12.05.1975
Efri deild: 88. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3925 í B-deild Alþingistíðinda. (3126)

222. mál, Leiklistarskóli Íslands

Utanrrh. (Einan Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil mjög fagna því að þetta frv. er fram komið og mun styðja það heils hugar.

Ég vil í tilefni af þessum umr. minna á það að þegar á Alþ. 1968 flutti ég ásamt tveimur öðrum hv. þm. frv. sem ég kallaði: Um Leiklistarskóla ríkisins. Það frv. er mjög í þeim anda sem það frv., sem við ræðum nú, er og ætla ég ekki að fara að gera neinn samanburð á þessum tveim frv. Það er ekki þess ómaks vert því að munurinn er svo sáralitill. Ég hafði að vísu gert ráð fyrir að 5 manna skólastjórn væri nóg, en hæstv. ráðh. hefur lagt til að skólastjórn yrði skipuð 7 mönnum og Nd. hefur nú breytt því í 9 menn. Því betur gefast viturra manna ráð sem þeir koma fleiri saman áreiðanlega svo að ég hef síður en svo neitt við það að athuga.

En örlög þess frv. sem ég flutti árið 1968 ásamt þeim hv. þm. Ólafi Jóhannessyni og Páli Þorsteinssyni, urðu þau að því var í marsmánuði 1969 vísað til ríkisstj. á þeim forsendum að menntmrh. hefði þá fyrir skemmstu ritað tilteknum aðilum bréf og farið þess á leit við þá að tilnefna fulltrúa til að taka sæti í n. til þess að athuga og gera till. um sameiningu þeirra tveggja leiklistarskóla, sem reknir eru af Þjóðleikhúsinu og Leikfélagi Reykjavíkur, og gera í því sambandi áætlun um stofn- og rekstrarkostnað. Þessi n. starfaði árið 1969 og skilaði ítarlegri grg. til menntmrn. í janúarmánuði 1970. En á þinginu 1970 hafði ekkert til þessa máls frekar spurst og þá fluttum við þetta frv. aftur. Þá dagaði það uppi og síðan hefur ekkert til málsins heyrst þangað til loksins nú að menntmrn. eða hæstv. menntmrh. núv. flytur þetta frv. Mér finnst þessi meðgöngutími vera orðin ærið langur og of langur, verð ég að segja, því að það er öllum ljóst að leikmenntun hér á landi hefur dregist aftur úr því sem annars staðar gerist og þeir leiklistarskólar, sem reknir hafa verið, hafa ekki verið þess megnugir að veita þá tilsögn sem nauðsynleg er.

Ég sem sagt fagna þessu frv. mjög og heiti því eindregnum stuðningi.