12.05.1975
Efri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3878 í B-deild Alþingistíðinda. (3037)

151. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Allshn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar. Til þess að flýta fyrir afgreiðslu þessa máls milli d. var formönnum allshn. þd. ásamt skrifstofustjóra Alþ. falið að athuga frv. og umsóknir, er því fylgdu, og umsóknir um ríkisborgararétt, sem síðar bárust n. Þetta er sama málsmeðferð og verið hefur á afgreiðslu sams konar frv. á undanförnum árum. Að athugunum þessum loknum varð n. sammála um að leggja til að frv. verði samþ. með þeirri brtt. sem flutt er á sérstöku þskj. Í þessari brtt. eru nöfn 36 erlendra ríkisborgara til viðbótar þeim sem áður voru komnir inn í lagafrv. um veitingu ríkisborgararéttar, og telja nm. að allir þessir menn fullnægi þeim skilyrðum sem vant hefur verið að setja fyrir veitingu ríkisborgararéttarins. En þær reglur, sem unnið hefur verið eftir, eru á þessa lund:

1. Að umsækjandi hafi óflekkað mannorð og sé að áliti tveggja valinkunnra manna starfhæfur og vel kynntur þar sem hann hefur dvalist.

2. Að útlendingar, aðrir en norðurlandabúar, skuli hafa átt hér lögheimili í 10 ár, norðurlandabúar í 5 ár.

3. Karl eða kona, sem giftist íslenskum ríkisborgara, fái ríkisborgararétt eftir 3 ára búsetu frá giftingu, enda hafi hinn íslenski ríkisborgari haft ríkisborgararétt ekki skemur en 5 ár.

4. Erlendir ríkisborgarar, sem eigi íslenskan ríkisborgara að foreldri, fái ríkisborgararétt eftir 3 ára búsetu ef annað foreldri er norðurlandabúi, annars eftir 5 ár.

5. Íslendingar, sem gerst hafa erlendir ríkisborgarar, fái ríkisborgararétt eftir 1 árs búsetu.

6. Íslensk kona, sem misst hefur ríkisfang sitt við giftingu, en hjónabandinu er slitið og hún hefur öðlast heimili hér, fái ríkisborgararétt á fyrsta dvalarári hér, enda lýsi hún því yfir að hún ætli að dveljast áfram í landinu. Sama gildir um börn hennar sem hafa ekki náð 16 ára aldri og henni fylgja.

Samkv. framansögðu mælir n. með því að til viðbótar þeim, sem tilgreindir eru í frv., verði þeim umsækjendum, sem taldir eru upp í brtt. n. á sérstöku þskj., nú veittur íslenskur ríkisborgararéttur.