10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3865 í B-deild Alþingistíðinda. (3006)

222. mál, Leiklistarskóli Íslands

Frsm. (Ingvar Gíslason) :

Virðulegi forseti. Það eru að vísu ekki margir í salnum, en samt tek ég því fegins hendi að fá að mæla fyrir þessu nál. okkar menntmn.-manna vegna frv. um Leiklistarskóla Íslands.

Þetta frv. var lagt fram 14. apríl og þá lagði hæstv. menntmrh. mjög mikla áherslu á að frv. fengi greiðan gang í gegnum n. svo því var vísað til, menntmn. Menntmn. tók þetta mál til skoðunar strax þegar það hafði borist n. og hefur kannað það mjög ítarlega og varð sammála um að sjálfsagt væri að greiða fyrir samþykkt frv., en þó með allmiklum breytingum sem n. hefur flutt hér á sérstöku þskj.

Þessar breytingar eru að efni til allmargvíslegar vegna þess að okkur virtist að það þyrfti að taka margt betur fram en frv. sjálft gerði ráð fyrir.

Ein efnisbreytingin er sú að við höfum með till. okkar ákveðið hlutverk skólans allmiklu nánar en gert er í frv. sjálfu. Auk þess höfum við lagt til að tekið verði upp í frv. ákvæði um að reka megi undirbúningsdeildir í tengslum við skólann annars staðar á landinu. Okkur bárust um það sérstök tilmæli frá leikurum og einkum frá Leikfélagi Akureyrar að eðlilegt væri að slík heimild væri í lögum. Og ein af brtt. okkar er sem sagt sú að heimilt verði að reka undirbúningsdeild í tengslum við skólann annars staðar á landinu en í Reykjavík.

Þá höfum við líka gert það að till. okkar vegna sérstakrar ábendingar frá samtökum leikara að eðlilegt sé að starfrækja svokallað nemendaleikhús við leiklistarskólann tilvonandi, en þegar talað er um nemendaleikhús er að sjálfsögðu ekki átt við leikhús í venjulegri merkingu þess orðs, heldur er þar um að ræða leiksýningar nemenda eða uppfærslu á leikverkum á vegum nemenda, og er það þá þáttur í menntun þeirra og þjálfun til leiklistarstarfa. En slík nemendaleikhús, sem svo eru kölluð, starfa yfirleitt við leiklistarskóla.

Þá hefur n. gert það að till. sinni, og er þar um veigamikla efnisbreytingu að ræða, að skólastjóri Leiklistarskólans verði ráðinn til fjögurra ára í senn, en ekki verði um æviráðningu að ræða. Hér er að sjálfsögðu um verulega efnisbreytingu að ræða því að í frv., eins og það var lagt fyrir, var ekki gert ráð fyrir slíku. En okkur fannst í menntmn. eðlilegt að hafa þennan háttinn á og leggjum það því til.

Þá höfum við líka gert að till. okkar að það komi skýrt fram að kennarar verði ráðnir í samráði við skólanefndina, og jafnframt höfum við breytt orðalagi að því leyti til að notað er orðið stundakennari, stundakennarar, í frv. eins og það var lagt fyrir, en við höfum m. a. fyrir ábendingu frá leikurum og fyrir okkar athugun á málinu lagt til að ekki verði notað orðið „stundakennarar“, heldur verði því breytt í „kennarar“, þannig að það verði ekki lögfest að ekki megi starfa við skólann aðrir en stundakennarar.

Þá er sú breyting gerð frá því, sem lagt er til í frv., að í skólanefnd verði bætt tveimur fulltrúum, þ. e. a. s. frá Leikfélagi Akureyrar og frá kennurum skólans. Það þótti eðlilegt og það þóttumst við sannfærast um, menntmn. menn, eftir að hafa kynnt okkur allar ástæður. Þá þótti eðlilegt að Leikfélag Akureyrar, sem rekur nú fast leikhús, eigi aðild að skólanefnd eins og önnur leikhús sem starfandi eru í landinu. Eins virtist okkur sjálfsagt að kennarar skólans ættu fulltrúa í skólanefnd til jafns við nemendur. Um þetta fjallar ein brtt. eða það felst í brtt. menntmn. að svo verði.

Miklar umr. urðu í menntmn. vegna ákvæðis til bráðabirgða, en ákvæði til bráðabirgða fjallar um rétt nemenda núverandi leiklistarskóla, þ. e. a. s. leiklistarskóla leikhúsanna og Leiklistarskóla Samtaka áhugamanna um leiklist, eins og það heitir. Það eru tveir skólar sem starfa, þ. e. a. s. Leiklistarskóli leikhúsanna og svo Leiklistarskóli Samtaka áhugamanna um leiklist. Þessir tveir skólar starfa og okkur þótti nauðsynlegt að tryggja það fullkomlega að nemendur þessara skóla fengju greiðan gang inn í þann skóla sem nú á að stofna með lögum. Þess vegna höfum við í menntmn. gert mjög ákveðna brtt. sem á að tryggja að þeir nemendur, sem nú stunda leiklistarnám við frjálsa skóla, geti örugglega haldið áfram námi sínu í væntanlegum Leiklistarskóla ríkisins og þá verði tekið tillit til þess náms, sem nemandinn hefur þegar lokið, og einnig þess hvort hann hefur staðist hæfnismat í skóla sínum.

Ef við því lítum á þær brtt., sem n. hefur gert, og á frv., sem lagt var fram, þá gengur það að sjálfsögðu allt út á hið sama, en eigi að síður er hér um mjög verulegar efnisbreytingar að ræða og ég hygg að frv. verði miklu fyllra í alla grein heldur en það var eins og það var lagt fram af hæstv. menntmrh.

En sem sagt, menntmn. hefur öll orðið sammála um að leggja til þessar breytingar og að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem ég hef nú verið að gera grein fyrir.