10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3848 í B-deild Alþingistíðinda. (3001)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir afstöðu minni bæði efnislega til fæðingarorlofs kvenna og eins og alveg sérstaklega til þeirrar hugmyndar að greiða fæðingarorlof kvenna út Atvinnuleysistryggingasjóði. Í því sambandi gerði ég nokkra grein fyrir Atvinnuleysistryggingasjóðnum, iðgjöldum til hans, lánum o. s. frv. Það var niðurstaða míns máls þá að þetta góða mál, sem hér þetta frv. gerir ráð fyrir, nema því aðeins að þetta frv. gerir ráð fyrir, nema því aðeins að starfssvið Atvinnuleysistryggingasjóðs væri verulega skert og það er hlutur sem ég álít að eigi ekki að gera.

Ég ætla ekki að fara að ræða mikið um fæðingarorlof kvenna, hversu gott mál það er í alla staði. Hv. 1. flm. þessa frv., Ragnhildur Helgadóttir, sagði mörg hjartnæm og tilfinningarík orð um það í ræðu sinni fyrr í kvöld og raunar áður. Það er ekkert ofsagt þar út af fyrir sig, en það, sem ég vil enn vekja máls á og undirstrika, er að ég álít að þetta mál eigi ekki að leysa með þeim hætti sem hér er gerð till. um og frv. gerir ráð fyrir.

Hv. 1. flm. talaði um að hún vissi ekki hvers vegna þetta ágæta mál, fæðingarorlof, hefði ekki náð lengra fram, hvorki í samningum né annars staðar. Ég gat um það við 1. umr. þessa máls að atvinnurekendur hefðu ævinlega staðið mjög fast gegn fæðingarorlofi og það hefði verið mjög seinvirkt og erfitt verk að ná þó þangað sem nú er komið, með þriggja vikna fæðingarorlofi fyrir almennar verkakonur, og ég er sannfærður um að á þeirri leið verður ekki lengra farið nema því aðeins að það hafi verulegan vanda í för með sér fyrir vinnandi konur, vegna þess að þær verða hreinlega sniðgengnar til starfa ef hægt er. Þess vegna er ég mjög sammála því að þessi mál á að leysa með löggjöf því að mjög ósennilegt er að atvinnurekendur fáist til að greiða einn fyrir alla og allir fyrir einn til þessara mála, nema því aðeins að þeim verði gert að gera það með 1öggjöf. En til þess sem sagt að konurnar líði ekki bókstaflega atvinnulega séð, þá álít ég að það sé nauðsynlegt að fæðingarorlof kvenna almennt sé á vinnumarkaðinum. Nokkuð annað er með ríkið, það getur gert eitt og annað, en atvinnurekendur, sem flestir eru frekar smáir, eiga ekki auðvelt með þessa hluti, og það er það sem við verðum að gera okkur ljóst.

Hv. 1. flm., Ragnhildur Helgadóttir, lét að því liggja að verkalýðshreyfingin hefði ekki gert mikið í þessum málum og framlag hennar væri ekki stórt, og ég ætla ekki að fara í neitt karp um það. En ég held að ég þekki til í þeirri hreyfingu og til samningamála, kröfumála verkalýðshreyfingarinnar, alveg á borð við hv. þm. og þykist því þekkja þessa sögu mjög sæmilega, og ég hef ekki orðið var við, þegar verkalýðshreyfingin hefur verið með þessi mál á oddinum, að mikill liðsauki hafi komið annars staðar frá, og þann eldmóð, sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir leggur nú í þetta mál, hef ég ekki orðið var við fyrr og er hún að mínum dómi nýr liðsmaður í þessu efni og veri hún velkomin því að sannarlega munar um liðveisluna.

Aðeins nokkur orð um fyrirkomulag þessara mála samkv. frv., síðan ætla ég að ræða um Atvinnuleysistryggingasjóðinn sjálfan.

