12.05.1975
Neðri deild: 83. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3890 í B-deild Alþingistíðinda. (3069)

177. mál, Fljótsdalsvirkjun

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Hæstv. forseti. Iðnn. hafði þessar till. til meðferðar og varð sammála um afgreiðslu hennar, sammála um að breyta till. og færa báða liðina saman. Er breytingin eins og greinir á þskj. fi35 og lagt til að tillögugreinin orðist svo:

„1. Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að Orkustofnun ljúki eins fljótt og við verður komið rannsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar.

2. Fyrirsögn tillögunnar verði: „Till. til þál. um rannsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar.“

Í sambandi við þessa till. var Orkustofnun beðin um umsögn og hefur umsögnin borist, að vísu eftir að till. var afgr. í nefnd. Tek ég mér rétt — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér nokkur atriði upp úr skýrslu orkumálastjóra:

„Tillagan er í tveim liðum,“ segir orkumálastjóri. „Fjallar hinn fyrri um rannsókn á Fljótsdalsvirkjun, fyrsta áfanga Austurlandsvirkjunar, hinn síðari um leit að kaupanda að raforku með stóriðju staðsetta á Reyðarfirði fyrir augum.

Varðandi fyrri liðinn er það að segja að Orkustofnun hefur frá árinu 1969 unnið að rannsóknum á svonefndri Austurlandsvirkjun sem vikið er að í grg. með till. Eins og þar er tekið fram, lagði stofnunin fram á því ári, 1969, áætlun um að ljúka svonefndum forrannsóknum á vatnsafli Íslands á næstu 5 árum, þ.e. árunum 1970–74.“ — Það má geta þess að einn verkfræðingur, sem er kunnugur vatnsaflsvirkjunum hafði þau orð að ef farið hefði verið eftir þessum áætlunum frá 1969, þá væri sennilega hvergi orkuskortur á Íslandi í dag. — „Því miður hafa stjórnvöld eigi séð sér fært að veita svo mikið fé til virkjunarrannsókna undanfarin ár að takast mætti að framkvæma þessa áætlun. Þetta er kostnaðarsamt og var alltaf vitað að það væri ekki unnt að framkvæma þessa áætlun nema ríflegt fjármagn væri veitt á fjárlögum hverju sinni til þessara hluta. Samt hefur allan tímann frá 1969 verið unnið að rannsóknum á Austurlandsvirkjun þótt verkinu hafi miðað hægar en áætlunin um forrannsóknir gerði ráð fyrir. Nú er að heita má lokið landmælingum á virkjunarsvæði Austurlandsvirkjunar, allt vestan frá Jökulsá á Fjöllum og austur á svonefnd Hraun, hálendisrana austur úr Vatnajökli. Eftir er austurkantur Hraunanna þaðan sem vötnum hallar niður á ströndina. Lýkur því vonandi nú í sumar. Teiknun yfirlitskortanna er þegar byrjuð og hin fyrstu þeirra komin af svæðinu upp af Valþjófsstað, þar sem svonefnd Bessastaðaárvirkjun yrði. Jarðfræðirannsóknum á yfirborði er einnig lokið á öllu virkjunarsvæði Austurlandsvirkjunar að heita má og vatnamælistöðvakerfið hefur verið eflt og endurbætt.

Austurlandsvirkjun yrði óhjákvæmilega skipt í nokkra stóra áfanga og hverjum þeirra um sig hugsanlega í smærri, þótt enn sé það ekki ljóst í einstökum atriðum hvernig slík skipting verði heppilegast framkvæmd. Eftir því sem best verður séð getur hver megináfangi staðið sem nokkuð sjálfstæð aðgerð sem ekki hefur mikil áhrif á hina. Einkum á þetta við um fyrsta áfangann, svonefnda Fljótsdalsvirkjun, sem felur í sér virkjun Jökulsár á Fljótsdal ásamt vötnum af Hraunum sem veitt yrði í meginuppistöðu virkjunarinnar við Eyjabakka. Ekki verður betur séð en að Fljótsdalsvirkjun geti verið mikið til óháð því hvernig aðrir áfangar Austurlandsvirkjunar eru gerðir. Þó er rétt að hafa gert sér nokkra grein fyrir samhenginu þarna á milli fyrir lokahönnun Fljótsdalsvirkjunar. Eftir því sem nú verður best séð yrði orkuvinnslugeta Fljótsdalsvirkjunar nálægt 2000 gwst. á ári eftir að vatni af Hraunum hefur verið veitt í Eyjabakkalón. Uppsett afl virkjunarinnar yrði 250–300 mw.

