið bærilegra. Þá má geta þess að foreldrar hafa látið í ljós óánægju vegna lokunar Keflavíkursjónvarpsins, því að dagskrá þess vakti áhuga unglinga og hélt þeim í ríkum mæli inni á heimilunum á kvöldin. Foreldrarnir skýra nú frá því að það færist í aukana að þessir sömu heimakæru unglingar komi seint heim á kvöldin eða jafnvel um miðjar nætur, og skýrasta dæmið er héðan úr Garðahreppnum þar sem áður fyrr voru um 20–30 unglingar í kringum söluturna, en eru nú á annað hundrað að jafnaði.

Það er rétt að geta þess að mér barst ekkert skeyti eða bréf þar sem lýst var ánægju með truflunina á útsendingargeislum Keflavíkursjónvarpsins, ekki eitt einasta. Nokkrar smágreinar birtust þó í dagblöðunum truflununum til stuðnings, en þeim var umsvifalaust svarað af fjölda stuðningsfólks valfrelsis á sama vettvangi og voru sjónarmið hinna sjálfkjörnu leiðtoga fólksins, menningarvitanna, kveðin niður, þeim var hafnað.

Ég var starfsmaður hér í þessu húsi þegar Háskóli Íslands var til húsa á götuhæðinni og minnist ég þess þegar háskólanemarnir komu til náms eftir erfiði sumarsins. En á afrakstri sumarsins byggðist námið um veturinn ásamt sparnaði í lifnaðarháttum til viðbótar því sem fátækir foreldrar gátu bætt við, oft af litlum efnum, þegar verkamannalaun voru varla til skiptanna þá frekar en nú, jafnvel þótt móðirin drýgði tekjur með prjónavinnu heima, eins og þá var algengt. Allt var gert til þess að sonurinn yrði nýtur borgari og framtíð hans tryggð. Mikil urðu vonbrigði þessara vinnulúnu foreldra þegar afrakstur erfiðis þeirra varð menningarviti sem ekki átti lengur samleið með almúgafólkinu.

Nú er öldin önnur. Þjóðinni ber skylda til að ala menningarvitana og kosta þá gegnum kerfið með svitadropum sínum, óbeint, í stað þess sem áður var, með þeim afleiðingum að þeir í skjóli þeirra forréttinda, sem þjóðfélagið veitir þeim, geta tekið ráð þess og fólksins í sinar hendur og ákveðið hvað fólkið má eða má ekki heyra og sjá innan veggja heimila sinna.

Það hefur komið fram hjá einum flokksbræðra minna hér á þessum stað, að ríkisstj. sé óheimilt að leyfa öðrum en ríkisútvarpinu að reka hér á landi útvarps- og sjónvarpsstöð. Þetta getur verið rétt. En með einhvers konar samkomulagi við íslenska ríkið hefur varnarliðið á Keflavíkurflugvelli rekið slíka starfsemi allan þann tíma sem það hefur dvalið hér á landi, og þrátt fyrir mótmæli menningarvitanna, 60 segja sumir og sjálfskipaðra, og þrátt fyrir öll mótmæli pólitískra andstæðinga vestræns samstarfs hefur sú starfsemi ekki fyrr verið bönnuð. Sé það rétt að sérstakt leyfi þurfi til viðbótar dvalarsamningi bandaríkjamanna til þess að reka útvarpsog sjónvarpsstöð á Keflavíkurflugvelli á löglegan hátt, þá álit ég rétt, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að veita slíkt leyfi tafarlaust, og nær þetta að sjálfsögðu bæði til útvarps og sjónvarps, eins og segir sig sjálft. En þar með er ég ekki að fara þess á leit að einn eða annar íslenskur aðili biðji varnarliðið um að opna aftur sjónvarpsstöðina, það er langt frá því.

Kommúnistar höfðu það að meginstefnu sinni allt stjórnartímabil vinstri stjórnarinnar að láta varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hverfa brott og gera Ísland varnarlaust. Köllun kommúnista er að takmarka öll samskipti Íslands og íslendinga við vestrænar menningarþjóðir, sérstaklega Bandaríki Norður-Ameríku, sem eru í forustu vestrænna þjóða í baráttunni gegn útbreiðslu kommúnisma sem læðist yfir lönd og lýð eins og dimmt ský og villir sumum sýn, en myrkvar tilveruna gersamlega fyrir öðrum. Þjóðin hristi af sér kröfur og skoðanir þessara boðbera bolsévika um brottför samherja okkar í NATO. Þetta var þeim ljóst. Því gerðu þeir varakröfur: takmörkun á útsendingu sjónvarpsins á Keflavíkurflugvelli, og alla varnarliðsmenn skyldi hýsa innan girðingar.