Ég vil undirstrika það, sem hér hefur komið fram og kemur raunar fram í grg. frv. að hér er ekki um full laun að ræða í orlofi og getur munað verulega miklu. Hér er um að ræða 70–80% af næstlægsta taxta Dagsbrúnar, af vinnutekjum hans. Sem betur fer hefur mjög margt fólk hærri tekjur en þarna er um að ræða. Það mætti segja mér að í verulega mörgum tilvikum, t. d. í félagi því sem einn flm. þessa frv. er formaður fyrir, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, — það mætti segja mér að það væri mjög algengt í hans félagi að þessi greiðsla, sem ætlað er að koma á Atvinnuleysistryggingasjóðinn, næði ekki 50% af launum viðkomandi. Það er algerlega út í hött að tala um að lífeyrissjóðirnir komi hér á móti, — algerlega út í hött, — og það er hvorki að gera till. um, því síður að leysa neinn vanda þótt haft sé orð á því að reglugerðin og hlutverk lífeyrissjóðanna sé býsna mikið annað en hér er látið að liggja. Þetta liggur sem sagt alveg ljóst fyrir, að hér er aðeins um hluta launa að ræða, en engan veginn full laun vegna fjarveru í barnsfæðingu.

Þá vil ég alveg sérstaklega undirstrika það sem kom fram hjá hv. þm. Tómasi Árnasyni, sem spurði hvers vegna sé verið að takmarka sig í þessu efni við þær konur sem eru í verkalýðsfélögum, jafnvel þegar Atvinnuleysistryggingasjóður á í hlut. Rökin, sem færð eru fyrir því að Atvinnuleysistryggingasjóður eigi að taka þátt í þessum greiðslum, eru þau að atvinnurekendur greiði iðgjöld til sjóðsins. Vissulega er það rétt. En atvinnurekendur greiða ekki nema 1/4 af iðgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs, 3/4., greiða ríki og sveitarfélög. Og sannarlega mætti spyrja: Eiga ekki þær konur, sem er eins ástatt um og þær sem um er rætt í þessu frv. jafnan siðferðilegan rétt til greiðslu úr þessum sjóði eina og þær sem ætlast er til að fái þessar greiðslur? Sannarlega mætti spyrja á þá leið.

Nú er það svo að það er mín bjargföst skoðun og hefur verið þau 20 ár, sem Atvinnuleysistryggingasjóður hefur verið til, að þessi sjóður er fyrst og fremst eign verkalýðshreyfingarinnar, — fyrst og fremst. Ég veit að það eru ekki allir sammála um þá fullyrðingu. En það verð ég að segja þrátt fyrir þetta, að ef á annað borð á að láta sjóðinn standa undir jafnfjarlægu verkefni frá sínum uppruna og hér um ræðir, þá má það alveg eins vera til búandi kvenna í sveit eins og þeirra sem hér er gert ráð fyrir. Mér finnst það ekkert fjarlægara.

Ég lét í ljós, þegar ég tók til máls við 1. umr., að ég teldi að hér væri um verkefni almannatrygginga að ræða og við ættum ekki að flaustra málum eins og mér sýnist um að ræða hér, þ. e. a. s. að málið yrði ekki leyst með þessu frv. nema því aðeins að starfssvið Atvinnuleysistryggingasjóðs væri verulega skert. Við ættum miklu frekar að taka saman höndum og reyna að finna leiðir til þess að leysa þessi mál þannig að ekki þyrfti að standa styrr um. Það verður að segjast líka að í þeim umsögnum, sem borist hafa — það var mikið rekið eftir að þær kæmu fljótt — þá er þar yfirgnæfandi skoðun þeirra, sem láta í ljós skoðun sína, að almannatryggingarnar eigi að hafa þetta mál með höndum, og auðvitað er það langeðlilegast.

Það hafa verið lesnar hér upp umsagnir, en umsögn frá Alþýðusambandinu hefur ekki verið lesin og ég leyfi mér nú að gera það, með leyfi hæstv. forseta, því að hún lá ekki fyrir, þessi umsögn, þegar n. afgreiddi málið. Ég verð nú að segja það að ég hefði talið eðlilegt að sá aðilinn, sem ásamt verkalýðsfélögunum stóð að því að Atvinnuleysistryggingasjóður varð til, þ. e. a. s. með samningunum 1955, atvinnurekendasamtökin, — það hefði gjarnan mátt spyrja um álit þeirra. Það er mín skoðun um mál eins og Atvinnuleysistryggingasjóð, sem samið er um í hörðum vinnudeilum, er hluti af lausn í harðri vinnudeilu og var samið um öll grundvallaratriði sem nú eru í lögum, að varðandi grundvallaratriði um slík mál á ekki að ganga fram hjá þeim aðilum sem að málum hafa staðið, þegar um grundvallarbreytingar er að ræða. En í þessu frv., sem hér liggur fyrir, eru grundvallarbreytingar á hlutverki og störfum Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Í stjórn atvinnuleysistrygginganna, sjóðsstjórninni, þar sem fjallað var um þetta mál, voru mættir bæði þeir sem kosnir eru af Alþ., að vísu var einn fjarverandi, en 3 sem kosnir eru af Alþ. og þeir 3 aðrir sem kosnir eru af Alþýðusambandinu og Vinnuveitendasambandinu. Allir þessir menn urðu sammála um það álit, sem lesið var upp hér í kvöld, einróma.