Um leið og yfirlitskort eru fengin af virkjunarsvæðinu er kominn grundvöllur til að fara að vinna að frumhönnun virkjunarinnar. Hluti af þeirri frumhönnun væri athugun á því hvernig Fljótsdalsvirkjun tengist síðari áföngum Austurlandsvirkjunar, en að langmestu leyti væri um að ræða hönnun á sjálfri Fljótsdalsvirkjun. Þessi frumhönnun er næsta verkefnið í rannsókn hennar. Í framhaldi af frumhönnun þarf svo að koma ítarlegri rannsókn á virkjunarsvæðinu, einkum jarðboranir. Þetta er kostnaðarsamasti hluti rannsóknanna. Orkustofnun vinnur nú að endurskoðun rannsóknaráætlunar um Austurlandsvirkjun þar sem lögð er sérstök áhersla á Fljótsdalsvirkjun. Mun hún verða send iðnrn. strax að þeirri endurskoðun lokinni.

Sem fyrr segir, er hugsanlegt að hverjum megináfanga Austurlandsvirkjunar, svo sem Fljótsdalsvirkjun, verði skipt í smærri áfanga. Einn slíkur smærri áfangi Fljótsdalsvirkjunar gæti verið Bessastaðaárvirkjun ef hún er gerð neðanjarðar. Orkustofnun hefur ætið lagt áherslu á það sjónarmið að öll hönnun Bessastaðaárvirkjunar og allur undirbúningur þeirrar virkjunar yfirleitt eigi að taka mið af því að hún verði áfangi stærri framkvæmdar. Þetta er að dómi stofnunarinnar alveg nauðsynlegt, nema menn vilji beinlínis slá því föstu nú þegar að Fljótsdalsvirkjun verði ekki gerð fyrr en eftir 15 ár eða meir“ — en skyldu nokkrir vera hér inni í hv. d. sem óska eftir að draga þetta það lengi? — „Af þessum sökum verður það að teljast mjög æskilegt að rannsókn og hönnun Fljótsdalsvirkjunar sé komin lengra á veg en nú er áður en Bessastaðaárvirkjun er fullhönnuð, þannig að hún geti á sem bestan hátt fallið að eðlilegri áfangaskiptingu Fljótsdalsvirkjunarinnar. Til þess þarf að hraða rannsókn hennar svo sem frekast er kostur.

Um síðari lið tillögunnar vill Orkustofnun aðeins segja það að erfitt er að hugsa sér 250–300 mw. virkjun á Austurlandi án þess að umtalsverður hluti þeirrar orku sé notaður á Austurlandi, enda þótt tæknilega sé ekkert því til fyrirstöðu að flytja alla orkuna á brott.“

Ég held nú að það hljóti að vera rétt sem hér er sagt, að það er æskilegt að nota meginhluta orkunnar á Austurlandi. Samsetning Austurlands við aðra landshluta gefur þó mikinn sveigjanleika í vali á stærð og þar með aflþörf stóriðjunotenda á Austurlandi, þannig að hún þarf ekki að falla alveg að virkjunarstærðinni.

Iðnn. varð sammála um að hafa seinni hluta till. ekki með og þess vegna er ekki um það að ræða að nefndin leggi til að ályktun verði gerð um orkunotanda á Austurlandi að þessu sinni, til þess gefst vitanlega nægilegur tími síðar. En ég held að allir ættu að vera sammála um að það ber brýna nauðsyn til að flýta virkjunarrannsóknum á Austurlandi, ekki aðeins Fljótsdalsvirkjun, heldur einnig á fleiri virkjunarstöðum á þessu svæði. Þar sem mikið vatnsafi er á stóru svæði eins og á Austurlandi er erfitt að ákveða heppilegustu og hagstæðustu áfangaskipti í virkjunum nema hafa heildaryfirlit yfir virkjunarmöguleikana.

Nú er það svo að það er mjög kostnaðarsamt að ljúka rannsóknum á Austurlandi og sérstaklega eru boranirnar kostnaðarsamar. Þess vegna hefur komið til orða að fá erlent fjármagn til þess að flýta verkinu vegna þess að það er ekki heppilegt að bíða í 15–20 ár eftir því að gera sér ljóst, hversu mikið afl er hér um að ræða og á hvern hátt er heppilegast að skipta virkjunum í áfanga. Það hefur einnig komið til orða að fá í samráði við erlenda aðila útlenda sérfræðinga til að vinna með íslendingum til þess að flýta rannsóknum, en út í það ætla ég ekki að fara að þessu sinni. Sjálfsagt er að Orkustofnun hafi þessar rannsóknir með höndum. Það er ekkert efamál, hvort sem unnið verður eingöngu fyrir fé, sem veitt er á fjárlögum, eða fjármagn, sem tekið væri að láni, hvort sem það eru eingöngu íslenskir verkfræðingar, sem vinna að þessum rannsóknum, eða hvort Orkustofnun fengi sér erlenda sérfræðinga til aðstoðar vegna þess að sérfræðinga skorti hér, þá verður það allt að vera undir stjórn og handleiðslu Orkustofnunar sem unnið er í þessu efni.

Iðnn. þessarar hv. d. er sammála um að deildin geri ályktun, eins og ég las hér upp áðan, og leggi áherslu á að virkjunarrannsóknum á Austurlandi verði hraðað eins og unnt er.