12.05.1975
Neðri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3932 í B-deild Alþingistíðinda. (3148)

264. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Yfirleitt reyna nú stjórnarsinnar að stytta umr. eins og hægt er þegar líður að þinglokum, en svo ofboðslega vitlausar geta þó ræður orðið að það er ekki hægt að sitja undir jafnmikilli vitleysu, og t.d. kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Hann byrjar mál sitt á því að segja, að núv. ríkisstj. hafi eytt gjaldeyrisforða landsmanna og það hafi ekki verið hægt að gengistryggja Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Núv. ríkisstj. tekur við 28. ágúst, þá er gjaldeyrisforði landsmanna búinn. Það er eins og pilturinn, sem var að tala, sé að fæðast í dag. Það hafði ekkert verið gengistryggt. Samkv. breyt. á l. Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins frá 1972 var til þess ætlast að hluti af Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins væri gengistryggður. Það var ekki gert. Svo kemur þessi þm. og segir núv. ríkisstj. að henni sé um að kenna og hann fær undir þetta plagg sakleysingja úr Vestmannaeyjum, stuðningsmann fyrrv. ríkisstj. og fyrrv. sjútvrh., 5. þm. Sunnl. Og hann bindur fyrir bæði augu og skrifar undir þessa endemis vitleysu. Hugsa sér nú þetta að það skuli vera tveir virðulegir fulltrúar stjórnarandstöðunnar í sjútvn. Nd. sem láta slíkt plagg frá sér fara. Hvað eru þessir menn að hugsa eða hugsa þeir alls ekki neitt?

Hvað er svo verið að gera nú með þessu frv.? Það, sem verið er að gera, er að tryggja Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Gjaldeyrisforði er ekki til, það er ekki um það að ræða. Þess vegna er verið að tryggja hann. Það, sem búið er að gera frá því að gengisbreyt. var gerð í ágústlok, er að það er búið að semja við Seðlabankann að hann greiði vegna hagstæðrar rekstrarafkomu á árinu 1974 400 millj.

Svo er annað endemis plagg á borðinu, sem við vorum að fá, sem á að fylgja næsta frv. frá þessum tveimur vitringum. Og ekki er það betra eða skynsamlegra. Þetta eru alveg endemis vinnubrögð. Og ég held að það væri sama hvað þessir menn hefðu langan umhugsunartíma, þeir virðast ekkert skilja hvað þeir eru að gera. Hér er verið að bjarga því sem bjargað varð, eftir að svikist hafði verið um að gengistryggja Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Ég ráðlegg báðum þessum mönnum, hvort sem þeir vilja vera saman í bekk eða sitt í hvoru lagi, að fara í skóla og kynna sér þessi mál áður en þeir láta svona endemis vitleysu frá sér fara.