27.11.1974
Efri deild: 11. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

60. mál, fullorðinsfræðsla

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta mál, frv. til laga um fullorðinsfræðslu, er nokkuð yfirgripsmikið og nokkuð nýstárlegt að efni til. Frv. fylgir löng og ítarleg grg. og ég mun í þessari framsögu láta nægja að rifja upp meginatriðin í þessu máli, ekki fara ítarlega út í einstök efnisatriði þess.

Hinn 26. okt. 1871 skipaði menntmrn. n. til þess að gera till. um hvernig skipuleggja skuli fræðslustarfsemi fyrir fullorðna er hafi m.a. það að markmiði að veita kost á endurmenntun og gera kleift að ljúka prófum ýmissa skólastiga. Var n. falið að skila till. sínum í frv.-formi til rn. svo fljótt sem við yrði komið. Í n. voru þessi skipuð: Séra Guðmundur Sveinsson skólastjóri, formaður, skipaður án tilnefningar, Andrés Björnsson útvarpsstjóri, skipaður skv. tilnefningu Ríkisútvarpsins, Jónas B. Jónsson fræðslustjóri, skipaður skv. tilnefningu Reykjavíkurborgar, en er hann lét af fræðslustjórastarfi kom Ragnar Georgsson skólafulltrúi í hans stað, dr. Matthías Jónasson prófessor, skipaður skv. tilnefningu háskólaráðs, Sigríður Thorlacius form. Kvenfélagasambands Íslands, skipuð skv. tilnefningu Kvenfélagasambandsins, Gunnar Grímsson starfsmannastjóri, skipaður skv. tilnefningu SÍS og Stefán Ögmundsson prentari, skipaður skv. tilnefningu ASÍ.

Nefndin skilaði s.l. sumar, 1974, lagafrv. því um fullorðinsfræðslu sem nú hefur verið lagt fram óbreytt eins og n. gekk frá því ásamt grg. og fylgiskjölum. Lét rn. prenta frv. ásamt grg. og fylgiskjölum og senda mörgum aðilum til umsagnar strax í haust. Þær umsagnir, sem borist hafa, hafa þegar verið sendar fullorðinsfræðslunefndinni til athugunar og þær verða svo sendar þeirri þn. sem fær þetta mál til meðferðar.

Eins og fram kemur í grg. fyrir frv. hefur n. kynnt sér rækilega gildandi lög og reglur um fullorðinsfræðslu í nágrannalöndum okkar og hefur ekki hvað síst haft til hliðsjónar þau drög að frv. til l. um fullorðinsfræðslu í Noregi, sem birt er í ísl. þýðingu með þessu frv.

Í stuttu máli er meginefni þessa lagafrv. að bæta skilyrði til þess að menn geti aukið þáttum í menntun sína, helst alla ævi, að loknu eða þá utan hins venjulega skólanáms. Þetta er af ýmsum ástæðum mjög mikilvægt. Vegna síbreytilegra starfshátta í þjóðfélögum nútímans þurfa menn að eiga þess kost að endurhæfa sig í starfi, m.a. þeir sem um sinn hafa horfið frá vinnu utan heimilis, en hefja þau störf á ný þegar aðstæður breytast, svo sem nú er orðið um margar konur. Þótt menn af ýmsum ástæðum hverfi frá námi við lok skyldufræðslu þarf að vera unnt að taka upp þráðinn á ný ef áhugi er á því. Eins er oft nauðsynlegt að geta búið sig undir störf á alveg nýjum vettvangi, sbr. það, sem allir þekkja og mjög algengt er, að húsmæður taki sig til þegar heimilið léttist og hverfi að ýmsum störfum í þjóðfélaginu, og raunar getur það komið fyrir undir mörgum kringumstæðum að menn óski og þurfi að breyta um störf, t.d. af heilsufarsástæðum. Einnig þurfa menn að eiga þess kost að verja tómstundum til náms sér til aukins þroska og ánægju almennt.