Ég er ekki einn þeirra sem deili hafa á hæstv. utanrrh. fyrir slæma framgöngu í utanríkis- og varnarmálum. Þvert á móti, hann á mikið lof skilið fyrir að komast gegnum hið erfiða vinstristjórnartímabil, 3 ár í ríkisstj. Íslands með kommúnistum, — það hefði þótt ótrúlegt þegar ég var þingsveinn, — sem höfðu að stefnu sinni að gera landið varnarlaust, án þess að láta undan síga og skila taflstöðunni óbreyttri á leiðarenda. Vonandi hlýtur hæstv. utanrrh. réttlátan dóm sögunnar, enda á hann það skilið. Hann er drengilegur andstæðingur og málefnalegur, það þekki ég og aðrir þeir sem áttu þess kost að starfa með honum sem borgarfulltrúar áður en Alþ. gleypti hann. En í einu brást hann þó, hæstv. utanrrh. Hann kom til móts við óskir kommúnista á einu sviði. Það var um lokun sjónvarpsins á Keflavíkurflugvelli, líklega til þess að friða þá um stundarsakir. En þar skjátlaðist hæstv. utanrrh. og hann réðst á garðinn þar sem hann var lægstur, þar sem aldnir og sjúkir höfðu skemmtan af. Hann gerði sér ekki ljóst að mikill meiri hl. íslensku þjóðarinnar vill alls ekki undanlátssemi gagnvart neinum kröfum kommúnista, því að allt, sem þeir gera, er markviss stefna að fyrir fram settu marki. Kröfurnar eru mismunandi eftir aðstöðu þeirra á hverjum tíma. Hvert fótmál, sem þokar þeim áfram að settu marki, færir fólkið jafnlangt frá frelsi sínu. Og fólkið spyr: Hvað kemur næst? Nú er Keflavíkursjónvarpið tekið af okkur? Banna þeir ekki útvarpið líka? Það hlýtur að vera. Það hlýtur að ná sama yfir útvarpið og sjónvarpið. Eða bækur, blöð, tímarit? Fólk er hrætt við öll afskipti hins opinbera af sjálfsögðum mannréttindum þess og þjóðin vill halda því frelsi sem hún hefur áunnið sér, en það er valfrelsi á öllum sviðum, frelsi til að velja og frelsi til að hafna. Fólk vill ekki láta segja sér hvað það má eða má ekki gera innan veggja heimila sinna.

Það þarf oft talsvert til að vekja almenning til vitundar um það sem er að gerast. Alþ. ber skylda til að standa vörð um rétt einstaklingsins og vara við aðsteðjandi hættum og óeðlilegum afskiptum af einkahögum hans. Stórum hluta þjóðarinnar er misboðið þegar út ganga boð og bönn sem stefnt er gegn friðhelgi heimilanna og koma í veg fyrir að ungir og aldnir njóti í kyrrð dagskrárefnis frá erlendri útvarps- og sjónvarpsstöð. Það þýðir ekki að tyggja aftur og aftur að hér sé um að ræða dagskrárefni frá hernámsstöð. Hér er staðsett samningsbundið varnarlið sem margt gott hefur látið af sér leiða. Varnarliðið er hér til að verja okkur gegn utanaðkomandi hættu. En við verðum sjálfir að verja okkur fyrir hættum, sem stafa innan frá, og láta ekki byggja utan um okkur andlegan múr. Frelsi til að velja og hafna má aldrei taka frá okkur. En það halda okkur engin bönd eða hlekkir því að frelsið er íslendingum í blóð borið.

Með því að takmarka, hvað við megum heyra og sjá á heimilum okkar, hefur fjölmennum hópum víðs vegar um landið verið misboðið. Það sýna kveðjurnar í bréfum, skeytum og símhringingum frá ýmsum stöðum á landinu og alls ekki bara þeim stöðum sem náðu Keflavíkursjónvarpinu, langt frá því, en þó mest að sjálfsögðu frá Suður- og Suðvesturlandinu, eða hér í kringum Reykjavík og í höfuðborginni sjálfri. Því leyfi ég mér, herra forseti, að flytja þessa þáltill. sem ég gat um í upphafi máls míns og mun nú lesa með leyfi, en ég mun hins vegar hlífa þingheimi við að hlusta á grg. Till. hljóðar svo:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að veita leyfi til hindrunarlausra útsendinga á dagskrárefni sjónvarpsstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og afnema þar með takmörkun á styrkleika útsendinga og breytingar á útsendingargeislum stöðvarinnar.

Jafnframt felur Alþ. ríkisstj. að láta fara fram athugun á, hvaða möguleikar eru til staðar fyrir Ísland að komast í beint samband við útsendingar erlendra sjónvarpsstöðva gegnum alþjóðleg fjarskiptakerfi, og þá um leið afla upplýsinga um kostnað við slíkt framtak og einnig aðrar tæknilegar framfarir í þróun sjónvarps, er miðist við að landsmenn allir njóti góðs af.“

Herra forseti. Ég leyfi mér að lesa smákafla hér úr grg., læt það nægja. Það skýrir sig sjálft. Hann hljóðar svo:

„Enginn sjónvarpsnotandi er til þess neyddur að horfa á sjónvarpsstöðina á Keflavíkurflugvelli, enda fá eða engin sjónvarpstæki flutt til landsins þannig hönnuð, að þessi stöð náist. Eigendur tækjanna verða því að láta fagmenn breyta þeim til þess að mynd frá útsendingarstöðinni á Keflavíkurflugvelli komi á skerminn.“

Að lokum vil ég segja þetta: Ég bið hv. þm. að hugsa sig vel um áður en þeir ganga til atkv. um þessa þáltill. Mér hefur orðið tíðrætt um lokun Keflavíkursjónvarpsstöðvarinnar og það er rétt, að margir, ungir sem aldnir, sjúkir og heilir, telja sig hafa misst góða dægrastyttingu með lokunaraðgerðunum. En meginmál mitt er að benda á þá hættu sem felst í því fyrir sjálfstæði einstaklingsins og ákvörðunarrétt einstaklingsins, ef hægt er með pólitískum aðgerðum að misbjóða réttlætiskennd fólksins. Og fólkið spyr: Hvað er næst? Getur verið að Alþ. standi ekki vörð um sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins og friðhelgi heimilanna? Er það mögulegt?

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu, en vil þó að lokum vona, að þjóðin, eins og kom hér fram úr ræðustól fyrir nokkrum dögum, sjái landið allt og þá ekki síður alþm., en blindist ekki af aukaatriðum, og látum aldrei reisa okkur andlega múra.