12.05.1975
Efri deild: 86. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3874 í B-deild Alþingistíðinda. (3027)

255. mál, rekstrarlán til sauðfjárbænda

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 505 flytjum við Helgi F. Seljan, hv. 7. landsk. þm., till. til þál. þess efnis að ríkisstj. geri ráðstafanir til að tryggja bændum viðunandi rekstrarlán út á sauðfjárafurðir.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að bóndinn, sem hefur tekjur sínar af ræktun sauðfjár, fær ekki erfiði sitt launað nema einu sinni á ári. Hann þarf að leggja í mikinn kostnað við búskap sinn að vetri, vori og sumri og þessi kostnaður skilar sér ekki aftur fyrr en varan er komin í söluhæft ástand, hvort sem um er að ræða mjólk eða kjöt. Veitt eru afurðalán til bænda frá Seðlabankanum og viðskiptabönkunum og nema lánin 65–68% af heildsöluverðmæti afurðanna. Þetta dugir þolanlega fyrir mjólkurframleiðendur, en aftur á móti alls ekki fyrir sauðfjárbændur sem þurfa að brúa bilið frá ársbyrjun og þar til þessi afurðalán fást greidd. Úr þessu hefur verið reynt að bæta með lánum úr bankakerfinu á tímabilinu frá mars til ágústmánaðar og hafa þessi lán verið nefnd rekstrarlán, en þau námu á liðnu sumri 900 kr. á slátraða kind og hafa farið hlutfallslega lækkandi um langt skeið og eru því löngu orðin algjörlega ófullnægjandi.

Í þessu sambandi má nefna tölur, sem komu fram á síðasta búnaðarþingi. Þá var upplýst að rekstrarlán til bænda hafi numið 65% af framleiðsluverðmæti sauðfjárafurða ársins 1958, en að þessi lán hafi rýrnað mjög verulega síðan, einkum þó á fyrstu árum viðreisnarstjórnarinnar þegar þau rýrnuðu um meira en helming og voru komin árið 1963 niður í 34% af framleiðsluverðmæti afurðanna. En lánin hafa sem sagt haldið áfram að lækka hlutfallslega ár frá ári og voru á árinu 1974 aðeins rúm 21% af framleiðsluverðmæti sauðfjárafurða. Nú er sýnt að á yfirstandandi ári mun rekstrarfjárskortur sauðfjárbænda og viðskiptaaðila þeirra aukast enn mjög verulega vegna stórfelldrar verðbólgu og vegna mikilla vaxtahækkana. Áburðarverð mun t.d. hækka á árinn um a.m.k. 76% og gífurlegar hækkanir hafa einnig orðið á öðrum rekstrarvörum, ekki síst á kjarnfóðri. Það er því fyrirsjáanlegt að bændur, sem stunda sauðfjárbúskap, og þá ekki síður viðskiptaaðilar þeirra, samvinnufélögin, munu lenda á þessu ári í mjög ískyggilegum erfiðleikum vegna skorts á rekstrarfé og það er útlit fyrir að þessi vandi muni enn aukast á árinu 1976. Nú er rétt að taka það fram að vandi samvinnufélaganna er mjög mismunandi mikill og hann er því stórfelldari þeim mun stærri þáttur sem viðskipti sauðfjárbænda eru í rekstri félaganna.

Við flm. höfum látið fylgja sem fskj. með till. þessari yfirlit sem birtist í árbók landbúnaðarins fyrir 1972–1973 þar sem greint er frá því hvernig skipting landbúnaðarframleiðslunnar er víða um land. Kemur þar glöggt fram að á nokkrum svæðum er sauðfjárbúskapurinn yfirgnæfandi þáttur í landbúnaðarframleiðslunni. Má þar alveg sérstaklega nefna framleiðslusvæði Búnaðarsambands Dalamanna, Búnaðarsambands Vestfjarða, Strandirnar. Þessi svæði eru með milli 70 og 90% af framleiðslu sinni í sauðfjárbúskap. Einnig eru Húnavatnssýslurnar, þar sem hlutfallstalan er milli 60 og 70%, og svo alveg sérstaklega Norður-Þingeyjarsýslu, þar sem hlutfallstalan er liðlega 90%, og Austurlandið, þar sem hlutfallstalan er um 76%.

Forráðamenn margra kaupfélaga hafa verið á ferðinni hér syðra á undanförnum mánuðum og átt viðræður við alþm. Einkum eru það forráðamenn kaupfélaga norðan- og austanlands. Þeir hafa með skýrum rökum varað við því að rekstrinum væri stefnt í algjört strand, ef ekki fengist úrlausn mála, og þarf ekki að færa frekari rök að því að ef viðskiptaaðilar bænda, þ.e.a.s. samvinnufélögin á þessu svæði, lenda í mjög miklum erfiðleikum, þá er afkoma hundraða sauðfjárbænda í húfi. Að sjálfsögðu er þetta ekki vandamál sem ógerlegt er að leysa. Þetta vandamál getur ríkisstj. leyst í samvinnu við Seðlabankann og henni ber að gera það. Mér er ekki kunnugt um að enn hafi verið gerðar neinar ráðstafanir til að leysa þennan vanda, en ef svo er væri gott að fá upplýsingar um það.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að fylgja þessari till. frekar úr hlaði, en vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði þessari till. vísað til hv. landbn.