12.05.1975
Neðri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3922 í B-deild Alþingistíðinda. (3110)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Það er ekki hægt að skilja svo við þessar umr. að leiðrétta ekki nokkuð af því sem hv. 5. þm. Vestf. sagði og einnig hv. 4. þm. sama kjördæmis.

Það var náttúrlega algjör útúrsnúningur hjá hv. 5. þm. Vestf. að halda því fram að við, sem styddum þetta frv. og erum flm. að því, værum með því að stuðla að niðurskurði á fjárveitingum til félagsheimila eða til fiskiðnaðar úti um hina dreifðu byggð. Hefur hv. þm. gleymt því að með stóraukinni fjármögnun í gegnum Byggðasjóð fer mun meira fjármagn til atvinnulífsins úti á landi en nokkru sinni fyrr, auk þess sem vitað er að fjármögnun í gegnum þann sjóð mun styrkja mjög sveitarfélögin? Ég spyr hv. þm. einnig: Hefur hann gleymt þeirri staðreynd. að lífeyrissjóðirnir hafa undirgengist þá skuldbindingu, þótt ekki sé undirritað, að verja allt að 20% af ráðstöfunarfé sjóðanna til Byggingarsjóðs á þessu ári? Það er vitað mál, að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna 1975 verður hið minnsta 4–5 milljarðar og þá geta menn nokkurn veginn gert sér í hugarlund þá miklu aukningu fjármagns sem fer til Byggingarsjóðs og sérstaklega mun vera ætlað að renni til landsbyggðarinnar á þessu ári. Þetta er því ekki niðurskurðarfrv. sem hér er á ferðinni, nema síður sé, enda ekki sambærilegar upphæðir þegar bent er á þá auknu fjármögnun sem á sér stað í Byggðasjóði og Byggingarsjóði, miðað við þær litlu — ég segi litlu fjárupphæðir sem hér er um að ræða, en skipta miklu máli fyrir þær konur sem eiga að njóta fæðingarorlofs.

Það hefur verið mikið talað um hvort hér væri um 100 eða 200 millj. kr. að ræða á ári. Ég hef athugað þessar tölur betur og komist að þeirri niðurstöðu að hér geti verið um að ræða 100–120 millj. kr. miðað við heilt ár. Ef þetta frv. verður samþ. á þingi núna má gera ráð fyrir því að lögin komi til framkvæmda frá og með 1. júlí. Þá er nú líklegast óhætt að helminga upphæðina nema flest börn komi undir fyrri hluta árs og fæðingar séu því óvenjulega miklar seinni hluta árs. Um það ætla ég náttúrlega ekki að fjölyrða á þessu stigi, enda erfitt að sanna það atriði. En ég tel það rétt, eða fara nærri að hér gæti verið um 60 millj. að ræða. Auk þess kæmi einnig til greina, ef staðan er mjög þröng, að bjóða upp á það að gildistaka þessara laga væri t.d. frá og með 1. okt. Það, sem skiptir máli fyrir þær konur sem eiga að njóta þessara réttinda, er að festa það að þær skuli fá fæðingarfrí og greitt fæðingarfrí, en ekki sú neikvæða afstaða sem kemur fram hjá andstæðingum þessa frv.

Hv. 5. þm. Vestf. ætlaði að leiðbeina okkur flm. um að fara réttar leiðir í þessu máli. Ég spyr: Getur ekki verið og er það ekki rétt leið að sá sjóður, sem konurnar hafa sjálfar tekið þátt í að mynda, standi undir þessum greiðslum? Við flm. teljum það hina einu réttu leið vegna þess að það virðist vera eina færa leiðin. Flestir hv. þm., sem hér eru inni, hafa setið á Alþ. í fjöldamörg ár og þeim hefur ekki enn tekist að koma þessu réttlætis- og sanngirnismáli í höfn. En við höfum bent á leiðina og hún er fær ef velvilji og góðgirni er fyrir hendi. Núna er sem sagt tækifærið að festa málið og tryggja framgang þess.

