12.05.1975
Efri deild: 88. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3928 í B-deild Alþingistíðinda. (3131)

240. mál, ríkisreikningurinn 1972

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1972 liggur fyrir á þskj. 458 og hefur verið afgr. frá hv. Nd. Þá hefur verið lagt fyrir þetta þing frv. til fjáraukalaga vegna sama árs og var gerð grein fyrir því í umr. í Sþ. Aðalyfirlit A-hluta ríkisreiknings fyrir árið 1972 var afhent þm. vorið 1973, og reikningurinn í heild með sundurliðunaryfirlitum A-hlutans og öllum yfirlítum B-hlutans, frágenginn af hálfu ríkisbókhaldsins til meðferðar hjá yfirskoðunarmönnum Alþ., var afhentur þm. í okt. 1973.

Við 1. umr. fjárlagafrv. fyrir árið 1974 var gerð ítarleg grein fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 1972 samkv. ríkisreikningi og jafnframt lögð fram grg. ríkisbókhaldsins þar um. Með fyrrnefndu frv. og frv. til fjáraukalaga fyrir 1972, sem gerð hefur verið grein fyrir í Sþ., gerði ég grein fyrir helstu frávikum í ríkisreikningi og fjárl. ársins 1972. Tel ég því ekki ástæðu til frekari grg. hér. Ég er reiðubúinn til allra upplýsinga fyrir hv. fjh.- og viðskn. sem ég legg til að málinu verði vísað til að lokinni þessari umr.

Ég vonast til þess, enda þótt málið sé kannske siðbúið hér í hv. þd., að þá megi takast að ljúka því og það verði samþ. sem lög frá Alþ. áður en þingi verður slitið.