12.05.1975
Neðri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3938 í B-deild Alþingistíðinda. (3157)

265. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að svara þessari gagnmerku tímamótaræðu sem hv. þm. var að flytja. Hann var að ná sér aðeins á strik. Það verð ég að virða við hann að hann skammaðist sín nokkuð fyrir frumhlaupið áðan og hann er ekkert minni maður fyrir það. En það, sem ég hef að segja hér, er beint út af frv. sem liggur fyrir.

Þegar frv. um ráðstafanir vegna breytts gengis Seðlabanka Íslands var hér til meðferðar var b-liður 2. gr. þannig að leggja fram gengisbætur vegna innstæðna Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Þetta tekur Seðlabankinn inn og ríkisstj. og Alþ. og enginn aðili ræðst gegn því hér. Hins vegar kemur það fljótt í ljós þegar farið er að kanna ráðstöfun gengishagnaðarins og undirbúa brbl., sem gefin voru út, hvað skert er sú upphæð sem gengishagnaðurinn átti að nema, og þá er farið að kanna til hlítar hvernig háttað var gengistryggingu Verðjöfnunarsjóðsins. Þá kemur í ljós að Verðjöfnunarsjóðurinn hafði ekki verið gengistryggður þrátt fyrir ákvæði laga um breyt. á lögunum um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins frá 1972, en það frv. var flutt af nokkrum þm. Sjálfstfl. og fyrsti flm. þess máls var, að ég örugglega man rétt, 3. þm. Sunnl.

Þegar þetta kemur í ljós hefjast viðræður á milli ríkisstj. og Seðlabankans og ég skal játa að ég átti mikinn þátt í þeim viðræðum. Ég taldi að þarna hefði átt að gengistryggja samkv. lögunum frá 1972 Verðjöfnunarsjóðinn, sem ekki var gert, og því taldi ég ótækt að ganga þannig á ráðstöfunarfé sem sjávarútvegurinn ella ætti rétt á. Og þegar brbl. eru hér til umr. á hv. Alþ., þá er ekki einn einasti þm. sem gagnrýnir það að fram hjá þessum b-lið er gengið. Því er lýst yfir að ríkisstj. muni flytja frv. um að afnema b-lið þessara laga og allir eru ánægðir, allir aðilar í fiskiðnaði og engin óánægjurödd hér á Alþ., að þessu fé sé ráðstafað til sjávarútvegsins, en ekki tekið af gengishagnaði til að verðbæta Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Það halda áfram margvíslegar umr. og viðræður við Seðlabankann. Úrslit þeirra viðræðna eru þau að Seðlabankinn fellst á að greiða þessar 400 millj. af eigin fé bankans til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Það hélt ég að allir þm. væru mjög ásáttir með og ánægðir að sú lausn fékkst. Og þessum 400 millj. var skipt hér á þingi í des. til ráðstöfunar í sjávarútvegi án þess að nokkur maður mælti gegn því. Ef ríkisstj. hefur brotið lög, þá hafa allir þm. brotið þessi lög sem hv. þm. var að tala um, enginn mótmælti þessu lagabroti. Og sá dýrlegi maður, fyrirrennari minn, sjútvrh., sem hv. ræðumaður hneigði sig fyrir, þegar hann nefndi hann hér í ræðustólnum, hann gagnrýndi einmitt alveg sérstaklega þetta atriði svo að nú er hann orðinn honum algjörlega ósammála. Nú vill þessi hv. þm. endilega fría Seðlabankann við að borga þessar 400 millj., en taka þær af sjávarútveginum. Mér finnst þetta alveg óskiljanlegur hringsnúningur. Það getur vel verið að það henti sumum að snúa svona sitt á hvað, en ég tel að hér hafi náðst ákaflega góðir og skynsamlegir samningar og fullt samkomulag við Seðlabankann, sem var höfuðatriði þessa máls, og þar með var þetta mál afgr. á þennan hátt. Mér datt ekki í hug að það væri einn einasti þm. sem setti sig upp á móti því að b-liður þessarar gr. frá því í haust væri felldur niður. En það getur verið að þessum hv. þm, sé meira umhugað um góða útkomu og gróða Seðlabankans heldur en að bæta sjávarútveginum þetta tap.