26.11.1974
Sameinað þing: 13. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

31. mál, sjónvarpsmál

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að hafa mörg orð um þessa þáltill. sem hér liggur frammi. Það hafa orðið þegar í fjölmiðlum og á almennum vettvangi töluverðar umr. hér um, umr. sem mér hafa þótt á margan hátt heldur lítilsigldar og í rauninni óþarfar. Ég vil þó að sjálfsögðu ekki láta hjá líða að óska hv. 12. þm. Reykv., þeim ágæta flokksbróður mínum Albert Guðmundssyni, til hamingju með öll heillaskeytin og bréfin sem hann hefur fengið. Ég á þó ekki von á að honum hafi borist mjög mörg bréf úr mínu kjördæmi eða Austurlandskjördæmi eða frá þeim stöðum á Norðurlandi, þar sem fólk sér enn ekki til sjónvarpsskermsins eða við svo léleg skilyrði að ekki getur vansalaust talist. Hins vegar veit ég að það er margt fólk hér á suðvesturhorni landsins sem saknar þessa og ég vil láta samúð mína í ljós með þeim sjúku og öldnu sem þarna hafa misst mikils. En mér er næstefst í huga að þetta sé nú notað til þess að gera till. um áframhaldandi opið Keflavíkursjónvarp aðgengilegri og mannúðlegri og girnilegri fyrir fólk almennt til að aðhyllast hana. Og ég vil segja það að ef við getum ekki búið þolanlega að okkar öldnu og sjúku, þá held ég að við verðum að skoða vel hug okkar áður en við förum til Bandaríkjaherliðsins, sem hér er statt í varnarskyni, til þess að leysa það verkefni fyrir okkur. Okkur ber skylda til þess að hlynna að þessum hópi þjóðfélagsins einir og hjálparlaust.

Það hefur mikið verið talað um skerðingu á frelsi einstaklingsins í sambandi við lokun Keflavíkursjónvarpsins. Mér hafa þótt röksemdir fyrir þeirri fullyrðingu ákaflega einkennilegar og hæpnar. Hvað er frelsi og hvað er skerðing á frelsi? Hvað segir hv. 12. þm. Reykv. um þá skerðingu á frelsi á heimilum fólks, að ef við erum stödd í fjölbýlishúsi að kvöldi til, kl. 11–12, ber okkur skylda til í allflestum fjölbýlishúsum samkv. þeim reglum, sem þar gilda, hvorki að hafa þar hávaða í sambandi við skemmtanir, sjónvarp né annað, — píanóleikur, söngur og hvers konar gleðskapur er saknæmt atriði? Er ekki skerðing á frelsi að banna okkur slíkt? Og gætum við ekki endalaust bent á frelsisskerðingu? Ég ætla ekki að fara út í að lýsa því og benda á óteljandi tilvik í nútímaþjóðfélagi, þar sem okkar frelsi er skert af tillitssemi við þá, sem búa í kringum okkur, þannig að tal um frelsi og mannréttindi tel ég á mjög ótraustum grundvelli byggt.

Varðandi sjónvarp varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli vil ég segja það og minna á það, að varnarliðið er hingað komið af illri nauðsyn. Það er hér af illri nauðsyn. Ég er því samþykk að hafa það hér, af því að ég tel það of mikla áhættu að gera landið varnarlaust og vísa hernum burt. Hins vegar tel ég augljóst mál og það er yfirlýst stefna okkar flokks, míns og hv. flm. þessarar till., að okkur beri pólitísk og siðferðileg skylda til að hafa sem minnst samband við það varnarlið, sem hér er, og hindra eftir öllum leiðum áhrif þess út í þjóðlífið. Í öðru lagi er allur efnahagslegur ábati, sem við reynum að gera okkur af veru þessa varnarliðs hér, fyrir neðan okkar virðingu og fyrir neðan okkar vitund sem sjálfstæðrar þjóðar. Í öllum samskiptum okkar við þetta varnarlið, sem hingað er komið, eins og ég segi, af illri nauðsyn, þurfum við og verðum að hafa hreinan skjöld og hreinar línur í öllum viðskiptum, enda þótt hér sé annars vegar vinveitt þjóð og sambandsþjóð sem við höfum illu heilli þurft að biðja um vernd og varnir gegn ofbeldisöflun í heiminum sem við höfum talið okkur ógnað af.

