10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3867 í B-deild Alþingistíðinda. (3011)

226. mál, hússtjórnarskólar

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson); Hæstv. forseti. Þetta frv. er komið hingað frá Ed. þar sem það hefur verið í athugun síðustu vikurnar. Það hefur tekið nokkrum breytingum í hv. Ed. M.a. hefur verið breytt fyrirsögn frv., svo að það heitir nú „Frv. til l. um hússtjórnarskóla“. Við það er í sjálfu sér ekkert að athuga, það er ekkert aðalatriði hvað skólarnir heita. Ég sé að hv. d. hefur viljað hafa sama heiti á kennaraskólanum og hinum almenna skóla, líkt og hefur verið til þessa, því að nú eru heitin Húsmæðrakennaraskóli Íslands og húsmæðraskólar.

Í frv. er gert ráð fyrir eins árs námi í hinum almenna hússtjórnarskóla, eina og hann skal nú heita skv. frv. Þá er gert ráð fyrir því, og það er ein af meginbreytingunum sem frv. felur í sér, að eins árs nám í hússtjórnarskóla skuli veita sömu réttindi til framhaldsnáms og eins árs nám í öðrum framhaldsskólum. Þessu fylgir svo nokkur breyting á námsefni til þess að gera þetta mögulegt.

Í annan stað má nefna þá breytingu að nú er gert ráð fyrir að skólarnir verði ríkisskólar, en áður hafa þeir verið kostaðir af ríki og sveitarfélögum, þótt ekki hafi verið um lögbundin skólahverfi að ræða. Mótframlögin heiman að hafa verið frjáls.

Ég vil aðeins láta koma fram hér í sambandi við þessa breytingu að á því ári, sem við höfum síðast upp gert, 1973, var hluti sveitarfélaganna 1/7 af rekstrarkostnaði eða 6.2 millj. kr. af 42.9 millj. kr. sem talið er að rekstur þessara skóla hafi kostað þá.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að aðsókn að þessum skólum hefur verið mjög misjöfn og mjög léleg sums staðar og nýting þeirra þess vegna ekki eins mikil og æskilegt væri. Hér er sú meginbreyting á gerð, að enda þótt lagt sé til að halda sem meginreglu eins vetrar hússtjórnarnámi, eins og ég nefndi áðan, þá er rn. heimilað að ákveða með reglugerð um sérstök verkefni sérhvers skóla. Með þessu móti ætti að vera hægt að koma á töluvert mikilli hagræðingu frá því sem nú er.

Ég rek þetta svo ekki frekar. Það er það langt síðan málið var lagt fram í Ed. að framsöguræða mín þá liggur nú fyrir prentuð í þingtíðindunum. En ég vil aðeins segja það að lokum að ég tel mjög nauðsynlegt vegna mjög þarfra og eiginlega óhjákvæmilegra aðgerða til þess að betur megi nýta þessa skóla en nú er að koma á þeirri breytingu sem þetta frv. felur í sér.

Ég leyfi mér svo að leggja til að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.