12.05.1975
Neðri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3904 í B-deild Alþingistíðinda. (3102)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Við 2. umr. þessa máls gerði ég að umræðuefni með nokkrum orðum hvað hv. flm. þessa frv. ætluðu sér að skera niður af þeim verkefnum sem Atvinnuleysistryggingasjóður hefur fjármagnað á undanförnum árum ef ekki yrði séð fyrir sérstökum tekjustofni til þess að mæta þeim útgjöldum sem á sjóðinn á að leggja samkv. frv. Nú hefur það gerst að búið er að fella till. frá minni hl. heilbr.- og trn. þess eðlis að sjá fyrir tekjustofnum á móti þessum útgjöldum. Ég varð þess ekki var að fram kæmi í umræðunum við 2. umr., ég skal þó ekki fullyrða það því að ég var ekki til loka umræðnanna, en ég varð þess ekki var að neinar ábendingar kæmu frá hv. flm. um hvað það væri sem þeir teldu að mætti fremur mæta afgangi þegar þessari nýju kvöð yrði bætt á sjóðinn. Mér finnst að það væri æskilegt núna áður en loka atkvgr. um málið fer fram að menn fengju einhverja vitneskju um það, þegar það er sýnt að þessu verður ekki bætt á Atvinnuleysistryggingasjóð nema því aðeins að skerða eitthvað annað — að menn hefðu þá einhverja vitneskju um hvað það væri sem ætti að skerða.

Það kom fram í umræðunum við 2. umr. að t.d. í sambandi við Hafnabótasjóð, þar sem Atvinnuleysistryggingasjóður hefur lánað töluvert stóra upphæð sem hefur farið að mestu leyti til þess að fjármagna hluta sveitarfélaganna í hafnarframkvæmdum, að nú liggur fyrir hjá Atvinnuleysistryggingasjóðsstjórn lánsumsókn vegna Hafnabótasjóðs upp á 60 millj. kr. Mér þætti því fróðlegt um það að vita hvort hv. flm. eða aðrir stjórnarliðar gætu upplýst um það hvort það yrði kannske eitthvað dregið úr þessari fyrirgreiðslu sem ég tel mjög brýna vegna hinna ýmsu sveitarfélaga sem eiga í mjög miklum erfiðleikum með að fjármagna sinn hluta framkvæmdanna. Mér hefði þótt vænt um það ef t.d. hæstv. samgrh. hefði getað eitthvað sagt um það hvort honum þætti ekki illa horfa varðandi fjármögnun á Hafnabótasjóði ef Atvinnuleysistryggingasjóður yrði til þess neyddur að kippa að sér hendinni varðandi lánveitingar til Hafnabótasjóðs. Og svo mætti fleira telja, fleiri liði, svo sem kemur fram í umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs um ráðstöfun á fjármagni sjóðsins á undanförnum árum.

Ég lýsti því yfir við 2. umr. þessa máls að þó að svo færi að felld yrði till. okkar í minni hl. heilbr.- og trn. um að sjá fyrir tekjum vegna útgjalda Atvinnuleysistryggingasjóðs, þá mundi ég greiða atkv. með málinu við lokaatkvgr. og ég hef ekki breytt afstöðu minni til þess. En mér finnst að það væri æskilegra að einhverjar hugmyndir væru um það gefnar hvað það er sem á að skerða, því að ráðstöfun þess fjár úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sem hér liggur fyrir, er með þeim hætti að hér er um mjög brýn og nauðsynleg verkefni að ræða og kannske erfitt að gera upp á milli þessara atriða ef til þess kemur að þurfi að draga úr fyrirgreiðslu. Ég a.m.k. teldi það mjög varhugavert ef þessi aukni baggi, sem setja á á Atvinnuleysistryggingasjóð, yrði til þess að draga úr fyrirgreiðslu til Hafnabótasjóðs. Ég teldi það mjög varhugavert og mér þætti því vænt um ef einhver hv. flm. frv. eða einhverjir aðrir hv. þm. úr stjórnarliðinu og hæstv. ríkisstj. gætu um það upplýst hvað yrði fyrir barðinu á niðurskurði ef og þegar til þess kemur, sem mér sýnist að verði.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en hæstv. samgrh. er ekki kominn í salinn enn. Ég hefði gjarnan viljað fá að heyra álit hans á þessu, hvort honum þyki það ekki slæm tíðindi ef samþykkt þessa frv. verður til þess að skerða lánafyrirgreiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs til Hafnabótasjóðs. Það er stór hluti sem hefur farið til Hafnabótasjóðs af ráðstöfunarfé Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð og ekki tefja umr. frekar, en ég vildi þó ítreka þetta ef hægt væri að fá einhverjar frekari upplýsingar að þessu lútandi.