12.05.1975
Efri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3881 í B-deild Alþingistíðinda. (3053)

274. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skal reyna að hafa þetta fá orð um þetta þó annars mikla mál sem hér er komið á dagskrá, því að í raun og veru í hvert skipti sem við ræðum um einhverjar breyt. á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins komum við eins og hv. frsm. n. að húsnæðismálunum í heild að meira eða minna leyti.

Ég vil taka undir það með hv. frsm. að vitanlega er forsenda þess að hægt sé að standa vel að þessum málum sú að ævinlega sé tryggt nægilegt fjármagn til þessa mikilsverða þáttar. Og ég held að við getum bent á marga merka áfanga á þeirri leið. Hann minnti á orð hæstv. félmrh. og hvað nýlega hefði verið gert í þeim efnum. Ég bendi þá einnig á að s.l. vor voru einnig samþykktir merkir áfangar í þessu efni. Og í raun var þá Byggingarsjóði ríkisins tryggt fjármagn, að ég hygg nálega 15–16 hundruð millj. kr., annars vegar með viðbót við launaskattinn upp á nálega 800 millj., sem sú viðbót mun gefa á þessu ári, og svo aftur í samningum við lífeyrissjóði verkalýðsfélaganna sem munu nema milli 700 og 800 millj. eða nálægt því. En það er rétt hjá hv. frsm, að áreiðanlega þarf að halda þessu máli mjög vel vakandi því að hér er um að ræða eitt brýnasta viðfangsefni okkar.

Ég dreg enga dul á það, að frv. þetta er tvímælalaus bót frá eldri lögum, og fagna því að það er komið fram og þó að fyrr hefði verið. Ég hef hins vegar skrifað undir þetta nál. með fyrirvara og flyt brtt. við frv. sem ég er ekki alveg viss um að skapi aukna fjármagnsþörf út af fyrir sig því að um leið og þessi ákvæði væru rýmkuð og möguleikar fólks, sérstaklega ungs fólks, til þess að kaupa eldri íbúðir eða gera upp eldri íbúðir, þessi heimild og möguleikar til þess væru rýmkaðir, þá gæti minnkað eitthvað ásókn í nýbyggingar. Því þarf að huga, held ég, sérstaklega að þessum þætti.

Ég hef tekið í raun og veru óbreytta till. úr frv. þeirra hv. þm. Kjartans Ólafssonar og Lúðvíks Jósepssonar sem þeir fluttu hér á þinginu í Nd., þar sem segir að húsnæðismálastjórn sé heimilt að verja allt að 10% af því fjármagni, sem hún hefur til útlána á ári hverju, til lánveitinga til kaupenda eldri íbúða og til meiri háttar endurbóta á eldri íbúðum sem hagkvæmt þykir að endurbyggja að mati tæknideildar húsnæðismálastjórnar eða matsmanna sem hún skipar, öryrkjar skuli sitja fyrir við úthlutun viðgerðarlána, og að ráðh. setji með reglugerð nánari ákvæði um úthlutun, lánstíma og tryggingar slíkra lána að fengnum till. frá húsnæðismálastjórn. Ég tel sem sagt rétt að rýmka þessa heimild þannig að hún verði frekar í prósentum af því fjármagni sem húsnæðismálastjórn hefur til útlána. Ég hygg að það yrði samkvæmt áætlun þessa árs eitthvað nálægt 400 millj. sem heimildin yrði í hæsta máta. Mér sýnist að sú breyt., sem er ráð fyrir gert í þessu frv., geri vel það að vega á móti þeim verðhækkunum sem orðið hafa almennt á húsnæðismarkaðnum. Ég veit vel að það hefur verið mjög erfitt um vik hjá húsnæðismálastjórn að sinna lánveitingum í þennan þátt og upphæðirnar, sem hafa verið veittar í þetta, hafa verið hlálega lágar og þær hafa verið víðs fjarri hámarksupphæð. Þarna voru sett á sínum tíma ákveðin hámörk og þessar lánsupphæðir hafa yfirleitt verið nokkuð víðs fjarri því marki sem sett var. Ég hygg að það láti nærri að meðallánsupphæðin hafi verið sem svarar helmingi af þeirri heimild sem húsnæðismálastjórn þó setti sér. Ég held að þrátt fyrir þessa hækkun nú verði þetta enn ófullnægjandi, einkum með tilliti til hinna miklu verðbreytinga. Því álít ég að húsnæðismálastjórn eigi að fá þarna rúma heimild: Ég er ekki að segja að hún muni nota hana til fullnustu, en hún getur þá notað hana eftir þörf. Ég skal síns vegar taka undir það með hv. frsm. að vafalaust væri eðlilegast að húsnæðismálastjórnin hefði þetta allfrjálst og gæti varið þeim upphæðum, sem hún teldi rétt á hverjum tíma, í þennan þátt og gæti þar með stuðlað að aukinni og meiri hagræðingu varðandi íbúðarhúsanotkun almennt og kaup á íbúðarhúsnæði.

