12.05.1975
Efri deild: 86. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3872 í B-deild Alþingistíðinda. (3019)

66. mál, Sjóvinnuskóli Íslands

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur skoðað þetta mál og mælir með samþykkt frv. eins og það er orðið eftir meðferð Nd., eins og fram kemur í nál. á þskj. 698.

Mál þetta á líklega rætur að rekja til þáltill. sem flutt var 1963. Á grundvelli hennar var sett á fót nefnd sem nokkru síðar skilaði áliti eða raunar þremur álitum: Í fyrsta lagi varðandi Stýrimannaskólann. Á grundvelli þess álits var lögum og reglum um Stýrimannaskólann breytt. Í öðru lagi álíti sem var grundvöllur laga um Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum. Í þriðja lagi skilaði sú n. áliti um sjóvinnuskóla sem síðan hefur legið hjá menntmrn. Þessu máli er því hreyft á grundvelli þessa starfs sem þá var unnið, og vil ég segja að það hefði gjarnan mátt vera fyrr fram komið. Þetta virðist mikið nauðsynjamál og er n., eins og ég sagði áðan, á einu máli um að mæla með samþykkt frv.