Það er vafalaust miklum vandkvæðum bundið að búa skilyrði til slíks náms þannig að bæði verði auðvelt fyrir þá sem þess vilja njóta og þó ekki um of kostnaðarsamt fyrir ríki, sveitarfélög og einstaklinga og vinnuveitendur og aðra sem undir kostnaði standa.

N. hefur að beiðni rn. tekið kostnaðarákvæði frv. til nýrrar athugunar og leggur til að ný málsgr. bætist í 2. gr. frv. eins og það núna liggur fyrir. Er þar kveðið skýrt á um að fjárframlög af ríkisins hálfu fari eftir því sem veitt er í fjárl. hverju sinni, en þó eigi lægri fjárhæð árlega en sem svarar 5% af þeirri heildarfjárhæð sem varið er til menntamála í landinu. 5% eru sett inn í þessa till. Nefndin hefur í þessu efni tekið nokkurt mið af fjárframlögum til þessara mála á Norðurlöndum, þar sem fullorðinsfræðsla hefur verið í ákveðnu formi nú um hríð.

Skv. fjárlagafrv. fyrir árið 1975 eru áætlaðir til menntamála um 7.5 milljarðar kr. Framlög ríkisins til fullorðinsfræðslu yrðu þá skv. þessum hugmyndum um 375 millj. kr. árið 1975, ef þetta yrði komið til framkvæmda. Það má geta þess að framlög til fullorðinsfræðslu í Danmörku árið 1972–73 munu hafa numið sem svarar 20 milljörðum ísl. króna, eða um 4000 ísl. kr. á hvern íbúa Danmerkur. Í Finnlandi er framlagið nokkru minna, eða sem svarar 3000 ísl. kr. á hvern íbúa, í Noregi er það 3500 og í Svíþjóð um 5500 ísl. kr. á íbúa.

Ég vildi segja frá þessu hér, en þessi viðbótartill. fullorðinsfræðslunefndar og það fjármálalega yfirlit, sem hún gerði eftir sérstakri beiðni rn. nú fyrir skömmu, verður svo vitanlega sent þeirri n. sem fær frv. til meðferðar, eins og önnur gögn sem borist hafa til rn. og þessarar n. síðan gengið var frá frv. til prentunar.

Nú þegar lög um grunnskóla og lög um skólakerfi hafa verið samþykkt þarf vitanlega að fara fram endurskoðun alls framhaldsskólakerfisins. Má segja að það verk er ýmist hafið ellegar þá að það er í undirbúningi í hinum ýmsu þáttum. Samhliða er vissulega æskilegt að komið verði hagfelldu skipulagi á fræðslu fullorðinna. Sú fræðsla hefur til þessa einkum farið fram í námskeiðum og námsflokkum, bréfaskólakennslu og útvarpskennslu, þó í of litlum mæli. Ég vil geta þess að þó að tilraun til sjónvarpskennslu, sem eitt sinn var upp tekin, hafi ekki verið haldið áfram er nú í gangi athugun á þeim möguleika að nýta sjónvarpið meira til fræðslu og þá væntanlega bæði innan skólakerfisins og utan þess. Þá hefur og verið gerð tilrann með svonefnda öldungadeild við Menntaskólann í Hamrahlið í samræmi við ákvæði laga um menntaskóla. Sú deild miðar þó kennslu sína einungis við að búa menn undir stúdentspróf eins og kunnugt er. Það er ákaflega mikil aðsókn að því námi eða um 400 nemendur á þessum vetri. Sést á því ljóslega hve þörfin fyrir fræðslu til viðbótar almennu skólanámi er brýn. Enn má minna á það í þessu sambandi að vísir að þess konar kennslu, sem ég nú vék að, er þegar til norður á Akureyri.