Ég held að það skaði engan mann þótt við tölum í þessu sambandi um þjóðlegan metnað og þjóðlega reisn. Og ég verð að segja að ég tel illa farið ef nokkur maður í okkar landi er þannig gerður að hann noti þessi orð: þjóðarmetnað og þjóðarstolt, sem skammar- og hæðnisyrði. En það hefur því miður heyrst og það tel ég illa farið ef við erum vaxin upp úr því að hafa þjóðlegan metnað og vera þjóðlega stolt. Þetta segi ég í sambandi við hvaða erlendan aðila sem væri, hvort sem það væru bandaríkjamenn eða önnur stórþjóð sem í hlut á. Við megum sannarlega sýna fulla gætni í samstarfi okkar, hversu vinveitt og hversu óáreitin sem okkar samstarfs- og bandalagsþjóð er, og þar á ég víð bandaríkjamenn á Keflavíkurflugvelli.

Það er hart að bendla allar skoðanir við kommúnisma, sem ég tel mig vera frábitna, ef þær falla ekki í kramið hjá stórum hópi fólks sem hefur færst fullmikið yfir frá miðjunni yfir á hægri kantinn. En sem betur fer höfum við frelsi til þess að hugsa og finna til eins og hugur býður og tilfinningin býður hverju sinni. Og ég vil taka í þessu sambandi undir orð okkar ágæta málsnillings, Helga Hálfdánarsonar, sem sagði í skrifum sínum nýverið um íslenska tungu og íslenskan metnað í því sambandi að við mættum ekki láta óttann við að sýna þjóðarrembing verða til þess að við vanmetum þjóðleg verðmæti. Þarna á ég við m.a. íslenska tungu, eins og Helgi Hálfdánarson fjallaði um.

Ég held, að vinstri menn hér og kommúnistar hafi gert óþarflega mikið úr þeirri stórkostlegu hættu fyrir íslenskt mál sem þeir telja okkur stafa af Keflavíkursjónvarpinu. Það hefur oft nálgast hálfgerða móðursýki. En við skulum samt ekki loka augunum fyrir því að sjónvarp er voldugur fjölmiðill og ef hann er hér árum og áratugum saman, þá skulum við ekki gera lítið úr þeim möguleika að hann hafi mengandi áhrif á okkar móðurmál.

Ég er það svartsýn á þessi mál að ég er hrædd um að dvöl varnarliðsins sé ekkert tímaspursmál, og þá skírskota ég til ástandsins í alþjóðamálum. Við skulum hugleiða hvers vegna og hvernig varnarliðið er hingað komið. Það er komið vegna ótta við stríð í sambandi við stríðið suður og austur í Kóreu. Vinstri stjórnin, sem við völdum situr 1956–1958, man ég það ekki rétt, heykist á því að reka varnarliðið úr landi af því að það er styrjaldarhætta. Atburðirnir í Ungverjalandi eru nýlega um garð gengnir, það þykir ekki á það hættandi.

