12.05.1975
Neðri deild: 83. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3888 í B-deild Alþingistíðinda. (3067)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég kýs að svara 1. og 2. spurningu í einu lagi.

Hinn 29. jan. 1975 var ákveðið af gjaldeyrisyfirvöldum, þ.e.a.s. viðskrn. og Seðlabankanum, að allar umsóknir um gjaldeyri fyrir frílistavörum skyldu fara fyrir gjaldeyrisdeild bankanna til athugunar, en venjulega eru slíkar umsóknir afgreiddar af gjaldeyrisbönkunum sjálfum. Þessi breyting hafði í för með sér verulega töf á afgreiðslu frílistavara og í framkvæmd þýddi hún það að um skeið voru nær engar frílistavörur afgreiddar. Annar gjaldeyrisviðskiptabankanna, Útvegsbankinn, hafði nokkrum dögum áður sjálfur tekið upp aukna aðgæslu við afgreiðslu frílistavara vegna mikillar eftirspurnar eftir gjaldeyri í bankanum og af erfiðleikum bankans á því að mæta henni. Hafði sú ráðstöfun það í för með sér að veruleg töf varð á afgreiðslu frílistavara, þ. á m. bifreiða.

Um 3. lið spurninganna skal þetta tekið fram: Það er rétt að það komi fram að enda þótt um frílistavörur sé að ræða og gjaldeyrisafgreiðsla vegna þeirra gangi við eðlilegar kringumstæður fljótt fyrir sig, jafnvel á einum degi, getur slík afgreiðsla tekið lengri tíma í gjaldeyrisviðskiptabönkunum þó að aðstæður eigi að vera eðlilegar, t.d. er álag á gjaldeyrisafgreiðslu bankanna mjög misjafnt. Jafnvel við eðlilegar aðstæður getur því skapast misræmi milli gjaldeyrisviðskiptabankanna varðandi það hve fljótt er afgreitt. Við óeðlilegar aðstæður er að sjálfsögðu mun meiri hætta á slíku misræmi og þar getur gjaldeyrisstaða hvors viðskiptabanka um sig haft áhrif. Það var ekki um að ræða neitt misræmi í ákvörðun gjaldeyrisyfirvalda á umræddu tímabili. Allar ákvarðanir gjaldeyrisyfirvalda um aðgát í gjaldeyrisafgreiðslum giltu jafnt fyrir báða gjaldeyrisbankanna.

Af því að hv. fyrirspyrjandi minntist á bifreiðar, þá er rétt að taka það fram að gjaldeyrir vegna bifreiðakaupa er ætið afgreiddur til umboðanna, en ekki til einstaklinga. Eins og ég tók fram mismunuðu gjaldeyrisyfirvöld ekki einstaklingum eða fyrirtækjum við gjaldeyrisafgreiðslu. Það misræmi er skapaðist, er mun líkara því og sambærilegt við það er einn banki verður að draga meira úr útlánum en annar vegna fjárskorts. Ég sé því ekki ástæðu til neinna sérstakra ráðstafana af minni hálfu vegna þess sem fyrirspyrjandi hefur hér gert að umræðuefni.