Ég legg nú sérstaka áherslu á lán til meiri háttar endurbóta á eldri íbúðum. Ég veit vel í hvernig formi þetta er í dag að vísu. Veðdeild Landsbankans hefur heimild til ákveðinna lána í þessu efni, en sú heimild er mjög takmörkuð og ég tel að þar sem húsnæðismálastjórn á nú að vera í þessari lánsafgreiðslu yfirleitt þá ætti hún að hafa með þetta að gera, en ekki veðdeildin út af fyrir sig. Ég tel það ranga málsmeðferð.

Ég lýsti því yfir í fyrra þegar þessi heimild til veðdeildarinnar var samþykkt að ég teldi þetta ekki rétta aðferð og húsnæðismálastjórn ætti sjálf að hafa með þetta að gera og meta þarfirnar. Ég er ekki að segja að þetta sé í neinni óreiðu hjá veðdeildinni, siður en svo. Við vitum að það er aðsjáll maður sem þar ræður ríkjum og áreiðanlega samviskusamur embættismaður. Þó er óeðlilegt að þetta sé í raun í höndum nánast eins manns. Þess vegna tel ég að þessar endurbætur á eldri íbúðum eigi að vera á vegum húsnæðismálastjórnar. En mér vitanlega er algjörlega lokað fyrir það í dag, nema viðgerðarlán til öryrkja sem hafa verið veitt til allra þeirra sem sótt hafa um slík lán. En umsóknir hafa verið mjög fáar, þess ber að geta, og þá hafa þeir í húsnæðismálastjórn vitanlega vitnað í það að veðdeild Landsbankans hefði þennan möguleika.

Ég vil aðeins vitna hér — með leyfi hæstv. forseta — örstutt í röksemdafærslu flm. þessa frv. í Nd. fyrir því að fara þessa leið, að lána meira en verið hefur til kaupa á eldri íbúðum. Þeir segja að rökin fyrir því að lána meira og til meiri háttar endurbóta séu þau að slíkt húsnæði ætti í flestum tilvikum að geta verið ódýrara en nýbyggingar og því viðráðanlegra fyrir ungt fólk, sem er að byrja búskap, og aðra þá sem takmörkuð fjárráð hafa. Bæði í Reykjavík og þá enn frekar úti um land er mikið um eldra íbúðarhúsnæði sem með góðu viðhaldi er enn hægt að nýta um langa framtíð og hlýtur slíkt reyndar að teljast þjóðhagslega hagkvæmara en miða allt við nýbyggingar, en láta eldra húsnæði ganga úr sér án endurbóta.

Ákvæði þessarar greinar frv. miða sem sagt að því að auðvelda kaup og sölu á eldra húsnæði og stuðla að betri nýtingu þess með hagsmuni þeirra, sem lítil fjárráð hafa, í huga.

Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð um þetta mál. Eflaust má um það deila hvaða leið á að fara í þessum efnum, en þó tel ég að húsnæðismálastjórn eigi að hafa hér sem rýmsta heimild. Ég veit að þessi lán hafa alltaf verið olnbogabarn hjá húsnæðismálastjórn, hún hefur alltaf verið í vandræðum með þessi lán, og ég hygg að þó að þessi upphæð verði hækkuð svo ríflega sem óneitanlega er gert, verði hún áfram í miklum vandræðum með þessi lán sin og þessi lán komi að alltof takmörkuðu gagni því fólki sem þarna leitar á og leitar á í síauknum mæli. Það var nefnilega svo fyrst að fólk áttaði sig ekki nægilega vel á því að það væri möguleiki á þessum lánum, en þetta hefur verið að aukast mjög síðustu árin sem betur fer. En þá stendur aðeins á því að lánsupphæðirnar eru svo lágar að margir hafa haft á orði við mig að það skipti litlu máli hvort þeir fengju þessar 100 eða 150 þús. kr. eða ekki. Í mjög mörgum tilfellum, jafnvel á síðasta ári, voru upphæðirnar varðandi kaupin á eldri íbúðum 100, 150 og 200 þús. kr. og meðaltalsupphæðin hygg ég að hafi verið eitthvað nálægt 180–200 þús.

