26.11.1974
Sameinað þing: 13. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

31. mál, sjónvarpsmál

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að lengja þessar umr. neitt sem heitir, en langar þó til að segja örfá orð í sambandi við till. sem hér er til umr. Mér sýnist alveg ljóst að meginmál till. felist í fyrri málsgr. hennar, sem hljóðar eins og raunar allir hv. þm. sjá því að þeir hafa hana væntanlega fyrir framan sig:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að veita leyfi til hindrunarlausra útsendinga á dagskrárefni sjónvarpsstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og afnema þar með takmörkun á styrkleika útsendinga og breytingar á útsendingargeislum stöðvarinnar.“

Þetta er ætla ég meginmál þessarar till., hitt fylgir svo með.

Ég vil segja það að ég harma mjög að þessi till. skuli koma fram hér á hv. Alþ. Ég hygg að það þurfi að leita lengi a.m.k meðal nálægra þjóða áður en menn finna þess dæmi að þjóðþing þeirra eða þjóðirnar með örum hætti hafi beðið erlendan her, hvernig svo sem hann er tilkominn, að halda uppi starfsemi fjölmiðla í landi sínu. Ég hygg að það þurfi að leita vandlega til að finna þess dæmi að um þetta hafi verið beðið af þjóðþingi einnar þjóðar. Ég get ekki fullyrt um þetta að vísu, en ég ætla að þetta sé svona.

Það er allt annað og er fráleitt að mínum dómi að tala í sama orðinu annars vegar um sjónvarp, sem rekið er af erlendum her, varnarliði skulum við segja hér á landinu, og svo hins vegar hvort menn skuli eiga kost á að velja um sjónvarps- og útvarpsefni frá sjónvarps- og útvarpsstöðvum ýmissa þjóða sem við kunnum að ná til. Þetta á ekkert skylt hvort við annað, og má alls ekki rugla þessu saman. Það virðist mér alveg fráleitt.

Það eru engar deildar meiningar um það að sjónvarpið er ekki einasta mikið áróðurstæki heldur er það líka menningartæki ef það er rétt meðhöndlað. Og fyrst mönnum kemur til hugar að biðja varnarliðið á Keflavíkurflugvelli að reka sjónvarpsstöð fyrir okkur íslendinga, er þá ekki næsta skrefið að biðja þá að reka einhverjar aðrar menningarstofnanir, sem við eigum erfitt með að reka, t.d. háskóladeildir sem við vegna takmarkaðra fjárráða eða af öðrum ástæðum getum ekki rekið við háskóla okkar? Væri það nokkuð fráleitara? Sjónvarpið er menningartæki, — menningar- og kennslutæki.

Ég ætla að standa við það að lengja ekki þessar umr., en ég vildi láta þetta koma fram hér og endurtek það að ég tel þessa till. með öllu fráleita. Ég vona það og ég veit að Alþingi íslendinga hafnar þessari till. og ég lýsi fyllstu andstöðu minni við hana.