12.05.1975
Neðri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3930 í B-deild Alþingistíðinda. (3147)

264. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Frsm. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Það var um miðjan dag í dag, sem okkur hv. þm. Garðari Sigurðssyni, sem skipum minni hl. sjútvn., var skýrt frá því að meiri hl. n. hefði orðið sammála um álit sem hér hefur verið gert grein fyrir. Við höfum því ekki fengið nema fundarhléið til að ganga frá okkar nál, í þessu máli og svo hart er nú keyrt á síðustu dögum þingsins að það hefur ekki unnist tími til að vélrita handritið. Ég verð því að biðja hv. þm. að hafa nokkra biðlund á um að fá að sjá þetta nál. okkar í minni hl., sem erum sammála um afstöðu okkar til þessa máls.

Með lögum nr. 72 frá 23. maí 1969 var stofnaður sjóður, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins, með skylduframlögum aðila í sjávarútvegi. Tilgangur sjóðsins er að tryggja sem jafnast verð á útflutningsafurðum fiskiðnaðarins með því móti að þegar verðlag á þeim afurðum er hátt erlendis á að leggja hluta af tekjum aðila í sjávarútvegi í sjóðinn, en þegar verð erlendis fer lækkandi hleypur sjóðurinn undir bagga með greiðslu verðuppbóta.

Það fer ekki á milli mála að atvinnugrein eins og sjávarútvegurinn, sem háður er miklum verðsveiflum á afurðum sínum erlendis, þarf að eiga sér slíkan sjóð sem Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins er til að tryggja atvinnugreininni sem jafnastar ytri aðstæður. Hinu hættir mönnum stundum til að gleyma og ég legg áherslu á að menn virðast hafa gleymt því að sumu leyti sem samið hafa þetta frv. að sjóður þessi er myndaður af aðilum í sjávarútvegi eingöngu og er því óskoruð og óvefengjanleg eign þeirra sem við þann atvinnuveg starfa, raunar eins konar geymslufé þeirra. Að því leytinu til nýtur sjóðurinn nokkurrar sérstöðu umfram aðra sjóði og ætti að vera óheimilt að ráðstafa fé úr sjóðnum til greiðslu eða lánveitinga nema þá í þágu þeirra sem sjóðinn eiga og með fullu samþykki þeirra sem að honum standa.

Það gefur auðvitað auga leið að sjóður eins og Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins, sem myndaður er af geymslufé útflutningsatvinnuvega, verður ávallt að halda verðgildi sínu óbreyttu án tillits til gengisfellinga. Það er raunar forsenda fyrir sjóðnum að það fjármagn, sem rennur til hans sem hluti af gjaldeyristekjum sjávarútvegsins, sé varðveitt í erlendri mynt, enda mun það hafa verið tilgangur þeirra sem sömdu gildandi lög um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Undir stjórn núv. hæstv, ríkisstj. skapaðist hins vegar slíkt ófremdarástand í gjaldeyrismálum þjóðarinnar að þegar síðasta gengisbreyting var gerð mátti heita að Seðlabankinn ætti engan erlendan gjaldeyri. Stóð því engin gjaldeyriseign á bak við Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins þar sem sú baktrygging sjóðsins hafði gufað upp sem eyðslufé í óstjórninni. Miðað við tilgang sjóðsins mátti því heita að hann væri aðeins til á pappírnum. Seðlabankinn hefur því ekki getað staðið við að gengistryggja sjóðinn og er nú ætlunin með þessu frv. að létta þeirri kvöð af honum og flytja yfir á ríkissjóð. Er með öllu óvitað hve þungan bagga er hér verið að binda ríkissjóði til frambúðar. Auk þessa má einnig benda á að ríkissjóði er aðeins ætlað að taka við skyldunum þar sem Seðlabankanum er hins vegar ætlað að varðveita sjóðinn áfram, svo og er honum falið það nýja verkefni samkvæmt frv. að ávaxta fé sjóðsins með gengistryggðum lánveitingum til banka og annarra lánastofnana. Og ég bendi sérstaklega á að samkvæmt frv. virðist bankinn t.d. allt eins geta lánað þetta geymslufé sjávarútvegsins til annarra aðila en aðila í sjávarútvegi. Hefur Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins þar með talsvert fjarlægst upphaflegan tilgang sinn og er í rauninni orðinn fjárfestingarlánasjóður í umsjá Seðlabankans án tillits til þess að þarna er um að ræða fé sem aðilar í sjávarútvegi hafa safnað, sem tekið er af þeim með skylduframlögum og þeir eiga.

Verði frv. samþ. óbreytt þá hefur tvennt gerst:

1. Ríkissjóður hefur tekið að sér skuldbindingarnar, þær skuldbindingar að gengistryggja fé sjóðsins.

2. Það er farið að ráðstafa þessari eign aðila í sjávarútvegi af Seðlabankanum til lánveitinga til hinna og þessara fyrirtækja innan sjávarútvegs eða utan, á sama hátt eins og verið væri að fara með venjulega fjárfestingarlánasjóði sem ríkisvaldið legði meginhluta eða a.m.k. stóran hluta af fjármagni til.

Það er þess vegna sem ég sagði að menn ættu að hafa það hugfast, sem virðist hafa gleymst nú, hverjir eiga þennan sjóð, hverjir hafa myndað þennan sjóð og í hvaða skyni hann var stofnaður.

Minni hl. sjútvn. telur að eignir Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins þurfi að varðveita í erlendum gjaldeyri og það hafi átt að gera. Í ljós hefur hins vegar komið að það hefur ekki verið gert. Einnig þessi baktrygging sjóðsins brann til ösku á báli ríkisstj. ásamt öðrum þeim erlenda gjaldeyri sem þjóðin hafði handa á milli. Með frv. þessu er því stefnt að gengistryggingu sjóðsins með öðrum hætti og af öðrum aðilum, Minni hl. n. telur að þær aðferðir séu stórum lakari og umdeildari og mun ekki styðja þær. Ríkisstj. verður sjálf að bera ábyrgð á þeim, eins og hún bar ábyrgð á því stjórnleysi í gjaldeyrismálum þjóðarinnar sem varð til þess að grundvöllur Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, innistæður í erlendum gjaldeyri fyrir inneign hans, — þessi grundvöllur hrundi. Minni hl. sjútvn. mun sem sagt ekki greiða atkvæði með þessu frv., styður það ekki, gerir sér hins vegar ljóst að það er rík ástæða til þess að gengistryggja fé sjóðsins með einum eða öðrum hætti. Fyrst ríkisstj. telur sér þennan hátt einan færan, eftir að hún hefur gefist upp við að framfylgja þeim hætti sem settur var í gildandi lögum, þá verður hún að bera ábyrgðina.