Hæstv. félmrh. er nú ekki staddur hér í d. Ég hafði hugsað mér jafnvel varðandi þetta mál að flytja aðra till., þótti hins vegar rétt að láta þetta nægja varðandi þetta frv., eins takmarkað og það var, Ég get þó ekki stillt mig um að minna rétt á það hvílíku vandamáli húsnæðismálastjórn stendur nú frammi fyrir varðandi leiguíbúðir til sveitarfélaganna. Mér er kunnugt um það að húsnæðismálastjórn hefur samþ. lánsloforð til sveitarfélaga út á 145 íbúðir og hún hefur heimilað undirbúning að 132 íbúðum án loforðs um lán á þessu ári. Og ég vildi gjarnan, ef hæstv. félmrh. væri í húsinu, óska eftir því að hann væri hér viðstaddur og svaraði spurningu sem mig langaði að beina til hans varðandi þetta sérstaka mál. Ég veit að þessi sveitarfélög sækja mjög á um þetta, um svör. Og það er rétt, á meðan verið er að athuga hvar hæstv. félmrh. er að finna eða hvort hann er að finna hér í húsinu, að þá víki ég rétt að upphafi þessa máls, þ.e.a.s. því lagaákvæði sem samþ. var hér á Alþ. voríð 1973 um að á næstu 5 árum skyldu byggðar 1000 leiguíbúðir á vegum sveitarfélaganna. Það varð svo að reglugerðarsetning um þessar leiguíbúðir dróst nokkuð og hún mun fyrst hafa verið tilbúin í fyrravor, í maí 1974 mun hún fyrst hafa verið tilbúin, og margt fleira kom til sem seinkaði þessu, ekki hvað síst þingrofið í fyrra og stjórnarskiptin. Það var eðlilegt að ný stjórn þyrfti nokkurn tíma til að taka þessi mál fyrir, en nú er sem sagt ástandið það greinilega að lánsloforð hafa verið samþ. á öðru ári þessara framkvæmda til 145 íbúða í staðinn fyrir að þessi tvö ár hefðu átt að skila 400 íbúðum til sveitarfélaga. (Forseti: Ég vil aðeins tilkynna hv. ræðumanni að ráðh, er ekki í húsinu.) Já, þá verður ekki við því gert, en ég vona þá a.m.k. að hv. form. félmn. og hæstv. forseti þessarar d. komi því eindregið á framfæri við hann, hæstv. ráðh., að ég hafi vikið hér að þessu máli og hafi viljað spyrja hann beinlínis að því hvernig þessi mál ætti að leysa, á hvaða fyrirgreiðslu þessi sveitarfélög, sem nú bíða svars, bíða loforða um lán, eiga von eða hvort þessar 145 íbúðir eiga að vera heildartala þessara tveggja ára, 1974 og 1975. Ég tel að þá væri illa farið. Það væri vissulega full ástæða til þess að skora á hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. að sjá a.m.k. til þess að hægt væri að veita lánsloforð til þeirra 132 íbúða sem þegar hefur verið heimilaður undirbúningur að. En við verðum að bíða svara ráðh., eflaust fram yfir þinglok nú, því að mikið gengur nú á og meira stendur þó eflaust til og hraði mála hér er jafnvel slíkur að maður rétt lítur yfir þau, gott ef maður les 1. gr., og verður að láta þar við sitja. Þetta mál er svo einfalt að það hefði þess vegna verið ágætt að geta vikið örlítið nánar að því og einmitt fengið svör við þessu, því að eftir þessum svörum híða sveitarfélögin viða um land. En sem sagt, ég hafði tilkynnt hæstv. ráðh. áðan að ég vildi spyrja hann að þessu varðandi þessa umr., en hann er eflaust öðrum verkefnum að sinna og verður því ekki við því gert.