Með leyfi hæstv. forseta er umsögn Alþýðusambandsins á þessa leið, — hún er dags. 6. maí, það var ætlunin að leggja hana fyrir miðstjórnarfund, en þeir eru á fimmtudögum og s. l. fimmtudag var fundardagur, en bar upp á helgidag þannig að ekki var fundur, forseti sambandsins, Björn Jónsson, fékk mér þessa umsögn og hefur eflaust borið sig saman við miðstjórnarmenn eða a. m. k. gerði hann það hvað mig snertir, en á fundi var ekki hægt að afgreiða hana vegna þess hve mikið var rekið eftir og tími var naumur til, en hún hljóðar þannig:

„Óskað er umsagnar Alþýðusambands Íslanda um frv. Ragnhildar Helgadóttur o. fl. um breyt. á l. um Atvinnuleysistryggingasjóð, en efni frv. er það að Atvinnuleysistryggingasjóði verði gert skylt að greiða verkakonum, sem eru félagar í samtökum innan ASÍ, laun vegna þriggja mánaða fæðingarorlofs við barnsfæðingar.

Alþýðusamband Íslands er því að sjálfsögðu fylgjandi að jafnrétti kvenna varðandi fæðingarorlof verði bundið í lögum þar sem ekki hefur þrátt fyrir áralanga baráttu tekist að koma því réttlætismáli í höfn með frjálsum samningum verkalýðsfélaganna og samtaka atvinnurekenda. Á hinn bóginn telur Alþýðusamband Íslands á allan hátt óeðlilegt að þau útgjöld, sem slíkri lögfestingu fæðingarorlofs hljóti að verða samfara, séu lögð á Atvinnuleysistryggingasjóð, en álitur að Tryggingastofnun ríkisins ætti að annast þetta hlutverk. Bendir ASÍ í þessu sambandi á það, að fæðingarorlof og atvinnuleysi eiga harla lítið sameiginlegt, og auk þess á þá staðreynd að greiðslustaða Atvinnuleysistryggingasjóðs án aukinnar tekjuöflunar til hans hefðu mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Í samræmi við framangreint er það því till. Alþýðusambands Íslands að frv. verði breytt á þann veg að Tryggingastofnun ríkisins verði fengið í hendur það hlutverk að tryggja konum það fæðingarorlof, sem þar er gert ráð fyrir, og að jafnframt verði tekjur stofnunarinnar auknar svo að hún hafi til þess fjárhagslegt bolmagn.

Virðingarfyllst,

f. h. Alþýðusambands Íslands.

Björn Jónsson.“

Þetta er umsögn Alþýðusambandsina og hún er mjög á sama veg í raun og veru og komið hefur fram í fleiri umsögnum.

En mig langar þá aðeins að snúa mér örlítið enn að Atvinnuleysistryggingasjóðnum og minna á, til þess að menn hafi það alveg fast í huga þegar þeir fara að greiða atkv. um þessi mál, hver staða Atvinnuleysistryggingasjóðs er í þessum efnum. Iðgjöld eru áætluð á þessu ári 680 millj. kr. og vaxtatekjur um 190 millj. Þetta eru um 870 millj. samtals. Þetta finnst mönnum sjálfsagt býsna há upphæð, en hins vegar vil ég minna á að fastráðstafað af þessari upphæð er í fyrsta lagi helmingur iðgjaldaupphæðarinnar þar sem sjóðnum er gert með lögum að kaupa bréf Byggingarsjóðs ríkisins eða veðdeildar Landsbankans, og eins og fram kemur í umsögn sjóðstjórnarinnar er sjóðnum einnig með lögum, sérstökum lögum, gert að greiða lífeyri til aldraðra í stéttarfélögum og reiknað er með að á þessu ári nemi það 118 millj. Sjóðstjórnin hefur áætlað að á þessu ári mætti búast við að bótagreiðslur gætu numið um 180 millj. kr., og það sem af er þessu ári bendir til þess að hér sé ekki mikið of í lagt.

