12.05.1975
Neðri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3921 í B-deild Alþingistíðinda. (3109)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. meiri hl. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég ætlaði áður en þessari umr. lýkur að þakka margt það sem fram hefur komið hér í umr. Það hefur komið fram að menn vilja reyna að leysa þetta mál. Menn greinir að sönnu á um leiðir og ég játa að það sótti á mig nokkur dapurleiki þess vegna. Ég vil þó geta þess sem skylt er að einn þingfl. hefur sýnt þann drengskap að taka flokkslega afstöðu og lýst henni hér sérstaklega og það er þingfl. Alþfl. En fyrir hans hönd var því lýst yfir algjörlega án þess að nokkuð væri þar úr dregið að hann muni standa með þessu máli, og það verður að segjast um hvern eins og hann á skilið, að ég minnist þess að það er ekki í fyrsta sinn sem sá þingfl. styður mál er fjalla um jafnrétti karla og kvenna. Nú mega menn ekki halda að með þessu ætli ég að fara að segja mig úr Sjálfstfl. Ég vil einungis lýsa gleði minni yfir því að það kemur fram drengileg og málefnaleg afstaða frá stjórnarandstöðuflokki þegar um er að ræða mikilvægt réttindamál sem þm. stjórnarflokkanna hafa frumkvæði um að flytja. Þetta ber að þakka og slík viðbrögð auka vissulega hróður Alþ., sem ekki er sannast sagna vanþörf á.

Ég vil aðeins bæta við fáeinum upplýsingum vegna efasemda sem fram hafa komið í máli manna um tölur í sambandi við þetta mál. Mér hafa í dag borist mjög áreiðanlegar upplýsingar sem unnar eru upp úr skattframtölum af hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar á sínum tíma um það að á árinu 1970 voru giftar konur í öllu landinu 26 042 á aldrinum 16–50 ára. Á aldrinum 50 ára og þar yfir voru 10 475 konur. Eftir þessum sömu upplýsingum liggur það fyrir að aðeins 35% allra giftra kvenna í landinu höfðu á sama tíma atvinnutekjur sem námu á því ári, 1970, 45 000 kr. árstekjum eða þar yfir. Menn sjá af þessu tekjumarki að þessi hópur er engan veginn nærri því allur í fastri vinnu eða í fullri vinnu. Menn hljóta því að sjá að hér hafa menn gert sér í hugarlund, að um miklu stórkostlegri fjárhæðir sé að tefla en raun er á. Það liggur einnig fyrir, eins og oft hefur komið fram hér í umr., að um 4400 barnsfæðingar var að ræða á síðasta ári. Í hópi kvenna á barneignaaldri eru u.þ.b. 60% af þeim konum sem atvinnutekjur hafa utan heimilis og svo aftur í þessum hópi á þessum aldri eru tiltölulega færri sem vinna fulla vinnu utan heimilis en í hópi þeirra kvenna sem ekki eru á barneignaaldri. Á þessu byggist talan sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Austf. um að það sem eftir væri af þessu ári væri útilokað að útgjöld vegna þessa færu yfir 60 millj.

Þetta vildi ég aðeins láta koma hér fram vegna þess að mér hafa borist nýjar og betur unnar upplýsingar í þessu máli þó að sannarlega sé aldrei fyrir fram hægt að fullyrða um tölur sem þessar með vissu. svo miklar sveiflur geta verið í barnsfæðingum frá ári til árs.

Ég vil ítreka þakklæti mitt til þeirra, sem sýnt hafa jákvæðan hug til þessa máls, og vænti þess að það hljóti mjög skjótan framgang hjá hv. Ed. eftir þessar ítarlegu umr. hér í Nd.