Frv. þetta er fyrst og fremst miðað við að sett verði rammalöggjöf er fylla megi út í með reglugerðarákvæðum innan þeirra marka sem Alþ. ákveður. Hér er miðað við að þar sem um frumsmíð er að ræða í lagasetningu, þá geti þurft að breyta ýmsum atriðum eftir því sem reynslan segir til um. Nokkur reynsla er þegar fengin af sumum þáttum fullorðinsfræðslu, en aðrir þættir, þó að þeir hafi reynst vel annars staðar, þurfa áreiðanlega frekari stuðning og meiri kynningu hér til þess að koma að fullum notum. Það á t.d. við um bréfaskólakennsluna. Þó að hún hafi þegar verið rekin hér af miklum myndarskap í mörg ár, eru á þeim akri óplægðar skákir, miklar áreiðanlega, og það er hægt að hugsa sér að styðja bréfaskólakennsluna meira en gert hefur veríð, t.d. með stuttum námskeiðum og aukinni leiðsögn kennara.

Hvaða form sem menn telja hyggilegast að hafa á fræðslu fullorðinna, þá þarf vissulega að setja henni lagareglur og lög sem tryggi ákveðin lágmarks fjárframlög. Einnig þarf að tryggja, að mönnum nýtist námið til vissrar réttindaöflunar, t.d. starfsréttinda eða réttinda til frekara náms, og svo þarf að tryggja, eftir því sem við verður komið, gæði þess námsefnis, sem fram yrði boðið innan þessa ramma og kæmi til með að njóta styrks af almannafé.

Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að form fullorðinsfræðslunnar geti verið fyrst og fremst með þrennu móti: Í fyrsta lagi skólanám hliðstætt grunnskólanámi, í öðru lagi starfsnám, þ.e. viðbótarmenntun eða endurmenntun í beinum tengslum við atvinnulífið og við það starf sem fólk hefur unnið við, og í þriðja lagi frjálst nám þ.e. nám sem hvorki stefnir að sérstökum atvinnuréttindum né heldur stefnir að sérstöku framhaldsnámi.

Aðilar, sem gert er ráð fyrir í frv. að komi til með að annast slíka menntun eru í fyrsta lagi ríki og sveitarfélög, í öðru lagi aðilar vinnumarkaðarins og í þriðja lagi fræðslusamtök ýmiss konar.

Frv. gerir ráð fyrir fjárframlögum í formi styrkja frá ríki til aðila atvinnulífsins, félaga og fræðslusambanda er tækju til landsins alls. Einnig er gert ráð fyrir framlögum frá sveitarfélögum. Gert er m.a. ráð fyrir samstarfi atvinnurekenda og starfsmanna við framkvæmd fullorðinsfræðslunnar þar sem það gæti átt við.

Um kostnaðarhlutföll ríkisins í fullorðinsfræðslu eru ýmis ákvæði í frv., svo sem að fræðsla í formi námsflokka og námshópa skuli fá 75% sannanlegs kostnaðar greiddan úr ríkissjóði. Viðurkennd fræðslusambönd skulu fá 75% tiltekins kostnaðar greiddan úr ríkissjóði. Kennslufræðilegar stöðvar í fræðsluumdæmunum skulu njóta 50% ríkisstyrks vegna launa sérmenntaðs starfsliðs og skrifstofukostnaðar. Þá skal ríki, fræðsluumdæmi eða sveitarfélag láta í té kennsluhúsnæði, tæki, ljós, hitaræstingu og húsvörslu.

Ég held að ég hafi drepið hér á meginþættina í frv. Eins og ég sagði í upphafi tel ég að hér sé um mjög mikilsvert mál að ræða sem óneitanlega er vandasamt að ákveða hvers konar fjárhagsstakk á t.d. að sníða. Ætlunin er að láta reynsluna leiða í ljós hvaða form henta best slíkri kennslu sem hér er um fjallað, og það er vitanlega mjög eftir því hver eftirspurn kann að verða eftir þessari fræðslu. Það er augljóst og þarf raunar ekki að vekja athygli á því að það er á vissan hátt mjög vandasamt að setja lög og reglur og sníða stakk starfsemi sem þessari, sem á að vera fyrst og fremst frjáls starfsemi. Það er meiri vandi að sníða henni stakk í lagaformi og á annan hátt heldur en starfsemi sem bundin er fyrir fram ákveðnum formum og þar sem tilteknir hópar þegnanna eiga samkv. lagaskyldu að njóta fyrirgreiðslu.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.