Hér er um að ræða röskar 630 millj. kr. sem á þennan hátt er strax ráðstafað með lögum, sjóðurinn á beinlínis að gera þetta og á ekki undankomu frá. Þá sjá menn að það eru ekki nein ósköp eftir. En sjóðurinn hefur hins vegar staðið undir margs konar almennum útlánum, sérstaklega til, eins og hv. þm. Tómas Árnason tók hér fram áðan, ýmiss konar atvinnuframkvæmda viða um landið og alveg sérstaklega miðað þar við að tryggja atvinnu á þeim stöðum sem um hefur verið að ræða. Sjóðurinn hefur með því móti, sem er í alla staði æskilegt, í mjög mörgum tilvikum komið í veg fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta. Að sjálfsögðu er það á allan hátt betra, bæði fyrir verkafólkið og að sjálfsögðu fyrir atvinnulífið sjálft. Þessi almennu útlán námu á s. l. ári rösklega 120 millj. kr. og voru þá tiltölulega lág, vegna þess að á því ári var enn verið að greiða framlag sjóðsins til Viðlagasjóðs sem nam 160 millj. kr. og 80 millj. s. l. ár.

Í öðru lagi hefur sjóðurinn alveg sérstaklega greitt fyrir ýmsum framkvæmdum sveitarfélaganna, einkanlega vatns- og hitaveitum, sérstaklega hitaveitunum þar sem þær eru á ferðinni og ekki hvað síst vatnsveitum og öðru sem orðið hefur til þess að gerbreyta hreinlætisaðstöðu, einkum fiskiðjuveranna. Í þessu efni hefur sjóðurinn lánað allverulegt fé.

Það er rétt að ég endurtaki það að ef sjóðnum verður gert ómögulegt að halda áfram þessum almennu útlánum, sem augljóslega verður ef þessar kvaðir verða á hann lagðar, þá er mjög hætt við að ein stoðin sem stendur undir iðgjaldagreiðslunni, þ. e. a. s. greiðslurnar frá sveitarfélögunum, komi ekki með þeim skilum sem þó hefur verið hægt að fá þær með einmitt vegna lánveitinganna, vegna þess að það hefur verið regla hjá sjóðsstjórninni að enginn, hvorki sveitarfélag né aðili í sveitarfélaginu, fær lán úr sjóðnum ef sveitarsjóðurinn er í vanskilum við sjóðinn. Þessi aðferð til innheimtu, sem ég fullyrði að hefur gert kleift að ná inn framlögum sveitarfélaganna, væri þess vegna í mikilli hættu ef sjóðurinn getur ekki haldið þessari almennu lánastarfsemi áfram.

Eins og kom hér fram áðan í yfirliti sjóðsstjórnarinnar, sem gert var um lánveitingar, hefur allríflegt fé m. a. farið til hafnarframkvæmda í landinu nú hin seinni ár, beint til hafnarsjóða. Þau mál voru á dagskrá fyrr í dag og það liggur fyrir núna lánsumsókn frá hæstv. samgrh., hafnamálaráðh., um 60 millj. kr. lán úr Atvinnuleysistryggingasjóði í hafnasjóð. Það er augljóst að sjóðurinn sinnir ekki slíkum þörfum ef þessar kvaðir verða á hann lagðar. Og það kannski kemur vel heim við það, sem var lesið hér í dag úr aðalmálgagni ríkisstj., Morgunblaðinu, að auðvitað hlytu framlög til hafnasjóðs að minnka verulega, svo að mönnum er kannske ekkert illa við það þó að slík aðstoð við hafnasjóð eins og hefur verið undanfarin ár verði ekki að þessu sinni. En það verður ekki til þess að styðja atvinnuöryggið í landinu, eitthvað annað. Á s. l. ári veitti sjóðurinn hafnasjóði 40 millj. kr. lán.

Frá Reykjavíkurborg liggur nú umsókn um lán að upphæð 100 millj. kr. Reykjavíkurborg er mjög stór aðili við sjóðinn, ekki aðeins sem sveitarfélag og með tilliti til framlags síns sem slíks, heldur er Reykjavíkurborg einnig mjög stór atvinnurekandi og greiðir að sjálfsögðu iðgjöld sem slíkur. Reykjavíkurborg hefur fengið verulega fyrirgreiðslu úr sjóðnum á undanförnum árum og ég reikna með því að það hefði verið reynt að verða við þeirri beiðni nú eins og áður, en skerðist auðvitað ef þessar kvaðir verða á sjóðinn lagðar.