Nú í dag stöndum við frammi fyrir styrjaldarhættu. Fyrir botni Miðjarðarhafs er púðurtunna að allra dómi sem getur sprungið þá og þegar, og styrjaldarhætta þar er síst talin hafa minnkað við síðustu atburði, það sem siðast hefur gerst í málum ísraelsmanna og palestínuaraba. Ég veit satt að segja ekki, þó að ég reyni að vona hið besta, hvenær þannig verður ástatt í heiminum með þeirri tækni sem ríkir í vopnaburði og stríðsrekstri, hvenær svo friðvænlegt verður umhorfs að við treystum okkur til þess að vera varnarlaust land og treysta á hlutleysi okkar, sakleysi, smæð og friðarást, sem við öll hér inni berum óefað í brjósti. Því er það, að ég tel sjálfsagt að í samskiptum okkar við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli eigum við að fara að með fullri gát og gá að því að við erum 210 þús. sálir einar á móti voldugri milljónaþjóð, sem hefur öll tæki, ef hún vildi, til þess að beita hér áróðri, en ég held að væri ósanngjarnt og ósatt að væna hana um að hún hafi gert eða muni vilja gera. Þetta er undir sjálfum okkur komið. Það er ekki við bandaríkjamenn hér um að sakast. Það erum við eða nokkur hluti íslendinga, sem er það skammt sjáandi fram á við og hugsar það mikið um dægrastyttingarsjónarmið að hann sér ekki, að mér finnst, kjarna málsins.

Hv. flm. talaði um heimilisfriðinn og alla fullnæginguna, sem börn og unglingar hefðu af því að horfa á Keflavíkursjónvarpið. Ég hef nokkuð aðra sögu að segja, hvað sem hinum sjúku og öldnu líður. Ég hef heyrt fleiri en einn kennara hér í Reykjavík segja frá því að þeir hafi tekið á móti foreldrum barna og unglinga á foreldradegi sem hafa verið gráti nær vegna þess að börnin þeirra fengust ekki í rúmíð fyrr en 3–4 um nóttina og kæmu ósofin eða vansofin í skólann. Þarna er vafalaust ýmislegt til. Það má misnota sjónvarp, íslenskt og bandarískt, með ýmsu móti. En þetta er ekki einmitt, að ég tel, að íslendingum væri eftirsókn að því að hafa eitthvað til að halda sér vakandi fram undir morgun.

Það er spurt, hvað komi næst, og það er vitnað í valdhafana í Kreml og nauðungarráðstafanir og hermdarverk gegn helgustu mannréttindum fólks í austantjaldslöndum. Hér er farið út í svo fráleitan samanburð að ég tel hann ekki svaraverðan. Hitt er gefið mál að ef við ætlum í framtíðarviðskiptum okkar við hið bandaríska varnarlið að fara eftir þeim sjónarmiðum sem ráða málflutningi þess fólks sem harðast gengur fram í baráttunni fyrir Keflavíkursjónvarpinu, þá vildi ég helst ekki eiga aðild að þeim aðgerðum sem þá kynnu að verða hafðar í frammi.

Það vakti athygli mína að hv. flm. gerði svo sem engin skil síðari mgr. till. og kom það raunar heim við það, sem mig grunaði, að fyrirhyggjan og óskin um bætt sjónvarpsskilyrði, litasjónvarp og aðgang að sjónvarpshnöttum væri þarna sett til að gera fyrri hlutann trúverðugri og aðgengilegri og ekki alveg eins forkastanlegan og hann væri einn sér. Hv. flm. gat þess líka að það væri engan veginn ætlun hans að fara að biðja bandaríkjamenn að opna á ný Keflavíkursjónvarpið. Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri þessi rök höfð í frammi af hv. flm. og hans fylgismönnum. Mér hefur hingað til skilist að það væri meiningin að fara þess náðarsamlegast á leit við bandaríkjamenn að þeir opnuðu nú sjónvarpið aftur og lofuðu okkur að halda áfram að horfa. Ég hef ekki um þetta önnur orð en þau að mér finnst þessi ráðstöfun, sem hingað til hefur verið farið fram á, hámark lákúruháttarins. Ég veit raunar, að það er fámennari hópur, sem tæki slíkt í mál, heldur en hv. 12. þm. Reykv. vill vera láta í ræðustól á Alþ. og viðar, þar sem þetta mál hefur verið reifað.

Ég skal ekki hafa þessi orð hér lengri. Það er búið að þrefa nógu mikið um þetta mál. En ég þykist vita og ég treysti því, að Alþingi íslendinga láti ekki hafa sig til að samþykkja þá till. sem hér liggur fyrir.