En varðandi það, sem hv. 4. þm. Vestf. sagði um félagsheimilin og fæðingarfrí og annað í upphafi sinnar ræðu, skal ég ekki fjölyrða, en ég vil vekja athygli á tvennu í sambandi við ræðu hans. Hann sagði: Það var tilgangur laga um Atvinnuleysistryggingasjóð árið 1955 að fjármagn hans skyldi ávaxtað í heimahéraði. — Ég vil bæta við að í lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð stendur að það skuli leggja greiðslur vegna hvers félagsmanns inn á sérreikning viðkomandi stéttarfélags. Þetta ákvæði hefur ekki verið framkvæmt. (Gripið fram í: Jú.) Þá hefur það verið framkvæmt á mjög hlutdrægan hátt. Ég segi sem formaður í stóru stéttarfélagi hér í Reykjavík: Þetta hefur ekki verið gert vegna þess félags sem ég er formaður fyrir og í eru núna 5 500 manns. Hvernig skyldi sérreikningur þessa félags líta út ef hann hefði verið gerður upp frá því að konur í mínu félagi öðluðust þessi réttindi árið 1966, og hvað skyldu þær vera margar? Þær eru núna rúmlega 3 000. Ég segi þess vegna við ykkur, ágætu þm., hvort sem þið eruð þm. fyrir Reykjavík eða strjálbýlið: Sýnið þið sanngirni í þessu máli og gerið ykkur grein fyrir því í hverju stærðirnar eru fólgnar. Ef sú framkvæmd hefði verið gerð sem lög gera ráð fyrir, þá mundu t.d. félagskonur Verslunarmannafélags Reykjavíkur horfa fram á það að á sérreikningi þess félags væru ekki nokkrir tugir milljóna heldur hundruð millj., ég fullyrði yfir hálfan milljarð. Við höfum ekki gert kröfu til þess að þetta ákvæði kæmi til framkvæmda, en það getur verið ef þetta mál verður tafið eða eyðilagt hér á þingi, að sú ósk komi fram frá stéttarfélögunum að þetta ákvæði komi til framkvæmda. (Gripið inn í.) Við skulum þá sjá um það, Eðvarð Sigurðsson, að það verði gert. Þá koma réttar stærðir í ljós og ég treysti því að hv. 7. þm. Reykv., eins og ég væntanlega, muni sýna fulla sanngirni og ekki hlutdrægni í sambandi við ráðstöfun á því fjármagni sem verður í Atvinnuleysistryggingasjóði á hverjum tíma þó að sérreikningar sýni stórar upphæðir fyrir okkar félög hér á Reykjavíkursvæðinu.

Þess vegna segi ég við ykkur: Konurnar í verkakvennafélögunum og konurnar í blönduðu félögunum hafa ekki verið kröfuharðar. Það hefur sem betur fer ekki verið mikið atvinnuleysi hjá þessum konum. Ég er sannfærður um að ef þessar konur átta sig á því hvað hér er á ferðinni og ef þær hafa fylgst með þeim umr. sem hér hafa verið, þá munu þær vakna til meðvitundar um að krefjast réttar síns.

Varðandi það atriði að taka þetta upp í samningaviðræðum verkalýðsfélaganna núna 1. júní, eins og hv. 4. þm. Vestf. kom inn á, þá vil ég aðeins vekja athygli á því að það er yfirlýst stefna verkalýðshreyfingarinnar að viðræðurnar 1. júní snúist um að fá fullar vísitölubætur á kaup. Ef þetta kæmi inn í þær viðræður mundi það vera túlkað sem aukakröfur og ég vil segja litlar líkur fyrir því að þetta næði fram að ganga í þeim viðræðum. Yfirlýsingar eru ekki fullnægjandi, eins og hv. 4. þm. Vestf, vildi halda fram. Það eina, sem dugir vegna þeirra þúsunda kvenna sem ég hef m.a. félagslega forustu fyrir og ég get skilað til hv. þm., er að þessar konur og kynsystur þeirra í atvinnulífinu vænta þess, að hv. Alþ. tryggi framgang þessa réttlætismáls á þessu þingi.