Nákvæmlega sama er að segja um önnur sveitarfélög, velflest sveitarfélög í landinu. Öll nágrannasveitarfélögin hér hafa nú komið með lánsbeiðnir vegna hitaveituframkvæmda.

Mér finnst í raun og veru að menn eigi að þekkja þetta og ef þeir þekki það ekki, þá verði þeir að afla sér upplýsinga um það. Ef það er ætlunin að skera niður þessa starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs, þá eigi menn, sem flytja svona frv., hreinlega að koma með beinar till. um hvað á að skera niður. Og ef sú till., sem hér hefur verið flutt nú um aukið framlag atvinnurekenda til sjóðsins verður felld, þá mun ég við 3. umr. flytja till. um hvað skuli skorið niður, og þá er rétt að menn fái að standa frammi fyrir því hvað á að skerða, því að hvort tveggja verður ekki gert: að halda áfram starfsemi sjóðsins eins og hún hefur verið og einnig að leggja þessa nýju kvöð á hann. Hvort tveggja verður ekki gert.

Menn spyrja ósköp mikið: Hvað kostar þetta? Og sannarlega hefði verið æskilegt að a. m. k. einhver ágiskun um það hefði legið fyrir. (RH: Það liggur fyrir ágiskun.) Hver er hún? (RH: Innan við 100 millj.) Nú kemur það fram í umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að hvert fæðingarorlof kostar sjóðinn 170 þús. kr. tæpar. (RH: Ef konan á tvö börn.) Já, það munar nú ekki svo mjög miklu, en við skulum bara segja 150 þá, það skiptir ekki öllu máli. Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, ég tók eftir því í ræðu hennar áðan að hún reiknaði með að fjórðungur, t. d. 1/4 sagði hún, af þeim 4–5 þús. konum, sem fæða börn á hverju ári, yrðu þessa aðnjótandi að áætlað er. Hvað er fjórðungur af þessu (RH: Innan við fjórðung.) Segjum innan við fjórðung, já. Ég sé ekki betur en fjórðungur af þessu og kannske innan við fjórðung, við skulum bara segja 1000, er það ekki innan við fjórðung? (GHG: Segjum 1400.) Við skulum segja að það séu 1000, hvað eru þetta þá orðnar margar millj. með 160–170 þús. á hvert fæðingarorlof ? Ég sé ekki betur en þetta séu 150–170 millj. sem þarna er um að ræða. Og þá er rétt, ef það er ætlunin að fella þá till. sem hér hefur komið fram um auknar tekjur til sjóðsins, að menn geri sér þá fulla grein fyrir því hvað það er sem þeir vilja skera niður, því að ef um slíkar upphæðir er að ræða, þá lokar þetta hreinlega fyrir alla aðra starfsemi sjóðsins en þá sem hreint er lögboðin.

Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri. En ég vil mjög undirstrika það sem ég sagði við 1. umr. málsins og vil endurtaka núna og mér skilst að hv. þm. Tómas Árnason gerði líka áðan, en það er að við skoðum þessi mál betur. Við skulum ekki flaustra þessum málum af. Kvennaárið er ekki einn sinni liðið og ef við notum tímann og þau samráð, sem við getum hér um haft, þá er ég alveg sannfærður um að við getum fundið leiðir til að leysa þessi mál og ekki þurfi deilur um að skapast. Hér er um mjög gott mál að ræða. En ég ætla ekki að lýsa því yfir að ef þessar till. verða felldar um fjárauka til sjóðsins eða sú till., sem ég hafði hugsað mér að koma með ef hún yrði felld, þá ætla ég ekki að fara lýsa því yfir að ég ætli að greiða atkv. með þessu máli að lokum, hreinlega ekki. Hér er um að ræða grundvallarbreytingu á hlutverki Atvinnuleysistryggingasjóðs og ég hreint og beint tel mig ekki hafa vilja til þess að gera það, vegna þess að það getur ekki orðið nema á kostnað annarra þeirra starfa sem þessi sjóður á að hata með höndum. Þess vegna vildi ég nú leggja áherslu á það að við skoðuðum þessi mál rólega og með það fyrst og fremst í huga að leysa þau. Það held ég að væri miklu affarasælla en fara að keyra í gegn þessa till. núna. Það er augljóst, ekki hvað málefnið sjálft snertir, fæðingarorlof, heldur þá meðferð á Atvinnuleysistryggingasjóðnum sem hér um ræðir, að það yrði gert í óþökk mjög margra.