12.05.1975
Efri deild: 86. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3876 í B-deild Alþingistíðinda. (3030)

255. mál, rekstrarlán til sauðfjárbænda

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Það er e.t.v. rétt að bæta því við það, sem ég sagði hér áðan, að lán þau, sem veitt eru til landbúnaðar, eru einkum tvenns konar: Svokölluð rekstrarlán og önnur þau lán, sem þeim eru tengd, og svo afurðalánin sem veitt eru út á afurðirnar eftir að þær koma til sölumeðferðar. Og það er rétt hjá hv. flm. þeirrar till. sem hér um ræðir, að hin svokölluðu beinu rekstrarlán hafa farið hlutfallslega lækkandi að undanförnu. En afurðalánin hafa haldið betur í við verðlagsþróunina heldur en rekstrarlánin. Áfurðalánin eru veitt jafnóðum og varan kemur til sölumeðferðar og standa meðan varan er óseld. En þessi rekstrarlán eiga að vera sérstaklega til að greiða götu sauðfjárframleiðenda og þau hafa því miður dregist aftur úr. Ég vil ekki dæma nákvæmlega um það hvernig þessi lán standa sig nú miðað við það sem var á s.l. ári, en ég vil þó segja þetta að þessi svokölluðu beinu rekstrarlán hækka um 100%, og það er alla vega nokkuð miklu meiri hækkun en meðalhækkun kostnaðar við framleiðsluna. Kostnaðarhækkanir eru mjög misjafnar. Einna mestar munu þær vera einmitt á þeim vörum sem hv. flm. gat um, áburði og olíum, en á ýmsum öðrum þáttum er þessi hækkun miklu minni þó að hún sé yfirleitt í stórum stíl.