12.05.1975
Neðri deild: 83. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3893 í B-deild Alþingistíðinda. (3073)

266. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á árinu 1973 voru samþ. lög um þörungavinnslu við Breiðafjörð. Það verk er þegar komið vel áleiðis. Ný áætlunargerð hefur sýnt að stofnkostnaður verður verulega miklu hærri en áætlað hafði verið í öndverðu og hefur því stjórn verksmiðjunnar talið nauðsynlegt að fá gerðar tvær breytingar á lögunum. Önnur er sú, að hlutafjárframlag ríkissjóðs verði hækkað úr 60 millj. í 90 millj., og hin, að lántökuheimildir verði hækkaðar úr 140 millj. í 340 millj. kr. Varðandi hlutafjáraukninguna er gert ráð fyrir að þessar 30 millj. frá ríkissjóði til viðbótar verði teknar inn á fjárlög á árunum 1976 og 1977.

Mál þetta er að öðru leyti allítarlega skýrt í grg. stjórnar Þörungavinnslunnar sem prentuð er með frv. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Ed. og var samþ. þar. Ég legg til að málinu verði vísað til 2 umr. og hv. iðnn.